28.03.1949
Sameinað þing: 57. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í D-deild Alþingistíðinda. (4608)

169. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég var á móti því, að þessi stj. yrði mynduð, vegna þess að ég treysti henni hvorki til að beita sér fyrir að þær ráðstafanir væru gerðar, er þurfti til að rétta við fjárhag ríkisins, né beita sér fyrir viðréttingu atvinnulífsins, en þetta hvort tveggja var komið í óefni hjá fyrrv. ríkisstj. Traust mitt á ríkisstj. hefur í engu breytzt við starf hennar þessi tvö ár. Í stað þess að vinna að fjárhagslegri viðreisn ríkisins og atvinnulífsins, vinnur hún nú að því að grafa sína eigin gröf. Því verki miðar svo vel áfram hjá henni, að ég sé enga ástæðu til að leggja hönd að verkinu og greiði því ekki atkvæði.