10.05.1949
Efri deild: 102. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

16. mál, áburðarverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Frv. þessu var breytt lítils háttar við síðustu umr. í Nd., og var það við 13. gr. Ekki tel ég þetta vera efnisbreyt., en hins vegar nokkra breyt. á formi og orðalagi, sem d. féllst á, að betur færi en eins og það var. — 1. breyt. var sú, að í stað þess að heimilað yrði að leggja í verksmiðjuna óafturkræft fé úr rekstrarsjóði Áburðareinkasölu ríkisins, skyldi þetta vera hlutafé. Að vísu var þetta hugsað þannig og rætt þannig í umr., en samkv. brtt. er það nú ákveðið, að svo skuli vera. — Þá var einnig lagt til í b-lið, að í sömu gr. skuli tekið fram, að áður en greiddir séu vextir af hlutafénu, skuli greiða allan rekstrarkostnað ársins og sjóðagjöld samkv. 10. gr. Má segja, að þetta sé skárra, en breytir engu. — Þá er það c-liðurinn. Í frv. stendur, í 4. málsgr. 13. gr., að hlutafé ríkisins skuli vera engum öðrum takmörkunum háð varðandi atkvæðisrétt. Hér er aftur á móti lagt til, að þetta orðist svo: „Að öðru leyti skulu á hluthafafundi, þrátt fyrir ákvæði hlutafélagalaganna, engar takmarkanir vera á atkvæðisrétti að því er hlutafé ríkisins snertir.“ Þetta er skýrara, en engin efnisbreyt.

Vildi ég að þessu athuguðu leggja til við hv. d., að hún sæi sér fært að samþ. frv. óbreytt eins og það liggur fyrir.