28.02.1949
Efri deild: 67. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

16. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem er stjfrv., hefur fengið meðferð og afgreiðslu í Nd. með nokkrum breyt. frá upphaflega frv., sem ég mun lítillega minnast á síðar, en tel rétt að öðru leyti að fara um málið nokkrum almennum orðum við þessa 1. umr. í þessari hv. d.

Það hefur um nokkuð langt skeið verið áhugi fyrir því, að unnt væri að koma upp áburðarverksmiðju til framleiðslu köfnunarefnisáburðar hér á landi, og hafa nokkrir viðburðir verið sýndir í því máli á undanförnum þingum, og ætla ég ekki að fara langt út í það, því að hv. þm. er það kunnugt. Ekkert hefur þó orðið úr framkvæmdum til þessa, og liggja vitanlega til þess ýmsar orsakir. Það hefur verið þannig um þetta mál, að því oftar sem það hefur verið tekið upp, því stærra hefur það orðið. Fyrst kom fram uppástunga um 3.000 tonna köfnunarefnisverksmiðju. Síðan hafa nokkrum sinnum verið bornar fram till. um áburðarverksmiðju, í þinginu, og þá hefur hún sífellt farið stækkandi, og það er af því, að þessar till. hafa verið miðaðar við hina innlendu þörf og að nokkru leyti við þá getu, sem talin var vera fyrir hendi á hverjum tíma. Eins og frv. liggur fyrir nú, er gert ráð fyrir því, að verksmiðja sem þessi, ef stofnuð verður, geti framleitt frá 7.500–10.000 tonn af hinu hreina köfnunarefni, en ársþörfin nú og undanfarin ár hefur verið talin 2.500 tonn, og samkvæmt útreikningi færra manna á áburðarnotkun í framtíðinni er gert ráð fyrir því, að eftir 3–4 ár, eða um það leyti sem talið er líklegt, að þetta fyrirtæki verði komið upp, verði eðlileg innanlandsþörf orðin 4.000–5.000 tonn af köfnunarefni, og ef verksmiðjan væri reist með það fyrir augum að afkasta 7.500 tonna framleiðslu, þá má búast við því, að fyrstu árin yrði afgangs í kringum 2.500 tonn. En ef stærra sporið yrði stigið og byggð yrði 10.000 tonna verksmiðja, þá má gera ráð fyrir, ef við komum þessari verksmiðju upp á 3–4 árum, að helmingur af framleiðslunni yrði umfram íslenzkar þarfir, m.ö.o., þá þyrftum við að hafa örugga markaði erlendis fyrir allt að helming framleiðslunnar. Hins vegar er það víst, að á næstu árum þar á eftir, t.d. 5–10 árum eftir að verksmiðjan er komin upp, þá má gera ráð fyrir, að hún geri ekki meira, en að fullnægja innanlandsþörfinni, og er því eðlilegt, að í sambandi við þetta komi fram fyrirspurnir um það, hvort líkur séu til þess, ef komið væri upp verksmiðju af þessari stærð, að unnt væri fyrir okkur að selja þennan afgang þau ár, sem framleiðslan yrði svona mikið umfram innlenda þörf. Þar til er því að svara, að það er vitanlegt, að nú um skeið hefur verið geysimikil köfnunarefnisþurrð í heiminum, og það var talið fyrir ári síðan, að hún væri það mikil, að það mundi vanta um eina milljón tonna í heiminum, til þess að hægt væri að fullnægja eðlilegri þörf. Nú er hins vegar vitað, að það eru margar þjóðir, sem hyggja til þess að auka þessa framleiðslu hjá sér, þannig að líkur eru til þess, að á næstu árum verði nokkuð bætt úr þessari þörf, þótt ekki sé líklegt, að fyrstu árin verði þörfinni algerlega fullnægt, þannig að telja má líkur til þess, að við gætum um skeið fengið markað fyrir þessa áburðarframleiðslu okkar. Í því sambandi er rétt að minnast á það, að allmikið af því köfnunarefni, sem framleitt er nú í Evrópu, er ýmist brennisteinssúr stækja eða kalksaltpétur, eins og Noregssaltpéturinn, sem hefur miklu minna köfnunarefnisinnihald en sú áburðartegund, sem hér er hugsað að framleiða, þannig að flutningskostnaður á þeim áburði, sem hér verður framleiddur, yrði t.d. um helmingi ódýrari, en flutningskostnaður á Noregssaltpétrinum, auk þess sem hann er um helmingi köfnunarefnisríkari en sá norski, þannig að líkur eru til þess, að við af þeim ástæðum ættum að standa betur að vígi um sölu og flutning á erlendan markað aðeins af þeim sökum, ef við gætum framleitt með því verði, sem líkur væru til, að sé sambærilegt á heimsmarkaðinum. Samkvæmt þeim rannsóknum, sem liggja fyrir um þetta hér, og það hefur verið aflað eins glöggra upplýsinga um þetta atriði hjá þeim mönnum, sem færastir eru í þessum greinum, eins og frekast er unnt, þá ætti framleiðslukostnaður á þeim áburði, sem hér er hugsað að framleiða, að verða stórkostlega miklu lægri en það verð, sem nú er á þeim áburði, sem við kaupum — svo miklu lægri, að samkvæmt útreikningum nemur það 500 krónum á tonn borið saman við áburðarverð erlendis á sölustað, en þá er ekki reiknað með flutningskostnaði til landsins, þannig að þótt telja megi, að það verð, sem nú ríkir á áburði, sé ekki raunverulegt framleiðsluverð, heldur skapist að nokkru leyti fyrir það, hve eftirspurnin eftir þessari vöru er mikil í heiminum, og þótt gert sé ráð fyrir því, að eftir því sem framleiðslan ykist, þá lækki það verð að nokkru leyti, þá virðist allmikið upp á að hlaupa til samanburðar við það verð, sem nú er, til þess að við getum verið samkeppnisfærir um verðið.

