26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í D-deild Alþingistíðinda. (5191)

95. mál, sjálfvirka símstöðin Akureyri

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ísaf. sagði, að sér kæmi það spánskt fyrir, að pöntunin á hinum sjálfvirku vélum hefði verið gerð áður en leyfi hefði verið veitt. En það var alsíða á þessum dögum, að pöntun væri gerð á vörum, áður en leyfi væri formlega veitt, ef fyrir lá vissa um vinsamlega afstöðu viðkomandi yfirvalda, einkum þegar um var að ræða hluti, sem afgreiða varð með alllöngum fyrirvara, eins og raun var á með þessar vélar.

Þá sagði hv. þm., að símasambandið við Vestfirði væri svo slæmt, að tæpast væri verjandi að gera neinar framkvæmdir annars staðar, fyrr en því væri kippt í lag. Nú er það svo, að á áætlun ársins 1946 voru framkvæmdirnar á Akureyri og líka breytingar á Vestfjarðasambandinu og. fékk það samþykki Alþingis. Ég skal fúslega viðurkenna, að sambandið við Vestfirði er ekki gott, en einkum hefur keyrt um þverbak í þessum harðindakafla. Það er kunnugt, að oft er símasambandslaust við Vestfirði, og heyrist ákaflega illa þangað og þarf mikið að gera þar til bóta, en eins og kunnugt er og hv. þm. Ísaf. veit, er hugsuð gagngerð breyting með því að byggja símastöðvarhús í Hrútafirði og nýjar línur vestur, en það verður að taka tillit til þess, að það er Alþ. á hverjum tíma, sem ákveður hvað mikið er unnið. Það er ekki fyrir mig eða mitt ráðuneyti að gera neitt annað en fara eftir því, sem Alþ. samþykkir hverju sinni. Ég tel því sjálfsagt, þegar fyrir liggur samþykki frá Alþ., að hefja framkvæmdir við sjálfvirku stöðina á Akureyri. En meðan Alþ. hefur ekki samþ. frekari aðgerðir í málinu, verður ekki frekar aðhafzt.