10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í D-deild Alþingistíðinda. (5029)

904. mál, vatnsréttindi í Þjórsá

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við munum vera allir sammála um, að þær auðlindir, sem við Íslendingar eigum, næst okkar sjó og okkar landi, muni vera okkar vatnsafl. Og Þjórsá mun vera talin geta framleitt yfir eina millj. kílówött rafmagns. — Nú mun svo vera, að síðan fossalögin voru á döfinni 1919, þá munu vatnsréttindin í Þjórsá hafa verið seld og komizt í eigu félagsins Titan. Og nú hefur verið mjög kyrrt um þessi mál.

Nú er mér ekki kunnugt um, hvernig raunverulega séð muni vera um eignarrétt þennan á Þjórsá, sem af ýmsum hefur verið dreginn í efa. Hins vegar er það, að ætli menn að bera fram nokkrar till. viðkomandi hagnýtingu vatnsorkunnar í Þjórsá, þá er nauðsynlegt að vita um þann eignarréttargrundvöll, sem eign þessara vatnsréttinda byggist á. Þess vegna hef ég borið fram fyrirspurn um, hver sé eigandi vatnsréttindanna í Þjórsá, og á ég þar við réttindi til raforkuvirkjunar. Á ég við alla fossana, sem árið 1919 voru taldir sex, þegar Titan sótti um sérleyfi til þess að virkja Þjórsá.

Ég hef enn fremur lagt fram þá fyrirspurn, hvort h/f Titan sé enn þá löglegur íslenzkur eigandi þessara vatnsréttinda. Og þætti mér vænt um, ef hæstv. atvmrh. gæti gefið okkur hér góðar upplýsingar um þetta mál, sem okkur veltur mikið á nú, ef á að hugsa um hagnýtingu á þessari á. — Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég hygg, að það sé skýrt, hvað við er átt.