23.02.1949
Sameinað þing: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í D-deild Alþingistíðinda. (5284)

136. mál, embættisbústaðir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Skömmu eftir að ríkisstj. fékk þessa ályktun í hendur, var hún falin skrifstofustjórum fjmrn. og dómsmrn. Þeir hafa svo rætt sín á milli um þetta mál, og þeir leituðu svo til mín síðla sumars um leiðbeiningar um það, hvert efni þessarar lagasetningar skyldi vera. Dómsmrn. skrifaði svo hinum ráðuneytunum 15. okt. s.l., til þess að fá upplýsingar um það, hvaða embættismannabústaði væri mest þörf á að byggja að þeirra áli,i. En í svarbréfum ráðuneytanna koma fram mjög mismunandi skoðanir á þessu.

Fjmrn. telur, að þörfin sé mest í dreifbýlinu og að sömu stefnu beri að halda þar. En þá stefnu, sem farin hefur verið í kaupstöðunum, telur rn. vera mjög varhugaverða fjárhagslega fyrir ríkissjóð, og ef haldið verður áfram á þessari sömu braut og nú hefur verið farin undanfarin ár, þá mætti búast við því — og enda eðlilegt —, að forstjórar tóbakseinkasölunnar, áfengisverzlunarinnar o.fl. kæmu fram með sínar kröfur um bústaði. — Samgmrn. telur einnig, að fara beri varlega þá braut, að ríkið sjái embættismönnum sínum fyrir bústöðum og bindi sér á þann hátt fjárhagslegar byrðar, en hins vegar kemur þetta mjög ójafnt niður á embættismönnum, þar sem ekki geta allir orðið þess aðnjótandi að fá bústaði. Ef hins vegar haldið yrði áfram sömu braut, þá væri ráðuneytið reiðubúið til þess að benda á nokkra starfsmenn. — Menntmrn. álítur, að ekki sé rétt að halda áfram á sömu braut og byggja, heldur beri að halda til baka frá þeirri stefnu, sem farin hefur verið. En ef haldið yrði áfram, þá væri það reiðubúið að benda á ýmsa starfsmenn, sem þyrfti að byggja fyrir, svo sem rektor o.fl. — Landbrn. taldi rétt að láta byggja yfir þá starfsmenn, sem vinna í þágu landbúnaðarins úti um sveitir landsins. — Og loks taldi viðskmrn. ekki koma til mála að halda áfram sömu stefnu, enda munu ekki vera svo margir starfsmenn hjá því — enginn utan Reykjavíkur —, sem byggja þyrfti yfir. Maður sér það, að þessar upplýsingar ráðuneytanna veita ekki mikið hald við setningu laga, nema það eitt, að öllum virðist þeim, að of langt hafi verið gengið í þessu efni. Það hefur dregizt nokkuð að fá svar hjá sumum ráðuneytunum, en sjálfsagt er að reyna að finna einhverja viðunandi lausn á þessum málum. Ályktanir þeirra eru nokkuð óákveðnar, en af þeim er þó hægt að draga eina sameiginlega ályktun, en hún er sú, að embættismannabústaðir verði eingöngu reistir utan kaupstaðanna. En nú vitum við vel, að það hafa verið í smíðum bústaðir í ýmsum kaupstöðum landsins, og ég held, að það þyrfti að taka til athugunar, áður en þessi löggjöf er sett, heimild til slíkra bygginga.