Þegar við Íslendingar ákveðum stærð verksmiðjunnar, þeirrar sem við ætlum að reisa, þá er þrennt sem kemur til greina; fyrst innlenda þörfin og í annan stað framleiðsluverð, sem við megum búast við, að verði á þessari vöru, og í þriðja lagi raforkan og fjármagnið, og stærð þeirrar áburðarverksmiðju, sem hér er lagt til, að reist verði, er miðuð að öllu leyti við þetta, við innlendu þörfina, við þá raforku, sem líklegt er, að verði fyrir hendi til þessara starfa, þegar þar að kemur, og fjármagnið, sem líklegt er, að við eigum kost á eða höfum getu til þess að afla til fyrirtækisins. Það er nú vitanlegt, að eftir því sem slíkar verksmiðjur sem þessi eru stærri og hafa meiri afkastagetu og sölumöguleika, þá verður framleiðslan tiltölulega ódýrari, og þess vegna eru takmörk fyrir því, hvað vit er í að leggja út í litla verksmiðju. Hins vegar er vitanlegt, að þó að maður geti hugsað sér það, að því stærri sem verksmiðjan væri og afkastameiri, því ódýrari yrði framleiðslan, þá kemur annað til greina, það er geta okkar til þess að reisa slíkt fyrirtæki og öryggi okkar um að selja framleiðsluna, þannig að við verðum líka að taka tillit til þess, og ég held að með þeirri stærð, sem hér er ákveðin, þá hafi verið nokkurn veginn farið meðalveginn á milli þessara tveggja sjónarmiða. Það er vitanlegt, að fjölda margar verksmiðjur úti um heim, sem framleiða og selja köfnunarefni, eru jafnvel nokkru minni, en sú verksmiðja, sem hér er gert ráð fyrir, og á þann mælikvarða er þetta allstórt fyrirtæki, þó að það geti ekki mælt sig við þau risafyrirtæki á þessu sviði, sem eru sums staðar í heiminum, eins og t.d. í Ameríku. Um möguleika okkar til þess að afla fjár í þetta fyrirtæki er ekki hægt að segja með nokkurri vissu, en ég tel miklar líkur til þess, að í sambandi við þær framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru, og þann stuðning, sem fyrirhugaður er til slíkra framkvæmda í sambandi við Marshalláætlunina, þá munum við geta fengið fjármagn í þetta fyrirtæki. En þó að við séum ekki vissir um að geta fengið fjármagn í þetta fyrirtæki og fleiri, þá virðist þeim, sem áhuga hafa fyrir málinu, einsætt, að nota þetta tækifæri, ef það skyldi vera fram undan.

