03.12.1948
Neðri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

8. mál, Landsbókasafn

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki misbjóða þolinmæði hæstv. forseta. Ég spurði í fyrsta lagi að því, hvaða breyt. þetta frv. gerði um það, hvernig yrði notkun þessa bókasafns í framtíðinni, í samanburði við það, sem það hefur verið notað til áður. Og ég vil undirstrika það, að ég hef raunverulega ekki fengið svör við þeim fyrirspurnum, sem ég beindi til hv. frsm. Ég sagði heldur ekki, að ég hefði ekki haft tíma til að lesa þau fylgiskjöl, sem fylgdu frv., heldur sagði ég, að ég hefði ekki haft tækifæri til að slá upp í þeim lögum, sem áður giltu um notkun safnsins. Þetta er allt annað, og mér þykir leitt, að ég skuli ekki geta gert mig skiljanlegan fyrir hv. frsm. n. í þessu máli. Ég veit annars ekki, hvort hann gerir það með vilja að svara út í hött fyrirspurnum, sem ég hef beint til hans, en enn þá hefur hann gert það. — Ég mun á milli umr. nota tækifærið, sem ég hef til þess að fletta upp í þessum lögum, en mun ekki elta ólar við þennan hv. þm. En það er ákaflega leiðinlegt að koma með fyrirspurnir og biðja um upplýsingar um þann mun, sem eftir þessu frv. á að verða á notkun þessa safns, miðað við það, sem áður var, og fá ekki svör nema út í hött af hálfu þessa hv. þm.