29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (4429)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Ásmundur Sigurðsson:

Þessi síðasta ræða hæstv. utanrrh. var nauðalík flestu öðru, sem hann hefur haldið fram í sambandi við þetta mál. Svörin eru alltaf þessi: Kommúnistar eru leiguþý úr austri, sem vilja láta erlent stórveldi taka Ísland. Þetta eru svörin við hverju sem er, alveg eins þó að fundið sé að, að landinu sé stjórnað án fjárl. þriðjung ársins, þá er svarið alltaf það sama.

Það var svolítið fleira, sem ég vildi minnast á í sambandi við þessa ræðu hæstv. ráðh. og í sambandi við það, sem hann hefur sagt hér áður.

Hæstv. utanrrh. sagði, að það eina, sem krafizt væri af okkur, væri að láta svipaða aðstöðu og í síðasta stríði, og endurtók það, að hlutleysi okkar hefði verið úr sögunni 1940. Ég vil vitna aftur til yfirlýsingar hv. þm. G-K., sem hann gaf í umr. um það, að Bandaríkin væru beðin um hervernd 1941. Þá sagði hann: „Ég viðurkenni, að hér er um veigamikinn mun að ræða, en ég neita því, að Ísland hafi með þessu brotið í bága við yfirlýsta stefnu um ævarandi hlutleysi.“

Annars er ástæða til að benda frekar á, hvað þetta getur þýtt fyrir okkur, ef friðslit verða. Við höfum dæmin frá fyrra stríði um það. Það fóru ýmis ríki í stríðið með nazistum á þeim tíma, sem þau héldu, að þeir mundu sigra. En svo biðu þeir ósigur. Og hvað ætli það hafi kostað þau að hafa farið í stríðið með þeim? Ég býst við, að þessi ríki hefðu kosið, að þau hefðu aldrei farið í stríð með nazistum í þeirri von, að þeir mundu sigra allir saman.

Það þýðir ekki að segja, að hlutleysi sé einskis virði í styrjöld. Það getur verið mikils virði að vera hlutlaus gagnvart báðum hernaðaraðilum. Við skulum taka dæmi frá síðasta stríði. Hvers virði var það fyrir Frakkland í síðasta stríði að lýsa París óvíggirta borg, þegar Þjóðverjar tóku Frakkland? Það tíðkast talsvert í stríði að auglýsa borgir óvíggirtar, því að þegar það er gert, er það siðferðileg skylda fyrir þann, sem er að gera árás, að hlífa þeim verðmætum, sem eru óvíggirt. Þannig verður það með íslenzku þjóðina. Ef hún er hlutlaus, þá er það siðferðileg skylda fyrir þá aðila, sem eiga í höggi við Bandaríkin, sem hefðu hér hernaðarlega aðstöðu, að hlífa íslenzku þjóðinni, en samkvæmt viðurkenndum reglum hernaðar hefðu þeir enga slíka skyldu við íslenzku þjóðina, ef hún væri beinn þátttakandi. Þetta er það, sem almenningur skilur vel, og þess vegna heimtar hann svo stíft þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Annars er furðulegt, hvað, mikil áherzla er lögð á að fá Íslendinga inn í þetta bandalag. Hæstv. forsrh. lýsti yfir, að á 4. hundrað millj. manna væru komnar inn í þetta bandalag. Er það þá svo mikið höfuðatriði, að Íslendingar, 130 þús. að tölu, bætist við? Við erum mikilsverður hluti af mannkyninu, ef það er ómögulegt fyrir þessar 320 millj. að tryggja öryggi sitt, nema Íslendingar séu með. Nei, almenningur sér vel gegnum svona blekkingar og þm. líka og stj. kannske allra bezt.