Það hefur verið nokkuð deilt um það í Nd., hvort tryggilegt væri, að fyrir hendi yrði raforka til þess að reka svona stóra verksmiðju með þeim rafmagnsframkvæmdum, sem hér eru fyrirhugaðar, og eftir að hafa athugað það mál allrækilega, tel ég, að fyrir liggi upplýsingar, sem sýni það ótvírætt, að ef við ljúkum þeim framkvæmdum, sem fyrir dyrum eru um aukningu Sogsvirkjunarinnar, þá verði nægileg raforka fyrir hendi til þess að reka verksmiðju af þessari stærð með 7.500 eða 10.000 tonna afköstum. Sú virkjun, sem nú er verið að undirbúa í Soginu, á að geta gefið 32.000 kw. eða 225 milljónir kílówattstunda, og það er hugsað, að framkvæmdir við áburðarverksmiðjuna fari fram samtímis virkjunarframkvæmdum Sogsins, og þegar verksmiðjan er tilbúin að taka til starfa, þá ætti þetta viðbótarrafmagn að vera fyrir hendi. Nú hefur það verið reiknað út, að 10.000 tonna verksmiðja þurfi um 190 milljónir kwst. á ári, og ef hún yrði byggð, þá færi að vísu af þessum 225 millj. kwst. til áburðarverksmiðjunnar allt nema 35 millj. kwst., sem þá er eftir til venjulegra nota og aukningar á rafkerfinu. Má segja, að sá afgangur sé ekki mikill, þar sem, samkvæmt upplýsingum rafmagnsstjórans í Reykjavík, hann gerir ráð fyrir því, að árleg aukning rafmagnsnota til annarra hluta sé um 12.000 kwst. á ári, m.ö.o., þá mundi skapast þarna viðbót fyrir allt að því þriggja ára eðlilegri aukningu með þessari notkun, sem 10.000 tonna verksmiðja þyrfti. Hins vegar, ef ekki væri til að byrja með farið út í nema 7.500 tonna verksmiðju, þá yrði notkun hennar 145 millj. kwst. á ári, og þá er eftir 80 millj. kwst. til annarra eðlilegra nota, og samkvæmt fyrrnefndum útreikningi rafmagnsstjóra er það 6–7 ára aukning, sem þarna yrði fullnægt. Hitt er ljóst, að með því að taka þessa orku til notkunar í sambandi við svona stórt fyrirtæki, þá kallaði það á aukna þörf á því, að flýtt yrði framkvæmd á næstu virkjun, og þá er ágætt að virkja Efra-Sog. Mundi það gefa 28 þús. kw. Síðan er einnig hægt að bæta við Ljósafoss og neðar í Soginu, og yrðu það þá alls 500 milljónir kwst. á ári. Þegar svo 10 þúsund tonna verksmiðjan hefur tekið það af orkunni, sem hún þarfnast, þá eru eftir 280 milljónir kwst. á ári, en það er 21/2, sinnum meira, en notkunin 1948. Það sýnist því óþarfi að óttast, ef Sogið verður fullnýtt, því að eftir þessar virkjanir eiga að vera fullkomnir möguleikar til þess að fá alla orku frá Soginu, sem til þessa þarf, auk annarrar aukningar á orkuþörf um nokkurra ára skeið. Auk þess gæti ég vel hugsað mér, að þó að ekki sé hafizt handa um byggingu á stærri verksmiðju, en 7.500 tonna, þá verði nokkur hluti verksmiðjunnar byggður með það fyrir augum, að hægt sé að bæta við, þannig að afköstin yrðu 10 þús. tonn. Það er gert ráð fyrir því, að þessi verksmiðja verði byggð í þremur áföngum. Hinir tveir síðari verða minni og ódýrari, en aðalkostnaðurinn er við fyrsta áfangann, vetnisvinnsluna, en vetnisvinnslan, það er eini hlutinn, sem hægt er að byggja við smátt og smátt, án þess að það krefjist aukinnar starfsorku, en síðari hlutarnir verða að byggjast í einu lagi, og ef þyrfti að bæta við þá, þá þyrfti að gera það sérstaklega. Ég geri ráð fyrir því, að það væri eðlilegt, að verksmiðjan hæfi starfrækslu með 7.500 tonna afköstum og væri byggð með það fyrir augum, að hægt væri að bæta við, þannig að afköstin yrðu 10 þús. tonn.

