10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í D-deild Alþingistíðinda. (5002)

51. mál, vegamál

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Þessar fyrirspurnir eru bornar fram til þess að vekja athygli á því, að þrátt fyrir miklar framkvæmdir í vegamálum landsins er það ýmislegt, sem betur mætti gera. Í stóru en strjálbýlu landi geta ekki allir vegir verið svo breiðir, að bílar geti mætzt hindrunarlaust. Höfuðvegir þurfa að vera breiðir, en á mjóum vegum verður að hafa sérstök stæði, þar sem hægt er fyrir bíla að mætast. Ég vildi nú fá að heyra frá hæstv. samgmrh., hvað mikið af vegum er þannig, að hægt sé að mætast á þeim hvar sem er. Þá vil ég vekja athygli á því, að sums staðar eru vegirnir þannig, að mannhætta stafar af, t. d. er þeir liggja að ám eða í hömrum. Á slíkum stöðum þarf að hafa steinsteypta brún, svo að það sé fyllilega tryggt, að bílar fari ekki út af veginum. Þá er loks mikil nauðsyn á því, að reist verði glögg leiðarmerki með hæfilegu millibili.