23.11.1948
Sameinað þing: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í D-deild Alþingistíðinda. (4684)

43. mál, landhelgisgæzla og stækkun landhelginnar

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa, að sú till. til þál., sem hér um ræðir, á að sýna áhuga hv. flm. fyrir því mikilvæga máli, sem till. fjallar um. Ég geri einnig ráð fyrir, að sú löggjöf, sem nú gildir um þessi mál, sé ekki svo ýtarleg, að ekki sé ástæða til að endurskoða hana, og get ég mælt með því, að þingið álykti að fela ríkisstj. að láta endurskoða lögin. Hins vegar vildi ég nota þetta tækifæri til þess að gera grein fyrir framlagi mínu til landhelgismálanna eftir að mér var falin forsjá þeirra, og ég verð einnig að láta í ljós, að mér finnst miður farið, ef sum atriði þessarar þáltill. verða samþ. Áður en ég kem að þeim atriðum, vil ég enn fremur láta í ljós, að mér hefur fundizt bera nokkuð á því, að hv. flm. hafi viljað læða því inn hjá mönnum, að landhelgismálin hafi beðið hnekki af því, að mér var falið að veita þeim forstöðu. Þetta finnst mér, að hafi komið fram á óviðeigandi hátt og án þess, að það væri rökstutt. Að öðru leyti hef ég ekki við málflutning hv. frsm. að athuga. Hv. frsm. sagði, að það lægi við, að mönnum dytti í hug, að landhelgismálin hefðu orðið út undan, af því að þau voru tekin út úr dómsmrn. og falin ráðh., sem veitir öðru ráðuneyti forstöðu. En nú er það svo, að við myndun samsteypustjórna, eins og t. d. núv. hæstv. ríkisstj., er það algengt, að ráðuneytin séu þannig bútuð sundur, og ekkert einsdæmi, að málaflokkar séu faldir einhverjum ráðh., sem þó aðallega fer með önnur mál. Dæmi um þetta eru mörg. Atvmrn. er t. d. skipt og einnig dómsmrn. og samgmrn., og þannig mætti lengi telja og engin ástæða til að ætla, að einstakir málaflokkar verði út undan, þótt þeir séu undir umsjá ráðherra, sem aðallega veitir öðrum málum forstöðu.

Ég kem þá að atriðum þáltill. og tek í einu 1. og 2. lið, en þar er lagt til, að sérstök deild í dómsmrn. undur yfirstjórn dómsmrh. fari eftirleiðis með yfirstjórn landhelgisgæzlunnar. Ég segi það þá fyrst, að vitanlega heyrir landhelgisgæzlan dómsmrn. til, þótt landhelgismálin hafi í svipinn verið falin öðrum ráðh. en dómsmrh., alveg eins og sjávarútvegsmál heyra undir atvmrn, þótt fjmrh. fari með þau núna. Þá er lagt til í till., að þessi deild, sem stofna á í dómsmrn., skuli fara með eftirlit með löggæzlu á hafinu kringum landið, fiskveiðaeftirlit, eftirlit með tollgæzlu og heilbrigðisgæzlu o. s. frv. Með þessu yrði yfirstjórn allra þessara mál sett beint undir rn. Hins vegar hefur reyndin orðið sú, að heppilegt hefur þótt, að yfirstjórn einstakra mála væri skipt. Það er t. d. augljóst mál, að það er ekki heppilegt, að vegamálastjórnin sé í atvmrn., hafnarmálastjórn í sjútvmrn. eða yfirstjórn flugmálanna í samgmrn. Þvert á móti hefur þetta þróazt eðlilega á þann hátt, að hinar stærri starfsdeildir hafa starfað nokkuð sjálfstætt undir yfirstjórn ráðuneytanna. Sá háttur hefur verið hafður á, að Skipaútgerð ríkisins hefur verið falin útgerð varðskipanna, og er þetta hagkvæmt, því að Skipaútgerðin er betur fær um að stjórna útgerð skipanna, en dómsmrn. sjálft. Enn fremur er fólginn í því sparnaður að fela Skipaútgerðinni reksturinn, því að annars þyrfti að skipa sérstaka stofnun til að veita útgerð skipanna forstöðu. Hins vegar getur dómsmrn. komið vilja sínum á framfæri við þá, sem veita Skipaútgerðinni forstöðu, og markað þannig meginstefnuna. Ef farið væri nú inn á þá braut, sem þáltill. gerir ráð fyrir, að lögskipa sérstaka deild í dómsmrn., þá er það ekki til neins góðs fyrir landhelgisgæzluna, en mundi leiða til stóraukins kostnaðar frá því, sem nú er. Það mundi vaxa upp nýtt stjórnarbákn með ærnum kostnaði. — Viðvíkjandi því, að mér er ekki alveg ljóst, hvort það er meining hv. flm. að færa alla tollgæzluna undir þessa fyrirhuguðu deild, þá fer ég ekki nánar út í það, en vil segja, að það er ástæða til að hugleiða það atriði, hvort kveða eigi nánar á í lögum um afskipti landhelgisflotans af öðrum málum.