Það komu fram raddir um það í Nd., meðan frv. var til afgreiðslu þar, að meðal áhugamanna væri það álitið, að hér væri of smátt af stað farið, og töldu það réttara að taka til athugunar stærri verksmiðju við Þjórsá. Þetta væri mjög ákjósanlegt, ef nokkur tök væru að ráðast í slíkar stórframkvæmdir, en ég tel það mjög vafasamt, að við gætum tryggt okkur það fjármagn, sem slíkar framkvæmdir kostuðu. Enn fremur er ekki víst, að við getum tryggt okkur markað fyrir afurðirnar, og síðast en ekki sízt mundi þetta tefja málið um ófyrirsjáanlegan tíma, því að það eru engar líkur til þess, að slíkt fyrirtæki gæti verið komið upp og tilbúið til starfrækslu fyrr en 1958–60, eftir því sem sérfróðir menn telja. En það er hugsanlegt, að eftir 3–4 ár verði hægt að hefja vinnslu í þeirri verksmiðju, sem frv. gerir ráð fyrir, ef samþykkt verður. Mundu þá líða 5–7 ár frá því, að sú verksmiðja, sem í þessu frv. er gert ráð fyrir, hæfi starfrækslu, þangað til slíkt stórfyrirtæki, sem stungið var upp á, að reist væri við Þjórsá, tæki til starfa. Á þessu 5–7 ára tímabili væru miklar líkur til þess, að þessi litla verksmiðja gæti greitt stofnkostnað og um leið skapað grundvöll fyrir hagkvæm áburðarkaup landsmanna.

Eins og tekið er fram í greinargerð, þá er þessi stærð miðuð við það, að framleiðslan verði öll notuð í landinu. Það verður því ekki bein gjaldeyrisöflun sem við það skapast, heldur verður um óbeina gjaldeyrisöflun að ræða. Það sparast því jafnmargar milljónir af gjaldeyri og annars hefðu farið til áburðarkaupa, og væri hægt að nota hann til annarra nauðsynja. Það er sem sagt ekki bein gjaldeyrisöflun, sem um er að ræða, heldur gjaldeyrissparnaður. Sömuleiðis er annað mikilsvert atriði, og það er það, að ef við gætum komið upp slíku fyrirtæki, þá er að því ósegjanlegt öryggi að geta, hvað sem kemur fyrir, haft hér í landinu slíka verksmiðju. Það er öryggismál, sem varðar alþjóð. Og það er öryggismál fjárhagslega séð, því að ef við erum þess umkomnir að koma upp slíku fyrirtæki, þá gæti það sparað gífurlega mikinn gjaldeyri, sem hægt er að nota til annars.

Þær breyt., sem gerðar voru á frv. við afgreiðslu þess í Nd., voru ekki miklar né stórkostlegar. Þó var gerð allmikil breyting við 2. gr. frá því, sem var, þegar það var lagt fyrir deildina. Það var gert ráð fyrir því í stjfrv., að ef það sýndi sig að vera örðugt fyrir fyrirtækið að standast samkeppni erlendra fyrirtækja, þá væri heimilt að ríkið borgaði vexti af lánum þess. Þetta var tekið út úr, því að það þótti ekki rétt að gefa heimild til slíks. En þetta voru leifar af áhrifum frá fyrri stj., þegar illa gekk og fyrirtæki voru ekki arðbær. Aðrar breytingar voru smávægilegar, nema ákvæði um opinber gjöld, þeim var breytt nokkuð, þannig að þau voru lækkuð. Þá var og gert ráð fyrir því, að stjórn fyrirtækisins væri kosin af Sþ., í stað þess að í upphafi var gert ráð fyrir því, að hún væri skipuð af ríkisstj. Aðrar breyt. voru ekki verulegar, og er óþarfi að vera að fjölyrða um það hér.

Ég óska þess svo, að þessu frv. verði vísað til hv. landbn. að þessari umr. lokinni.