02.02.1949
Sameinað þing: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í D-deild Alþingistíðinda. (5232)

924. mál, mjólkurflutningar til Reykjavíkur úr Borgarfjarðarhéraði

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Þó að þessi starfsemi sé í rauninni utan við það ráðuneyti, sem ég hef með að gera í ríkisstj., og á vegum sérstakra stofnana í landinu, bænda í Borgarfirði og þeirra, sem annast söluna hér, hef ég aflað mér nokkurra upplýsinga um þessi mál, sem ég var nokkuð kunnugur af þeim ástæðum, að ég er þm. fyrir Mýrasýslu, og skal ég gefa nokkrar upplýsingar um þetta.

Það eru ýmis teknísk atriði í sambandi við þetta mál, sem hafa gert það eðlilegt, að flutningarnir hafa tekið þessa rás viðburðanna. Fyrst og fremst er þess að geta, að flutningar á mjólk, ekki sízt þaðan ofan að, eru nokkuð tímaglöggir, þurfa að vera öruggir, til þess að mjólkin komi eins ný á markaðinn og mögulegt er. Mun það vera venja, að mjólkin er flutt fyrri hluta dags úr héruðum Borgarfjarðar og þá tekin til meðferðar og gerilsneydd síðari hluta dags. Og nú þarf að vera tryggt, til þess að mjólkin bíði ekki, að hún komist þegar að kvöldi áleiðis til Rvíkur eða snemma næsta dag. Nú er það svo, að Laxfoss hefur undanfarið haft sérstaklega fyrir stafni að annast fólksflutninga bæði milli Rvíkur og Akraness og Borgarness, og sömuleiðis hefur hann annazt fólksflutninga í sambandi við hraðferðir frá Akranesi. Þetta hefur gert það að verkum, að hann hefur verið bundinn á vissum tímum til þess að taka á móti hraðferðunum, þegar þær koma að norðan. Það er þess vegna mjög örðugt fyrir skipið að binda sig því að vera alltaf til taks á kvöldin að taka mjólk, og hafa ferðirnar í Borgarnes verið nokkuð meir af handahófi þá tíma, sem hann hefur ekki verið bundinn við hina aðra fólksflutninga. Þess ber einnig að geta, að sigling í Borgarfjörð er bundin vandkvæðum, þar sem sæta verður sjávarföllum, og þegar þannig stendur á, er nokkrum vandkvæðum bundið, að skipið geti verið til taks á þeim tímum, sem það þyrfti að vera. Þetta eru út af fyrir sig nokkrir teknískir örðugleikar, eins og starfsemi skipsins er hagað.

Í sambandi við þetta má minna á, að þarna hefur verið gerð rannsókn á því, eins og víðar á landinu, að flytja mjólkina á tankbílum, sem er á allan hátt miklu betra vegna mjólkurflutninganna, og þarf til þess miklu minni ílát að geta flutt hana á tankbilum í stað þess að flytja hana á brúsum, og er það atriði út af fyrir sig. En hér kemur einnig annað til greina. Það mun láta nærri, að flutningskostnaður á mjólkinni með skipinu sjálfu sé um 40 kr. á tonn, en útskipun í Borgarnesi og uppskipun í Rvík samtals um 100 kr. á tonn, en þar að auki bætist hér við flutningskostnaður við að koma mjólkinni frá skipshlið og í mjólkursölubúðirnar. Mun láta nærri, að allur kostnaður við flutning sjóleiðina fari upp í 176 kr. tonnið. en flutningur á landi hefur ekki kostað nú meir, en 140–150 kr. tonnið, og er því eðlilegt, að bændur hafi fremur kosið að nota þá leið en hina. Það er að vísu rétt, að Hvalfjörður eða landleiðin getur orðið ófær bilum. En þegar þannig hefur verið ástatt, hefur venjulega verið gripið til sjóflutninga, til þess að mjólkurflutningarnir skyldu ekki stöðvast, þegar sjóleiðin hefur verið fær. En þó að það komi ekki oft fyrir, getur sjóleiðin í Borgarnes líka verið ófær vegna veðurs, og hefur komið fyrir, að flutningar gátu farið fram á landi, þó að þeir væru ekki mögulegir á sjó. Annars hefur mér verið tjáð, að ekki hafi komið nema 4 dagar, sem landleiðin hafi lokazt. En ef allt væri talið saman, mundu ekki verða færri dagar, sem sjóleiðin hefur líka lokazt, og er þannig ekki hægt að tryggja fullkomið öryggi um daglega flutninga, þó að hugsað sé um landleiðina eingöngu. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa hvort tveggja opið, til þess að hafa einn möguleika til þess að grípa til, þegar annar bregzt. Landflutningarnir eru í senn ódýrari og tryggari, ef skipið á að anna öðru, en mjólkurflutningunum einum, og er því eðlilegt, að bændur grípi til þess ráðs að velja landleiðina, eins og þeir þegar hafa gert.

Ég hygg, að þessar upplýsingar ættu að nægja til þess að sýna, að það er ekki að ástæðulausu, að gripið hefur verið til þess ráðs að nota að mestu landflutninga til þess að koma mjólkinni á markaðinn.