26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í D-deild Alþingistíðinda. (5188)

95. mál, sjálfvirka símstöðin Akureyri

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessi fsp. hefur legið óafgreidd um tíma eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, en ég vil geta þess, að það er ekki mín sök. Strax eftir að fsp. kom fram, sneri ég mér til póst- og símamálastjórnarinnar til þess að fá málið upplýst og fékk loks um það greinargerð, sem dagsett er 10. des. 1948, og skal ég nú rekja efni hennar, með leyfi hæstv. forseta:

„Alllangt er síðan sjálfvirk símstöð á Akureyri var tekin á áætlun Landssímans um fyrirhugaðar símaframkvæmdir. Fyrsti þáttur í þeirri framkvæmd var bygging nýs símahúss á Akureyri, en það var reist árið 1944–45 (samkvæmt fjárveitingu). Annar þátturinn var endurbætur og aukning bæjarsímakerfisins á Akureyri, sem fram hafa farið 2 síðustu árin (fært á eignabreytingalið II: Viðauka símakerfa). Nokkuð er þó eftir, sem ætlazt er til, að gert verði næsta sumar og síðan smám saman. Þriðji þátturinn er vélar og tæki o.fl. í sjálfa miðstöðina, og var ætlazt til, að sú framkvæmd yrði gerð með lánsfé. Stöðin var pöntuð á miðju ári 1946 með samþykki ráðherra og samtímis send umsókn til viðskiptaráðs um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Var það sami háttur og á hafði verið hafður þá undanfarið um innkaup símans og fram að þeim tíma ekki komið að sök. En nú bar svo við, að viðskiptaráð og nýbyggingarráð fóru að kasta þessu máli á milli sín, án þess að úr yrði leyfisveitingu. Þegar svo fjárhagsráð var stofnað, var að sjálfsögðu sótt um fjárfestingarleyfi. Hafa leyfisbeiðnir síðan verið endurnýjaðar og viðskmrh. eindregið mælt með leyfisveitingu.

Eins og áður var sagt, var upphaflega gert ráð fyrir, að stöð þessi yrði gerð fyrir lánsfé, ásamt ýmsum öðrum símaframkvæmdum. En svo fór, þegar til kom, að ekki fékkst meira lán en það, sem fór til símaframkvæmda á árinu 1946 (jarðsími til Hrútafjarðar o.fl.). Var þá upphæð sú (kr. 1.400.000), sem nauðsynleg var til Akureyrarstöðvarinnar, tekin (1947) upp í tillögur póst- og símamálastjórnarinnar til fjárlaga fyrir 1948 og heimild veitt í þessu skyni í 22. gr. núgildandi fjárlaga. Þegar svo var sýnt, að ekki yrði nema nokkur hluti vélanna tilbúinn á þessu ári (þetta er skrifað fyrir áramót), var upphæðin aftur tekin upp í tillögur póst- og símamálastjórnarinnar til fjárlaga 1949, þótt ekki næði hún að verða tekin upp í sjálft fjárlagafrv. Liggja þær till. nú fyrir hjá fjvn., og er þess að vænta, að eins og hér stendur á sjái hún sér fært að taka þessa fjárveitingu upp í tillögur sínar.

Þess var upphaflega vænzt, að greiðlega gengi með leyfisveitingu fyrir þessari stöð, með því að hér var um aðkallandi nauðsynjamál að ræða og nýsköpunin þá (1946) efst á baugi og auk þess langur frestur þangað til vélarnar yrðu tilbúnar. Póst- og símamálastjórnin væntir þess enn, að fjárhagsráð sjái sér fært að veita hin nauðsynlegu leyfi á næstunni, og hefur fyrir sér fyrirheit fjárhagsráðs um að taka málið til meðferðar við áætlunina fyrir næsta ár (1949), sem nú er verið að vinna að.

Fyrir nokkru síðan tilkynnti verksmiðjan, að rúmlega 1/3 af stöðinni yrði tilbúinn til sendingar á þessu ári, en þar sem innflutningsleyfi hefur enn ekki fengizt, hefur afskipun þessa efnis ekki getað farið fram. Póst- og símamálastjórnin þykist þess fullvíss, að verksmiðjan væri fús að bíða með greiðslu þangað til á næsta ári, ef innflutningsleyfi fengist nú, svo að uppsetning gæti hafizt sem fyrst. Hvenær stöðin getur verið komin upp, fer að sjálfsögðu fyrst og fremst eftir því, hvenær leyfi og fjárveiting fæst. En fáist þetta nú strax, má sennilega gera ráð fyrir, að uppsetningu sjálfrar stöðvarinnar geti orðið lokið seint á næsta ári.“

Við þessa skýrslu hef ég engu verulegu að bæta. Ég vil aðeins út af því, sem sagt er í bréfinu, að vélarnar hafi verið pantaðar á árinu 1946, áður en endanlega var gengið frá leyfisveitingu, taka það fram, að það var gert vegna skýlausrar samþykktar Alþ. Hvorki nýbyggingarráð né viðskiptaráð voru heldur á móti því, heldur taldi hvort um sig, að veitingin heyrði undir hitt. Afgreiðslutíminn var þar á ofan langur, svo að ekki þótti fært að bíða með pöntun, þar sem álitið var, að leyfið mundi fást.

Vitanlega er nú erfitt um ýmsan innflutning og vafasamt að leggja meira í fjárfestingu, en gert hefur verið að undanförnu. En þar sem þessum framkvæmdum er þegar lokið að verulegu leyti — eins og húsinu og bæjarsímakerfinu, tel ég, að ekki verði komizt hjá að veita leyfið, enda ætla ég, að þetta hafi verið tekið til athugunar hjá fjárhagsráði, er það samdi áætlun sína fyrir þetta ár. Þessi dráttur er heldur til hins verra, en hann er þó ekki meiri, en sem svarar einum mánuði, því að það er fyrst seinni hluta árs 1948 (í nóv., ef ég man rétt), sem það liggur fyrir frá verksmiðjunni, að nokkuð sé búið af vélunum.

Ég vona, að það takist mjög fljótlega að fá leyfið og að Alþ. endurnýi núgildandi heimild sína til framkvæmdanna.