20.04.1949
Sameinað þing: 66. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í D-deild Alþingistíðinda. (5487)

947. mál, stöðuveitingar við atvinnudeild háskólans

Gísli Jónsson:

Hæstv. ráðh. hefur haldið hér vísindalegan fyrirlestur í nærri klukkutíma, í fyrirspurnatíma, og við höfum heyrt þau vísindi, að það sé alveg sannað í atvinnudeild háskólans, sem kostar nokkrar milljónir á ári, að sé beljum gefið of mikið síldarmjöl, komi bragð af mjólkinni og gæði hennar verði ekki eins mikil. Við höfum líka fengið þær upplýsingar, að þessi sama vísindastofnun geti ekki enn svarað því, hvort það borgi sig að fóðra ær sæmilega um meðgöngutímann eða svelta þær. Ég vil benda hæstv. forseta á það, hvort ekki er verið að eyðileggja þann góða tilgang, sem hugsaður var með fyrirspurnatímanum, með því að láta halda svona fyrirlestra hér. Ég vildi enn fremur spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hann hefur sjálfur lesið yfir svörin, áður en hann ber þau fram hér, eða tekur hann þau alveg óathugað frá mönnum, sem ekkert virðast hafa að gera annað, en dunda við að koma saman svona lítilfjörlegum svörum? Mér finnst það gersamlega ósamboðið hæstv. ráðh., ef hann hefur ekki litið á þessi blöð áður en hann les klukkutíma fyrirlestur hér á Alþ.