31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (4501)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er ekki nema í samræmi við aðra ósvífni kommúnista, að þessi þm. skuli leyfa sér að rísa úr sæti til að ræða þá atburði, sem gerðust hér í gær. En það má þá ekki minna vera en vakin sé athygli á ósvífni þeirra. hér á þingi. Það er von, að þessi hv. þm. sé hér sár yfir, að sá skríll, sem hann safnaði hér saman til að ráðast á þingið, fékk ekki að vera einn fyrir framan þinghúsið, heldur skyldu friðsamir borgarar koma og vera áhorfendur að þeim þokkalega leik, sem hann og hans menn stofnuðu hér til. Allir, sem fylgdust með, vita, að vegna þess að margir friðsamir borgarar komu niður að þinghúsi í gær, gat skríllinn ekki notið sín eins og til var ætlazt, vegna þess að ýmsir útsendarar kommúnista hikuðu við að taka steinana upp úr vösum sínum, þegar þeir voru umkringdir af svo mörgum friðsömum mönnum. Þess vegna varð minna úr árásinni en til var stofnað af þessum hv. þm. og hans félagsbræðrum.

Enn fremur vil ég vekja athygli á, að það sker alveg úr, hvernig þetta uppþot allt er til komið, að þm. Sósfl. sendu út til að ljúga því upp, að þeir væru fangar í þinghúsinu, til að æsa skrílinn upp til árása á þinghúsíð og koma í veg fyrir, að þingið gæti starfað í friði.

Ég tel rétt, að þetta komi fram, fyrst hv. 2. þm. Reykv. var svo smekklaus að minnast á þessa atburði. Honum hefði verið sæmst að láta það ógert.