Hvað þýðir það, ef við erum komnir inn í hernaðarblokk sem styrjaldaraðili og sá aðili, sem við höfum hallað okkur að, biður ósigur, eins og nazistar í síðasta stríði og þar með allar þær þjóðir, sem höfðu tekið þátt í stríðinu með nazistum, svo að við verðum sigruð þjóð? Hvað þýddi þetta fyrir þær? Það, að þær urðu skaðabótaskyldar og urðu að bíða óbætt allt það tjón, sem þær höfðu beðið í styrjöldinni. Þetta er það, sem íslenzkur almenningur skilur vel og vill ekki, að íslenzka þjóðin geri. Og þeim mun meiri ástæða er fyrir þá, sem halda, að hætta stafi frá Sovétríkjunum, að hugsa út í, hvað það getur þýtt, ef við í lok þeirrar væntanlegu styrjaldar, sem þeir búast við, verðum sem sigruð þjóð fyrir Sovétríkjunum og undir þá gefnir, ef við tökum þátt í styrjöld á móti þeim og verðum að taka þeim afleiðingum, sem slíku fylgja. Ég veit, að það eru margir menn, sem hugsa ekki svo djúpt, að þeir haldi, að þetta komi fyrir. Ég talaði við greindan mann utan af landi, framsóknarmann, sem lýsti skoðun sinni á þessu og hélt því fram, að bezt væri fyrir okkur að ganga í bandalagið. Þegar við fórum að ræða þetta fram og aftur, spurði ég hann, hvernig hann liti á það, ef svo færi, að Bandaríkin, sem við gengjum í bandalag við, yrðu undir og við sigraðir af Sovétríkjunum. Hann svaraði: „Við hugsum bara ekki málið á þann hátt.“ Ef fólkið hugsar ekki málið á þann hátt, gæti það að vissu leyti virzt eðlileg afstaða að ganga í þetta bandalag með Bandaríkjunum. En það er mjög athugandi fyrir þá, sem ekki hugsa málið svona einhliða, að athuga, hvort ekki eru mjög miklar líkur til þess, að svo kynni að fara, að Bandaríkin töpuðu slíkri styrjöld. Við vitum, að síðustu 24 ár er búin að standa borgarastyrjöld í Kína og Bandaríkjamenn hafa veitt þeim alla þá aðstoð, sem þeir hafa getað, bæði sérfræðinga, vopn og peninga, en þrátt fyrir það eru það kommúnistar, sem eru að leggja landið undir sig. Hvað þýðir þetta fyrir þann möguleika, að Bandaríkin geti unnið í næstu styrjöld? Það, að möguleikar auðvaldsins í næstu styrjöld verða hverfandi litlir til þess að vinna. Kapítalisminn fer með sjálfan sig, en spurningin er sú, hve mikið hann dregur með sér í fallinu. Þetta ættu þeir að athuga, sem vilja, að við verðum þátttakendur í þessu bandalagi.

Nei, það, sem hér liggur til grundvallar, þegar verið er að gera kröfu til þess, að þessir 130 þús. Íslendingar gangi í þetta bandalag vegna þess, að það sé nauðsynlegt fyrir öryggi hinna 220–230 milljóna manna, sem eru stofnendur þess, þá er greinilegt, að allt annað liggur til grundvallar, þegar þess er gætt, að þetta bandalag mundi hafa hina sömu aðstöðu á Íslandi, hvort sem íslenzka þjóðin gerist þátttakandi eða ekki. Utanrrh. Bandaríkjanna segir, að enginn möguleiki sé fyrir Sovétríkin að verða á undan Bandaríkjunum að taka landið, þar sem það yrði að gerast á sjó, en ekki væri hægt að taka landið með flugher. Það er þess vegna þýðingarlaust að segja íslenzkum alþm., að nauðsynlegt sé, að íslenzka þjóðin gerist þátttakandi í þessu bandalagi til þess, að þær góðu hugsjónir, þessi góðu áform, sem það stefni að, eigi nú ekki að ónýtast. Nei, það, sem hér kemur til greina, er tvennt: Í fyrsta lagi hagsmunir sérréttindastéttanna á Íslandi, sem til að halda sérréttindum sínum þykjast til þess neyddar að halda sér að sterkum aðila, leita sér aðstoðar erlendis frá. Og það eru í öðru lagi hagsmunir Bandaríkjanna, sem krefjast þess, að þau skuli skilyrðislaust fá þá aðstöðu strax, þótt á friðartímum sé, til þess að geta ógnað þaðan heiminum í kjarnorkustyrjöld. En þeim finnst það mundi vera álitshnekkir fyrir sig að taka þessar herstöðvar á friðartímum, nema íslenzka þjóðin samþykki það. Þess vegna var íslenzkum ráðh. stefnt utan, þess vegna flugu íslenzkir ráðh. til Washington, til þess að taka við fyrirskipunum frá utanrrh. þar, þótt fjárl. væru óafgr. og ástandið eins og landbrh. tók fram í ræðu sinni í gær. Þetta er önnur ástæðan. Þó að þessi plögg, sem hér liggja fyrir prentuð á hvítan pappír, gefi til kynna, að hér sé um að ræða till. frá ríkisstjórn Íslands, mætti bæta því við, þó að það sé ekki nefnt, að flm. þessa plaggs er í raun og veru utanrrh. Bandaríkjanna.