Ég læt þá þetta nægja um 1. og 2. lið og kem þá að 3. lið, sem fjallar um, að alltaf skuli vera fyrir hendi nægilegur skipastóll til landhelgisgæzlunnar. Það hefur mikið verið rætt um það, hvernig heppilegast væri að hafa gæzluflotann, bæði með tilliti til starfa hans og kostnaðarins við hann. Sumir virðast álíta það nóg að hafa eingöngu stór skip, en aðrir álíta það nægilegt að hafa nokkur smá skip. Mín skoðun er sú, byggð á kynnum mínum á málinu, að hvorugt sé rétt. Flotinn á ekki eingöngu að gæta miðanna, heldur á hann einnig að gegna björgunarstarfi á miðunum og gæta veiðarfæra og sinna öðrum aukaverkefnum. Ef eingöngu væri um að ræða fá stór skip, þá gætu þau ekki dreift sér nóg til gæzlu veiðarfæra og við björgunarstörf. Ef hins vegar væri aðeins um að ræða smábáta, þá mundu þeir reynast ónógir og ekki treystandi, þegar til meiri háttar björgunarafreka kemur. Ég tel það því rétta stefnu, sem nú hefur verið upp tekin, að hafa nokkra ekki stóra báta til gæzlu og björgunar og hafa síðan tvö væn og góð landhelgisgæzlu- og björgunarskip, og kem ég síðar að þætti flugsins í þessu sambandi.

Það er rétt hjá hv. frsm., að endurnýjun varðskipaflotans hefur dregizt aftur úr miðað við báta- og togaraflotann. En þegar ég tók við þessum málum, þá áttum við Ægi, tiltölulega stórt og gott skip, að vísu nokkuð gamalt, og Óðin, sem er smár, en allgóður bátur. Samningur hafði og verið gerður um, að ríkið tæki að sér rekstur Sæbjargar og ræki það sem björgunar- og gæzluskip. Enn fremur var fyrir hendi samningur við Björgunarfélag Vestfjarða um að láta gera nýjan bát til björgunar- og gæzlustarfs þar vestra. Enn fremur lá fyrir álitsgerð manna, sem rannsakað höfðu, hvað gera skyldi, og lögðu þeir til, að byggt yrði eitt vænt og gott varðskip. Ég byrjaði strax að vinna að framgangi þessara mála, því að mér var ljóst, að hér var úrbóta þörf, en það kom brátt í ljós, að hér var við ramman reip að draga, því að allur gjaldeyrir var þrotinn og erfitt að fá nauðsynleg leyfi. Ég get gert hér langa sögu að stuttri með því að greina frá því, að eftir að athugaður hafði verið kostnaður við bátabyggingar innanlands og utan, var samið við danskt verkstæði um byggingu bátsins, og er ráðgert að afhenda hann í ágúst í sumar, og eru fengin fyrir því nauðsynleg leyfi. Fljótlega eftir að núverandi ríkisstj. tók við völdum var á ráðherrafundi tekið fyrir, að mínu frumkvæði, að ræða um stærra varðskipið. Óskað var eftir því að láta rannsaka, hvort hægt mundi að fá það greitt í vöruskiptum, t. d. við Ítalíu. Komu tilmæli um þetta, bæði frá fjmrh. og viðskmrh., og var þetta síðan rannsakað, og stóð sú athugun þar til í haust, og komst varðskipið því ekki inn á innflutningsáætlun ársins 1947. En það kom í ljós, að vöruskiptaleiðin þótti ekki aðgengileg, og byrjaði ég þá í samráði við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, hr. Pálma Loftsson, að vinna að því, að útboð ætti sér stað utan clearing-landanna, og kom því jafnframt til leiðar, að skipið væri tekið inn á innflutningsáætlun ársins 1948, eftir því sem samningar tækjust. Eftir þetta var útboðið gert, og eftir samninga við fjárhagsráð og aðra var gerður samningur um 650 smálesta skip með 17 mílna ganghraða á klst., og skyldi það afhent vorið 1951. Ég ásaka mig ekki fyrir neinn drátt á þessu máli. Ég gerði allt, sem hugsanlegt var, eftir að mér var falin forsjá þessara mála, og hygg ég, að ekki sé hægt að ásaka yfirvöld landsins, þó að dregizt hafi að fá varðskipið, þar sem allur gjaldeyrir var þrotinn og langvinn rannsókn bar engan árangur. Með þessu, að gera þennan samning um byggingu skips fyrir Vestfirði og samning um byggingu nýja skipsins, sem á að nota til landhelgisgæzlu, björgunarstarfa og fiskirannsókna, hygg ég, að stórfellt framfaraspor sé stigið og allvel séð fyrir skipakosti til þessara starfa, er þessi skip eru komin á vettvang.

