31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (4507)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Einar Olgeirsson:

Það var auðheyrt á hæstv. forsrh., að hann var eitthvað taugaóstyrkur, þegar hann talaði hér áðan. Það er von, eftir þá árás, sem þessir menn hafa gert á löggjafarsamkomuna og frelsi þjóðarinnar. Það er leitt, þegar rúður eru brotnar, en rúðu má setja aftur í glugga. En þegar Alþingi er brotið á bak aftur, eins og stj. hefur nú gert í umboði erlends valds, þá er erfitt að bæta fyrir brotin. Og það er hámark ósvífninnar, að þeir menn, sem fyrir þessu hafa staðið, skuli standa hér upp og gera sér upp vandlætingu. Hæstv. forsrh. hefur fengið hirtingu þjóðarinnar, og er hún ef til vill farin að svíða á honum nú þegar.

Þá vil ég víkja að því, sem hæstv. menntmrh. sagði. Ég vil aðeins vísa til baka öllu, sem hann minntist á um árás, sem hefði verið undirbúin á þinghúsið. Ég þykist vita, að hæstv. menntmrh., sem stóð að þeim flugmiða, sem sendur var út í gær, og vopnaðri lögreglu og Heimdallarskríl, hafi ætlazt til, að fólkið yrði æst upp. Fólkið var friðsamt, og þá sáu þeir, að eitthvað varð að gera til að æsa það upp. Við þekkjum það hér, að stj., sem hagar sér eins og þessi, vill skapa eitthvað svipað ríkisþingsbrennunni. Það er það, sem hana vantaði inn í sína pólitík. Það fólk, sem hingað kom í gær, sá greinilega, hvað það var, sem þessir menn ætluðu sér, hvernig lögreglan þverbraut allar þær reglur, sem henni eru settar um aðvaranir til mannfjöldans. (Forsrh. (réttir ræðumanni stein) : Sér hv. þm., hvað þetta er?) Já, þetta er hraungrjót af Austurvelli. Af því að það er búið að álasa mér nokkrum sinnum fyrir, að ég hef hindrað lögregluna í að berja á mannfjölda 1946, þó að ég fái ekki skilið, hvernig það mátti ske, að ég hafi getað það, þá þykir mér hlýða að benda á, hvort það hefði ekki verið eins gott, að það hefðu verið einhverjir menn, sem hefðu komið í veg fyrir þann óvitaskap, sem hæstv. ríkisstj. og hennar lið hafði í frammi með þeim afleiðingum, sem sýndu sig í gær.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. menntmrh. sagði, að því hefði verið logið upp, að þm. hefði verið haldið sem föngum í þinghúsinu, þá vil ég spyrja: Hvað gerðist í gær? Það gerðist það, að eftir fund var öllum þm. haldið inni í húsinu með lögregluboði. Þeim var haldið sem föngum upp undir klukkutíma. Hvers konar tiltektir eru þetta? Og hvers konar tilgangur? Okkur er bannað að fara út, öllum haldið sem föngum. Var það gert af hálfu ríkisstj. til að æsa fólkið? Hvers konar ráðstafanir eru þetta? Hafa þeir ekki hugmynd um, hvaða afleiðingar þeirra verk hafa? Þetta eru svo rangar ráðstafanir. sem hægt er að hugsa sér. Það er engu líkara en stj. hafi verið vitandi vits að egna fólkið upp.