31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í D-deild Alþingistíðinda. (4530)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er sjaldgæf sæmd að standa hér og verja sig fyrir tveimur ráðh. — Ég gerði þá fyrirspurn hér áðan, hvers vegna fólkið hefði ekki verið aðvarað, svo að það gæti komið sér undan, áður en það yrði fyrir kylfum lögreglunnar eða gasbombum. Annars á ég nú erfitt með að skilja, hvernig stj. hugsaði sér að láta fólkið á Austurvelli tryggja vinnufriðinn á Alþingi, því að öllum er ljóst, að slíkur fjöldi gerir lögreglunni erfiðara fyrir að halda uppi reglu, og því óhætt að segja, að þetta útboð formanna þingflokkanna hafi verið vafasöm ráðstöfun. Ég benti á, að það hefði átt að vera auðvelt fyrir foringjana að biðja þetta fólk að fara, áður en kylfurnar og gasið var notað, og það verður að teljast grunsamlegt, að það skyldi ekki vera gert, einkum ef þess er gætt, að hér voru heiðursgestir ríkisstj. á ferðinni. — Nei, það er margt ógætilegt í þessu máli, og mun hér eiga við máltækið, „að sjaldan veldur einn, þegar tveir deila“. En það er líka ýmislegt ógætilegt í þessum umræðum, — eða hvað meinti þm. G-K. með sinni síðustu ræðu annað en að æsa? Og hvað er þessi þm. í íslenzkri pólitík? Er hann ekki einmitt ærsladraugurinn í íslenzkri pólitík? Hann reynir að þvo af sér ókurteisina, þegar hann er búinn að svívirða utanþingsmann í skjóli þinghelginnar, og það voru engar smávægilegar svívirðingar, því að hann sagði, að Klemenz Tryggvason hagfræðingur væri viðbjóðslega leiðinlegur og að hann hefði aldrei brugðizt röngum málstað. Þannig leyfir þessi þm. sér að tala um fjarverandi menn, og það ófullur að ég held.

Hæstv. menntmrh. komst að þeirri niðurstöðu, að fjöldinn hefði verið þarna ómissandi, eftir því sem mér skilst af orðum hans. Hins vegar er ég á þeirri skoðun, að bæði hefði mátt spara að meiða fólk og eyða gasi, ef fólkið hefði verið beðið um að fara og gætilega að öllu farið.

Þm. N-Ísf. talaði hér áðan og komst að þeirri niðurstöðu, að framkoma kommúnista væri með þeim endemum, að þeir ættu að geymast á safni, en ég vil benda þm. á, að nazistar þurfa að hafa kommúnista til að deila við. Þegar þm. N-Ísf. var að tala um, að kommúnistar ættu að geymast á safni, þá sagði ég, að Sigurður Bjarnason mundi aldrei verða geymdur á safni. Það getur þó verið, að eftir að músarindillinn er útdauður, verði Sigurður Bjarnason stoppaður upp og geymdur til minningar um músarindil í íslenzkum stjórnmálum.

Sannleikurinn er sá, að það er verið að fylkja íslenzku þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar, annars vegar hálfóða kommúnista og hins vegar hálfóða nazista, en slíkt getur aldrei leitt til farsældar. Eina lausnin úr öfgunum er að skapa sterkan miðflokk, sem bægt getur hættunum frá.