En þá kem ég að þeim stóra vanda í þessu sambandi, og þar kem ég í liðsbón til þingmanna og þá sérstaklega til þeirra, sem virðast hafa svo mikinn áhuga á þessum málum. Það er fjárhagshliðin. Ég vil vekja athygli allra hv. þm. á hinum mikla kostnaði, sem er við úthald varðskipa og eykst með auknum skipastól. Það fé, sem veitt hefur verið til landhelgisgæzlunnar, hefur ekki hrokkið til. Landhelgisgæzlan var mjög öflug í sumar, — það hygg ég að sé flestra dómur, — enda fór kostnaðurinn fram úr áætlun. Og ég vil benda á tvennt í þessu sambandi. Annað er það, að samkvæmt framansögðu má áætla, að kostnaðurinn við úthald þeirra varðskipa, sem fyrir eru, og þeirra, sem samið hefur verið um smíði á, verði rúmar 6 millj. kr. á ári. Þar á móti koma svo tekjur af sektarfé, sem enginn veit, hvað verður mikið, en aldrei er hægt að reikna með, að kostnaðurinn verði minni en 5 milljónir. Þetta verða menn að horfast í augu við. Það fylgir því ærinn kostnaður að hafa þessi mál í fullkomnu lagi. Hitt atriðið er, að Skipaútgerð ríkisins gerir ráð fyrir, að á næsta ári fari kostnaðurinn upp í tæpar 5 milljónir, en í fjárlagafrv. hefur hæstv. fjmrh. ekki treyst sér til að áætla meira en 4 millj. kr. til þessara mála og lætur meira að segja fylgja þau ummæli, að fram úr þeirri upphæð megi kostnaðurinn ekki fara á næsta ári. Ef þetta ætti að standast, yrði að hætta við að gera út a. m. k. tvo af þeim varðbátum, sem nú eru gerðir út, en það mundi aftur leiða af sér gerbreytingu á varðþjónustunni, og yrði þá að hætta við þau björgunarstörf, sem varðskipin hafa annazt. Ég tel þetta með öllu ófært og hef því snúið mér til hv. fjvn. í liðsbón út af þessu, og þyrfti að taka ákvörðun um það sem fyrst, að stefnu fjárlagafrv. skyldi ekki framfylgt á næsta ári. Ég vil því mjög eindregið ganga í liðsbón til hv. flm. þessarar till., sem sýna áhuga á þessum málum með flutningi hennar, og alveg sérstaklega benda á það, eftir að ég hef nú gefið mínar upplýsingar, að okkur vantar ekki löggjafarákvæði í þessu sambandi, heldur vantar okkur fyrst og fremst fjárveitingu til að fylgja fram stefnu þings og stjórnar. Hinu skal ég ekki kvarta undan, þó að finna megi að því, að greinargerð þessarar till. er þannig samin, að ætla mætti af því, að flutningsmönnum væri ókunnugt um þær framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru til aukinnar landhelgisgæzlu og áður var kunnugt um.

Þá ætla ég að minnast á flugið. Þar vantar einnig fyrst og fremst fjárstuðning við framkvæmdir, en ekki lagaákvæði. Í því sambandi vil ég rifja upp, að reynt hefur verið að nota flugvélar til landhelgisgæzlunnar. Flugvélar hafa verið teknar á leigu hjá flugfélögunum í því skyni, og þannig hafa menn prófað sig áfram með notagildi flugs við landhelgisgæzlu að frumkvæði og fyrir framkvæmdasemi forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, herra Pálma Loftssonar, sem annast daglegan rekstur í sambandi við þessa gæzlu. Og þessar tilraunir hafa sýnt, að nokkurn stuðning má hafa af flugvélum í þessu skyni, þó að ekki sé aðgengilegt að afla venjulegra flugvéla til þeirra nota, þar eð starfsmenn landhelgisgæzlunnar þurfa að gera athuganir sínar úr lofti á meðan flugvélarnar eru á mikilli ferð. Í þessu sambandi hafa líka verið athugaðir möguleikar á að nota flugvélar, sem geta numið staðar í lofti og athafnað sig þar í næði, og vil ég geta þess hér, að hæstv. fyrrv. dómsmrh. fól, í samráði við forstjóra Skipaútgerðarinnar, hr. Lárusi Eggertssyni að athuga þetta. Það var hans álit, að helicopter-flugvélar væru líklegar til að annast landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi. Um þetta tókust svo samræður við Skipaútgerðina, flugmálastjórnina og Slysavarnafélagið, og erlendir sérfræðingar voru til ráðuneytis, og niðurstaðan varð sú, að við lögðum til við fjmrn. í fyrra, að á fjárlögum þessa árs yrði veitt fé til þess að kaupa eina helicopter-flugvél, og var þá reiknað með því, að Slysavarnafélagið fengi aðra. Ráðuneytið og fjvn. töldu sér ekki fært að verða við þessari tillögu á því stigi, sem málið var á þá. Við endurnýjuðum þó tillöguna í ár, en hæstv. fjmrh. hefur ekki séð sér fært að setja hana á fjárlagafrv. næsta árs. Þó eru horfur á því, að Slysavarnafélagið fái sína flugvél áður en langt um líður, og er líklegt, að ríkisstj. standi að einhverju leyti að því að gera tilraunir með hana til björgunarstarfsemi og landhelgisgæzlu.

