22.02.1949
Efri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

8. mál, Landsbókasafn

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Það má segja það sama um þetta frv., sem hér liggur fyrir, og það síðasta, sem rætt var hér. Frv. hefur haft mikinn og langan undirbúning.

þar sem þetta er annað þingið, sem frv. er rætt á, en það lá fyrir síðasta þingi, en þá entist ekki tími til þess að ganga frá því. Þar sem aths. hæstv. ríkisstj. við frv. eru mjög skýrar og ýtarlegar skýringar n. eru prentaðar í nál., sem varpa ljósi yfir málefnið, þá sé ég ekki ástæðu til þess að orðlengja mjög um frv. Menntmn. var sammála um að mæla með frv. Ég vil geta þess, að einn nm., hv. 1. þm. Reykv., var fjarstaddur, þegar frv. var til umr. í n., og hefur hann því óbundnar hendur um afstöðu sina til þess.

Ég vil aðeins minnast á það, að hér er sýnd viðleitni til að færa til samfelldrar lagasetningar hin ófullkomnu ákvæði, sem voru fyrir um þetta efni, þannig, að hér sé nokkurn veginn flokkað, hver séu aðalverkefni landsbókasafnsins. Þó má lengi deila um slíka flokkun. Lærðir menn hafa fjallað um þetta frv. og þeir orðið sammála um það, og má segja, að það sé málefninu mikill styrkur, þó að hitt sé leiðara, að í bréfi frá háskólaráði kveður nokkuð við annan tón, en þar er um að ræða aðstöðumun milli háskólabókasafnsins og landsbókasafnsins. Háskólaráðið sýnist ekki vilja sætta sig við frv., eins og það er lagt fyrir Alþ., en n. taldi ekki ástæðu til þess að fara út í þá sálma, heldur að miða við það, að hér eru ákveðin á fullkomnari hátt höfuðverkefni þessarar merkilegustu geymslu hinna veraldlegu gæða Íslendinga, frá kyni til kyns, sem er bókmenntavarðveizla Íslendinga. Þá má líka geta þess, að um leið og þessi höfuðverkefni eru sundurliðuð hér, er minnzt á það, hver skuli vera afstaða milli landsbókasafnsins og háskólabókasafnsins, og er miðað við samvinnu, þar sem hún á við. Það var áður dálítið laust í reipunum, hve mikinn mannafla skyldi hafa við safnið, og er hér ákveðið, samkv. 6. gr., að menntmrh. skuli skipa allt að 6 bókaverði að fengnum till. landsbókavarðar, en forseti Íslands skipar landsbókavörð. Um kjör þessara manna vísast til launal. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um frv., en vil endurtaka það, að menntmn. mælir með því, að það verði samþ.