10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í D-deild Alþingistíðinda. (5018)

902. mál, sjúkrahælin í Kumbaravogi og Kaldaðarnesi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef nú hlustað hér á umræður um þetta mál og sé, að þær hafa aðallega snúizt um fjárhagshliðina, svo að ég hef ekki getað varizt því að draga þá ályktun, að ýmsum hv. þm. mundi vera meira í mun að gera sér úr málinu pólitíska krás heldur, en nokkuð annað, því að þetta mál er svo vaxið, að það er fyrst og fremst heilbrigðismál, og ber að ræða það sem slíkt. Fyrir mitt leyti langar mig því til að vita, hvaða árangur hefur orðið af þessu hælishaldi í Kumbaravogi og í Kaldaðarnesi, hve margir sjúklingar hafa t. d. fengið lækningu þar og hve mörg „procent“ hafa lent í sama farið aftur.

Ég vildi aðeins fá upplýsingar um þetta; því að hafi þar fengizt jákvæður árangur, er það sú dýrmæta reynsla, sem í framtíðinni má byggja á.