25.01.1949
Sameinað þing: 31. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (4313)

21. mál, jeppabifreiðar

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég get takmarkað mál mitt, þar sem hv. frsm. n. hefur lýst yfir því, að hann vilji gjarnan við mig eða mitt rn. tala um afgreiðslu þessarar till., og er ég honum þakklátur fyrir það. Ég geri ráð fyrir, að málinu geti orðið, með samþykki hans eða n., frestað um sinn, og mætti þá eiga samræður um, hvernig þessu yrði haganlegast fyrir komið. Ég vil þó benda á, að þetta væri varhugaverð braut að fara inn á, því að þetta yrði til þess að kalla fram ýmsar hliðstæðar till., á því er enginn vafi. Hv. frsm. sagði, að hann fengi ekki séð, að farið væri með þessu inn á hæpna braut, en með því að samþ. þetta væri farið inn á þá braut, að fram kæmu aðrar till. um annan innflutning, sem farið væri fram á. Því hefur t. d. verið hreyft hér, að fá þyrfti innflutning á talsverðu magni af ljósasamstæðum fyrir bæinn. Ég man ekki, hvort komið hefur fram um þetta till., en um þetta hefur verið talað, og á þessu er mikil nauðsyn, en hvort hægt er að gera það svo að segja allt í einu, um það er allt vafasamara. En þegar farið er inn á þessa leið með þá vörutegund, sem hér um ræðir, hljóta að sigla í kjölfarið kröfur um fjölmargar aðrar vörutegundir, sem líka verða að teljast bráðnauðsynlegar, á sama hátt og vinnuverkfæri fyrir landbúnaðinn, og þó að hv. frsm. vilji ekki viðurkenna það, má fyllilega bera nauðsynina fyrir þessi vinnusparandi verkfæri til handa landbúnaðinum saman við vinnusparandi verkfæri fyrir húsmæður í kaupstöðum, sem með því móti geta sparað sér erfiði við sín daglegu störf, þótt ekki sé þar um framleiðslu að ræða. Og maður gæti líka hugsað sér aðrar vörutegundir, sem flytja mætti um till., er færu í sömu átt. Ég geri t. d. ráð fyrir, að ýmsum þyki skorið við nögl það, sem fjárhagsráð hefur áætlað til byggingarframkvæmda í landinu. Mundu ýmsir vilja byggja fleiri hús, en þá yrði að flytja inn meira sement o. fl., sem þarf til húsbygginga. Verði þessi till. samþ. nú, sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að fram komi till. í sama formi um aukinn innflutning á þessum vörum upp í ákveðið magn, og yrðu þannig ákvarðanir um innflutningsmagn smám saman teknar úr höndum fjárhagsráðs og teknar hér á Alþingi, þannig að þetta form kæmi til með að gera þessi lög um fjárhagsráð óvirk.

