29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (4437)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Við nánari athugun taldi ég réttara að leggja fram rökstudda dagskrá við þessa umr. en þá síðari. Ég tel, að eina leið Íslendinga til að reyna að tryggja öryggi sitt væri að leita yfirlýsinga Breta, Bandaríkjamanna og Rússa um, að þessi ríki vildu viðurkenna friðhelgi Íslands, og álít rétt að prófa, hvort ekki megi fást samkomulag um að vísa þessu máli frá og leita slíkrar yfirlýsingar. Af þessum ástæðum ber ég fram till. til rökstuddrar dagskrár, svo hljóðandi:

„Um leið og Alþ. felur ríkisstj. að snúa sér til stjórna Bandaríkjanna, Bretlands og Sovétríkjanna og óska yfirlýsinga þeirra um, að þessi ríki muni virða að fullu friðhelgi Íslands í stríði sem friði, svo fremi það ljái engu ríki herstöðvar í landinu, tekur það fyrir næsta mál á dagskrá.“