22.02.1949
Efri deild: 64. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

8. mál, Landsbókasafn

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Dálítið vorkunnarmál er það fyrir menntmn., sem hafði frv. til umsagnar, að fyrst og fremst er þetta stjórnarfrumvarp og er því skráð á öðruvísi pappír og hvítari, en venjuleg frv. eru skráð á, og í annan stað hefur það gengið án nokkurs ágreinings gegnum hv. Nd. og er því þannig komið vel á veg. En vitaskuld er þetta þó engin sönnun fyrir því, að ekki megi neitt betur fara í frv. Til dæmis er það atriði, sem hæstv. dómsmrh. benti á og lýtur að vinnusparnaði á þessu sviði og keðju á milli beggja safnanna. Það er eitt meðal annars, sem mælir með því, að málið verði tekið fyrir aftur í menntmn. og athugaðar tillögur um það, sem betur mætti fara, t.d. það, sem hæstv. dómsmrh. hefur getið hér um. Ég er hæstv. forseta deildarinnar, sem líka er forseti menntmn., sammála um það, að málið verði að gefnu tilefni tekið fyrir til nýrrar athugunar og lögð meiri áherzla á það, að það fái rétta, heldur en fljóta afgreiðslu. Og þetta segi ég af því tilefni, sem hér hefur gefizt, og einnig af ósögðum ástæðum. Hitt læt ég mig litlu skipta, hvort sú athugun fer fram á meðan frestur verður á þessari umr. eða á milli 2. og 3. umr. málsins.