17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í D-deild Alþingistíðinda. (5039)

905. mál, bændaskólar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Aðeins örfá orð, til þess að bera af mér sakir. Hæstv. landbrh. gaf í skyn, að landbúnaðarnefndir Alþ. hefðu verið með — a. m. k. meiri hl. þeirra n. hefði verið meðmæltur þessari sölu Kaldaðarness, sem fram hefur farið og um hefur verið rætt hér, að þessi jörð var seld Jörundi Brynjólfssyni frá Skálholti. Ég vil upplýsa það, til þess að ég sé ekki bendlaður meir við þetta leiðindamál heldur en þörf er á, að þegar á sameiginlegum fundi beggja landbn. Alþ. var um þetta rætt, þá var ég á móti þeirri sölu, þar sem væntanlegur kaupandi hefði aldrei búið á jörð þessari. En í þessu efni eru fyrirmæli laganna skýlaus um það, að kaupandi skuli hafa verið búinn að búa á slíkri jörð í þrjú ár, áður en hann geti fengið hana keypta af því opinbera. Og þar sem þing stóð yfir, þegar um þetta var rætt, leit ég svo á, að það væri engin nauðsyn á að vefjast með þetta mál á þann veg, sem reyndin hefur orðið á, að gert hefur verið, því að það lægi svo opið fyrir að flytja frv. á Alþ. um sölu jarðarinnar, eins og hefur verið gert um ýmsar jarðir. Þó að einn maður hafi búið á þjóðjörð áður, þá er ekki þar með sagt, að hann sé fastari á þessari jörð, sem hann ætlar að kaupa, heldur en aðrir á öðrum jörðum. En þetta lá beint við, að flytja málið inn á þing og fá þessu framgengt þar. Þá hefði verið úr því skorið, hvað þingið vildi í þessum málum. Ég ætla ekki að fara að ræða um verð á jörðinni í þetta skipti. En ég hef haldið fram og held fram enn, að þetta, sem gerðist um sölu þessarar jarðar, hafi verið á móti bókstaf laganna, og þess vegna undir öllum kringumstæðum sjálfsagt og rétt af hæstv. ráðh. að láta það mál ganga eins og hvert annað venjulegt frv. gegnum afgreiðslu Alþ. Þetta hefði verið ólíkt beinna og réttara en að fara þær óþarfa krókaleiðir að fara að byggja hv. 1. þm. Árn. fyrst jörðina í erfðaábúð, þegar vitanlegt var, að það átti að selja hana á eftir. — En mér skildist á hv. þm. Barð., að með þetta mál muni verða komið inn í þingið aftur, og ef ástæða væri til, mundi ég þá gera grein fyrir minni afstöðu í málinu frekar.