Hv. þm. Barð. spurði, hvernig með málið mundi farið, ef samþ. yrði. Ég get ekki svarað honum öðru en því að, að vísu brýtur ekki þessi till. l. um fjárhagsráð, svo að úrslitayfirráð um innflutningsmagn fara samkv. þeim l. eftir ákvörðunum ráðsins. En verði þessi till. samþ., getur ekki hjá því farið, að samfara því er viðleitni fjárhagsráðsmanna til þess að takmarka innflutninginn úr sögunni, og ríkisstj. miðar að því að verða við óskum þingsins. Annað mál er það, að ég efast um, að hægt verði að gera það, sem hér er lagt til, með þeim gjaldeyrisforða, sem við höfum yfir að ráða nú. Hv. frsm. allshn. kom að því hvað eftir annað í sinni ræðu, að útflutningurinn hefði stóraukizt síðastliðið ár, eða um þriðjung, sagði hann, svo að gera mætti ráð fyrir rýmri innflutningi, og þessa sjónarmiðs hefur víðar orðið vart, að það væri undarlegt, að ekki væri hægt að auka innflutninginn, þegar útflutningurinn stórykist. En í þessu sambandi verður að athuga í fyrsta lagi, að árið 1948 var alveg óvenjulegt hvað útflutning snerti vegna síldarvertíðarinnar um áramótin 1947–48, svo að tæpast er hægt að gera ráð fyrir því sama nú, nema með óvenjugóðri síldarvertíð í sumar. Í öðru lagi má benda á, að á árinu 1948 hefur verið flutt inn svo mikið af fjárfestingarvörum til þess atvinnuvegar, sem þennan stóraukna útflutning skapaði, að sá innflutningur hefur gleypt mest af útflutningsverðmætinu. Nú er svo gert ráð fyrir að flytja inn landbúnaðarvélar fyrir 10 milljónir, og jeppabifreiðar fyrir 3 milljónir. Þá eru komnar 13 milljónir. Þá á að flytja inn fóðurvörur fyrir 7 milljónir, það verða 20. Tilbúinn áburður er áætlaður 6 milljónir og er þá áætlaður innflutningur til landbúnaðarins kominn upp í 26 milljónir. Hér er svo með þessari þáltill. lagt til að auka jeppainnflutninginn um 3 milljónir, og enn liggja fyrir till. um að auka innflutning landbúnaðarvéla um 5 milljónir. Ef allt þetta yrði gert, þá er innflutningur á vélum og rekstrarvörum til landbúnaðarins orðinn milli 30 og 40 milljónir á einu ári, en samtímis þessu lækkar áætlaður útflutningur landbúnaðarafurða úr 20 milljónum niður í 10 milljónir. Sem sagt, á árinu 1949 er gert ráð fyrir 20–30 milljónum meira í rekstrarvörur og vélar handa landbúnaðinum, en útflutningsverðmæti hans nemur. Á þessu ári hefur ullar- og kjötútflutningur stórminnkað. Þetta verður svo til þess að þrengja um innflutning á öðrum sviðum, þegar rekstrarvörur og vélar handa landbúnaðinum fara langt fram úr því útflutningsverðmæti, sem hann skapar. Það er því full ástæða til, að ekki hefur alltaf tekizt að flytja inn bráðnauðsynlegustu vörur, sem aðrir þurfa að nota, svo sem skömmtunarvörur. Af hálfu fjárhagsráðs hefur verið reynt að koma í veg fyrir, að menn fengju ekki út á skömmtunarmiða, en að birgja landið af nauðsynlegustu vörum kostar fé, og það fé verður ekki notað nema með því að draga úr öðrum innflutningi. Menn verða því að gera það upp við sig, hvað helzt skuli kaupa, og gera það upp við sig í heild, en taka ekki einstök atriði út úr, eins og gert er með þessari till., og eyðileggja þannig innflutningsáætlun fjárhagsráðs. Ég viðurkenni, að það væri æskilegt að flytja inn alla þessa jeppa á einu ári, en þetta er þó helmingurinn af áætluðum 4 ára innflutningi, sem hér á að taka á einu ári, og mér fyndist alveg forsvaranlegt að dreifa þessu nokkuð jafnt á þessi fjögur ár. Sagt er, að eftirspurnin sé svo mikil eftir jeppunum, að dreifingin verði mjög erfið, ef ekki sé hægt að fullnægja eftirspurninni nokkuð á einu ári. Ég spyr bara: Hvað mikið þarf til að fullnægja eftirspurninni? Er nokkurs staðar í eftirsóttum vöruflokkum hægt að hugsa sér að fullnægja eftirspurninni á einu ári? Menn verða að bíða og reyna að sætta sig við sama hlutskipti og aðrir. Ég er ekki frá því, að aðrir en bændur færu að hugsa sig um, ef landbúnaðurinn fengi á einu ári helminginn af fjögurra ára þörf í staðinn fyrir, að í ýmsum öðrum greinum hefur orðið að fara niður fyrir það meðallag, sem vonazt var til að mætti flytja inn á ári. Og þegar um svona stórfelldan vélainnflutning til landbúnaðarins er að ræða, þá vænti ég þess, að nokkuð af þeim 10 milljónum, sem þar til eru áætlaðar, geti orðið til þess, að bændur sætti sig við ¼ af jeppainnflutningnum á þessu ári. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara öllu lengra út í þetta, því að málið liggur ljóst fyrir og fram hefur komið það, sem koma þarf fram, við þessa umr. En menn verða að gera sér ljóst í fyrsta lagi, hvort Alþingi á að ákveða innflutninginn í einstökum vöruflokkum, og í öðru lagi, hvort það treystist til að tvöfalda jeppainnflutninginn samtímis því, að dregið er úr öðrum innflutningi, og samtímis því, sem nú er ætlað meira fé til innfluttra landbúnaðarvéla, en undanfarin ár. Ég skildi hv. frsm. svo, að hann væri fús til viðræðna við ráðuneytið um málið, og fer ég því fram á það við hæstv. forseta, að hann fresti málinu, ef ná mætti um það samkomulagi.