24.02.1949
Sameinað þing: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í D-deild Alþingistíðinda. (5296)

930. mál, bygging fornminjasafns

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að óska þess, að fyrirspurnirnar verði ekki bornar upp í einu lagi, svo að mér fyrir mitt leyti gefist tækifæri til þess að greiða atkv. gegn því, að fyrirspurn nr. II verði leyfð. Ég get ekki betur séð en að um þessa fyrirspurn eins og aðrar, sem hv. þm. S–Þ. ber fram, sé það svo, að mikill vafi sé á því, hvort hún sé þinghæf. Hér er ríkisstj. spurð um, hverju sæti, að ekki er aðallýsing í byggingu fornminjasafnsins gegnum þakið, og hvers vegna veggir séu ekki heilir á þeirri hæð safnbyggingarinnar, sem er ætluð listaverkageymslu, í öðru lagi, hvers vegna stærsti salur hins tilvonandi listasafns sé nálega dimmur, og enn fremur, hvort það sé rétt, að helztu málarar landsins muni mótmæla, að verk þeirra verði til sýnis í þessu húsi. Ég tel slíka fyrirspurn sem þessa varla þinghæfa og vil fá tækifæri til að greiða atkv. gegn því að leyfa hana og þannig gera mitt til þess að koma í veg fyrir, að sá skrípaleikur verði hafður hér á Alþ., sem stundum áður hefur átt sér stað, er slíkar fyrirspurnir sem þessi hafa verið til umr. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að í engu þjóðþingi á Vesturlöndum gætu aðrar eins fyrirspurnir og þessi verið teknar til umræðu. Og sama gildir um sumar þáltill., sem bornar hafa verið fram og ræddar hér á Alþ. af miklu kappi. Ég skal ekki fullyrða, að slíkt gæti ekki átt sér stað suður á Balkanskaga eða í Afríku eða Suður-Ameríku. En ég staðhæfi, að í engu þjóðþingi öðru á Vesturlöndum en Alþ. gæti það gerzt viðkomandi umr. um fyrirspurnir og þáltill., sem hvað eftir annað hefur gerzt hér á Alþ., síðan ég kom á þing fyrir tveim til þrem árum. Og ég verð að láta í ljós nokkra undrun yfir því, að hvorki forseti né þingmenn hafa gert nokkuð til að koma í veg fyrir, að bæði hefur tími þingsins verið misnotaður með því, eins og gert hefur verið, og þingið raunverulega hefur oft verið með skrípaleik og skrípaumr., eins og hér hefur átt sér stað. A.m.k. vil ég fyrir mitt leyti kasta af mér allri ábyrgð af því að nota tíma þingsins til að ræða sumar fyrirspurnir, sem bornar eru hér fram. Ég hef einnig gert það áður viðkomandi fyrirspurnum.