17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í D-deild Alþingistíðinda. (5066)

61. mál, launakjör alþingismanna

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Eftir að þessari fyrirspurn var skilað í prentun og útbýtt, hefur það nýtt gerzt, að hæstv. forsrh. hefur sent frv., sem vikið er að, til þingflokkanna og óskað eftir umsögn þeirra um, hvort flytja skuli það þannig. Og hefur þannig a-lið fyrirspurnarinnar raunverulega verið svarað. Hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til að leggja málið fyrir þingið nema leita fulltingis þingflokkanna. Ég óska því eftir, að hæstv. forsrh. upplýsi, hvaða undirtektir frv. hefur fengið hjá þingflokkunum, og eins og segir í b-lið, hvort það verði lagt fyrir af ríkisstj. eða af þingflokkunum. Mér finnst, að nokkuð mikill dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins, bæði hjá hæstv. núverandi og fyrrverandi ríkisstj., og tel, að ýmis mál, sem minna hafa verið virði, hafi verið afgreidd. Ég held, að það hafi komið nægilega skýrt fram, þegar þingið kaus mþn. 1943, að launakjör þingmanna væru úrelt, enda eru lög um þau orðin ævagömul. Og ég held að sá málsháttur, sem sagður var fyrir nokkrum árum, að þingfararkaupið sé fyrir eftirmiðsdagskaffi á Borginni, en bitlingarnir séu til að lifa af, eigi enn vel við. Þó að allmargir þm. hafi föst, launuð störf, þá eru þó allmargir, sem hafa það ekki, og þar á meðal ég. Atvinna sú, sem ég hef stundað, síldveiðarnar, hefur nú brugðizt í allmörg sumur, og hef ég því fengið nægilega reynslu um það, að ekki er hægt að lifa af þingfararkaupinu, nema menn hafi aðrar tekjur. Það er nú ekki tími til frekari umræðu, en ég vil beina því til hæstv. forsrh., að hann upplýsi um undirtektir þingflokkanna við málið.