11.11.1948
Neðri deild: 13. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

4. mál, hvalveiðar

Frsm. (Pétur Ottesen):

Sjútvn. hefur haft frv. til athugunar og m.a. rætt við mann þann í utanrrn., sem hefur samið það. Eins og fram kemur í grg. frv. og að er vikið í nál., gerðust Íslendingar árið 1946 aðili að alþjóðasamningum um hvalveiðar, sem gengnir eru í gildi. Samningar þessir ganga út á það að gera ráðstafanir til að vernda hvalastofninn, því að viðkoma hvalanna er orðin lítil. Er fullkomin ástæða til þessara aðgerða, og þó einkum þegar á það er litið, að uppi er með fiskiþjóðum tilhneiging í þá átt að efla aðstöðu alla til hvalveiða. Þessi atvinnuvegur er arðvænlegur, og þörf hefur verið að afla feitmetisvara. En þetta mál allt er þannig vaxið, að full ástæða er til að koma hér á ýmsum takmörkunum. Meginefni frv. er að samræma löggjöf okkar ákvæðum alþjóðahvalveiðisamninganna. Frv. er byggt svo upp, að aðalatriðunum er komið fyrir í 4. gr. og gert ráð fyrir, að ýmis ákvæði verði reglugerðarákvæði. Það er nefnilega gert ráð fyrir því, að slíkir samningar geti tekið breytingum, og hægara er að breyta reglugerð en þurfa oft að láta fara fram breytingar á l.

Sjútvn. hefur borið fram nokkrar brtt. við frv. Eru þær heldur smávægilegar, en horfa þó til lagfæringar. — 1. brtt. er gerð við 1. gr. frv. Er hún gerð til samræmingar, en hér er um enga efnisbreytingu að ræða. Gert er ráð fyrir, að menn geti hlotið löggildingu atvmrh. til veiðanna. Í annan stað eru svo frekari ákvæði um leyfishafa, þá er einir fái að hefja þessa starfsemi. Þetta er aðeins breyting á orðalagi. — Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að einungis megi nota þau skip til þessara hvalveiða, sem atvmrn. samþykki, að nota megi, og ef um sé að ræða notkun á erlendum skipum, sé leyfið aðeins veitt til eins árs í senn. En á síðasta Alþ. var samþ. að taka erlend skip á leigu til þriggja ára. Því er 2. brtt. n. borin fram um, að eigi skuli ,,þó skerða þau leyfi, sem þegar hafa verið veitt “ — 3. brtt. er við 6. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir, að atvmrn. setji reglur skv. l., og er gert ráð fyrir opinberum eftirlitsmönnum, er taki laun úr ríkissjóði, en jafnframt „megi“ ákveða leyfisgjald. N. leit svo á, að eftirlitskostnaðinn bæri viðkomandi aðila að bera uppi. Því hljóðar till. n. svo, að í stað „má“ skuli koma „skal“. Þetta er í samræmi við margs konar eftirlit ríkisins í öðrum greinum hér á landi, þar sem gert er ráð fyrir kostnaði aðila, er það varðar. — Í 7. gr. frv. eru ákvæði um ábyrgð eiganda hvalveiðiskips. Nú er þannig ástatt, að leigja verður skip til veiðanna í útlöndum. Eigandi þeirra er því búsettur erlendis. N. telur því eðlilegra, að útgerðarmaður skips beri ábyrgðina. Leggur hún því til, að breyt. verði gerð í samræmi við þetta: „Útgerðarmaður“ komi í stað „Eigandi“. Hér í frv. er eigi ákveðið neitt um sektarupphæð. Þótti n. rétt að taka upp ákvæði um þetta efni. Það er í samræmi við íslenzka löggjöf. Leggur því n. til, að lágmarksupphæð sektar verði ákveðin kr. 10.000, en geti orðið allt að kr. 100.000. Ég hef kynnt mér löggjöf Norðmanna um þessi mál, en þar er sektarupphæðin ákveðin allt að 1 millj. króna. En þar er nú allt í stærra broti; og leit n. því svo á, að þessi upphæð, er hún gerir till. um, muni vera nokkuð við hæfi. — Enn fremur eru í 10. gr. ákvæði um löghald, er leggja megi á skip til lúkningar sektum og kostnaði. N. þykir réttara, að í staðinn komi ný málsgrein, svo hljóðandi: „Á skipinu skal hvíla lögveð til tryggingar greiðslu á sektum og kostnaði.“ Mundi þetta ná hugsuninni betur, ef samþ. verður. En frekar mun verða um bráðabirgðaástand að ræða varðandi löghald, er lagt yrði á skip. Hins vegar ætti að vera réttara, að lögveð hvíldi á skipinu.

Fleira leggur n. ekki til, að breytt verði. En hún leggur til, að frv. verði samþ. með breyt. þessum.