03.03.1949
Neðri deild: 74. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

119. mál, gjaldaviðauki 1949

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hagar þannig til með þetta mál, að fyrir alllöngu síðan var hjá okkur í fjhn. till. frá ríkisstj. um að hækka þann hluta þessara gjalda, sem snýr að eftirliti með skipum, skoðunargjöld og annað slíkt.

Í fyrra, þegar „bandormurinn“ var settur í gegn í báðum d. á síðustu dögum þingsins, var þetta annað ákvæðið í honum, að innheimta þessi skipagjöld með verðlagsuppbót. Ég var á móti þessu þá. Ég tel það óviðkunnanlegt af okkur að vera að hækka stórkostlega gjöld, sem skipin eiga að greiða, á sama tíma sem því er borið við, að meginið af þeim álögum, sem lagt er á þjóðina, sé vegna sjávarútvegsins. Mér finnst þetta vera að taka úr einum vasanum til að láta í hinn og aðeins til að gera ómak við innrukkun þessara gjalda. Hins vegar játa ég það, að þessi gjöld eru ekki mjög tilfinnanleg út af fyrir sig, en ég skil þetta svo, að ríkisstj. finnist hún ekki mega láta neitt vera eftir, sem ekki hækki, og þannig sé þetta í samræmi við aðrar dýrtíðaraðgerðir stj., að innheimta þessi gjöld hjá skipunum, sem síðan eiga að taka á móti þessum peningum. Ég kunni þess vegna ekki við að vera með þessari hækkun og legg til, að frv. verði fellt.