27.10.1948
Neðri deild: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

16. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég sé ekki ástæðu til að segja mörg orð út af þessari langloku hv. 2. þm. Rang. út af staðsetningu áburðarverksmiðjunnar. Ég hef engu slegið föstu um stað fyrir verksmiðjuna. Það er látið óákveðið, eins og það var á sínum tíma með sementsverksmiðjuna. Ég geri ráð fyrir, að þeir, sem um þetta mál fjalla, geri sér grein fyrir, hvar verksmiðjan verði bezt sett bæði fjárhagsog atvinnulega fyrir hana sjálfa, hvar sé heppilegast að hafa hana vegna flutningskostnaðar við áburðarframleiðsluna og einnig þjóðfélagslega. Ég slæ engu föstu um það, hvort hún skuli verða nálægt Reykjavík, austur í Þorlákshöfn eða annars staðar. Það geta margir staðir komið til greina, og ég geri ekki ráð fyrir, að hv. 2. þm. Rang. sé sá páfi, að hann geti komið með neinn óskeikulan úrskurð, hvar verksmiðjan verði bezt sett.

Hann var að minnast á, að ef verksmiðjan væri sett í námunda við Reykjavík, þá mundi fólk fyrir það halda áfram að streyma til Reykjavíkur. En gæti ekki verið, að þegar þar að kæmi, yrðu atvinnuskilyrðin þannig fyrir þann fjölda, sem hingað er kominn, að það þyrfti að skjóta einhverjum nýjum fótum undir atvinnulíf hér, til þess að fólk geti lifað hér án þess að efna hér til stórkostlegrar atvinnubótavinnu? Allt þetta verður að athuga, þegar tími er kominn til,og læt ég bíða að ræða um það nokkru frekar.

Það hefur víst farið fram hjá mér, sem hv.

2. þm. Reykv. var að tala um, að hægt væri að tryggja nógan áburð næsta sumar, ef eftir því væri leitað. Hann spurði einnig um, hvað gert hefði verið til að tryggja landinu nógan áburð. Það er þá það, að strax eftir nýár var sendiherra Íslands í New York skrifað og hann beðinn að beita sér fyrir því, að Ísland fengi tiltölulega stærri kvóta í áburðarverzluninni, en verið hefði áður, og var tilfærð sérstaða Íslands í þessu efni. Þetta bar þegar þann árangur, að í stað þess að víða hefur verið lækkað áburðarmagn við önnur lönd, þá var það hækkað við Ísland úr 16 í 18 þús. tonn. Þetta létum við okkur ekki nægja, heldur fengum við Björn Jóhannesson til að semja greinargerð fyrir áburðarþörf okkar, sem var rökstudd með því, að ræktunin væri svo ný hjá okkur, að ekki væri hægt að bera þörf okkar saman við fyrirstríðsárin og það ástand, sem væri hjá öðrum þjóðum, þar sem löndin væru þrautræktuð. Magnús Magnússon, sem er fulltrúi í sendiráðinu, var hér á ferð. Hann tók við skýrslu Björns Jóhannessonar og hefur unnið síðan að því að fá áburðarkvótann hækkaðan. Nú kom bréf frá honum fyrir 2–3 dögum. Hann hefur haldið þessum málaleitunum áfram. Málið er ekki útkljáð, en verður haldið áfram. Þessi staður er svo að segja eini staðurinn, sem þýðir að snúa sér til, því að áburðinum er úthlutað öllum frá einum og sama stað, þar sem allir áburðarframleiðendur heims hafa skrifstofu til að skipta áburðinum. — Auk þess hefur verið snúið sér til Noregs og beðið um enn þá meira af áburði, en við höfum fengið þaðan hingað til. Ég skal ekki segja, hvað út af því kemur, en hv. þm. má vita, að allt verður gert, sem hægt er, til að tryggja landinu nægan áburð.

Þetta er sú skýring, sem ég vil gefa út af þessari fyrirspurn hv. þm.