Þetta segi ég til þess, að menn sjái, að við höfum ekki verið sofandi á verðinum varðandi þau not, sem kynni að mega hafa af fluginu til þessara hluta, og til að undirstrika það, að okkur vantar ekki lagaákvæði um þetta, heldur fjármagn til framkvæmda.

Þá kem ég að 4. lið till., þar sem talað er um kröfur þær, er gera þurfi til skipstjórnarmanna og annarra, er starfi að landhelgisgæzlu, menntun þeirra og aðstöðu til starfa. Það er auðvitað rétt, að slíkar kröfur þarf að gera. Það er þó spursmál, hve miklar lagakröfur á að gera í því efni, en það, sem mest á ríður, er það, að vaskir sjómenn veljist á varðskipin, því að þeirra hlutverk er þannig vaxið, að þeir þurfa oft að vera með bátaflotanum og aðstoða og bjarga, þegar út af ber, og að þessum störfum þurfa því að vinna úrvals sjómenn, þótt ekki væri af öðru. Til þessa hefur verið látið nægja að krefjast venjulegrar sjómannsmenntunar, en nú er gert ráð fyrir sérstökum skóla á nýja varðskipinu eða aðstöðu til náms fyrir nokkra nemendur.

Að lokum vil ég víkja nokkrum orðum að 5. tölulið till. Ég vil taka það fram, að ég hygg, að ekki vanti lagafyrirmæli um efni þessa liðar, og ýmislegt hefur verið gert á undanförnum árum af því, sem þar er minnzt á og talið. Ég vil t. d. aðeins með örfáum orðum minna á það, að á undanförnum árum hafa varðskipin auk varðgæzlunnar annazt margs konar björgunarstörf í sambandi við fiskiskipaflotann, og komst fyrst verulegur skriður á það, er Skipaútgerð ríkisins tók þetta að sér. Síðan hafa varðskipin aðstoðað ýmis skip um 600 sinnum og bjargað af strandi 15 skipum. Samvinna er nú mjög náin við Slysavarnafélagið, ekki sízt á vertíðum, og gerður hefur verið samningur við það til 15 ára. Nýja varðskipið verður með hinum fullkomnustu björgunartækjum, og þarf ekki nein lagaákvæði hér að lútandi. Samvinnan hefur verið að eflast og þroskast á undanförnum árum, landhelgisgæzlunni og björgunarstarfseminni til mikilla heilla. Ég veit með sanni, að samvinna forstjóra Skipaútgerðarinnar, eða yfirmanns landhelgisgæzlunnar, og Slysavarnafélags Íslands hefur verið með ágætum.

Um hafrannsóknir er rétt að taka það fram, að í 18 ár hefur landhelgisgæzlan verið fiskifræðingum hjálpleg um starfsaðstöðu um borð í skipum sínum, eftir því sem hægt hefur verið að koma við, og nýja varðskipið er einmitt útbúið með tilliti til haf- og fiskirannsókna. Hitt er svo annað mál, að við þyrftum í raun og veru að geta aðskilið þessi störf og geta látið fiskifræðingana hafa sérstaka fleytu til umráða, því að það er dálítið erfitt að samrýma þetta, en meðan það er ekki hægt, verður einnig að notast við varðskipin til þessara rannsókna.

Ég hef minnzt á menntun yfirmanna á varðskipunum áður og skal nú ekki þreyta hæstv. forseta né þingmenn yfirleitt með lengri ræðu, þar eð komið er fram yfir venjulegan fundartíma. En ég vil að lokum segja það, að ég tel það mestu varða, að þeir, sem áhuga hafa á þessum málum, sameinist nú um að styðja fingri á, þar sem þörfin er mest, og sameinist um þá stefnu, sem mörkuð hefur verið.