09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

8. mál, Landsbókasafn

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

Það er nú búið að ræða svo mikið þetta mál í hv. d., að ég vil sem fæstu þar við bæta af minni hálfu. En eins og menn muna, þótti vanta upplýsingar um atriði, sem spurt var um, en þau voru þess efnis, hvenær bókavörðum hafi verið fjölgað upp í þessa tölu, sem nú er, og hvernig vinnutíma bókavarða væri háttað. Það er þetta, sem óskað hefur verið upplýsinga um. Hefur n. aflað sér skýrslu hjá landsbókaverði, þar sem hann gefur þessar upplýsingar, og liggur hún hér fyrir. Landsbókavörður segir hér í skýrslu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Árið 1925 eru auk landsbókavarðar tveir bókaverðir og einn aðstoðarbókavörður, þ.e. alls þrír. 1931 er bætt við aðstoðarbókaverði, og er þá talan komin upp í fjóra. 1. júlí 1944 er bætt við aðstoðarbókaverði, og er þá talan komin upp í fimm. 1. janúar 1946 er bætt við aðstoðarbókaverði, og er þá talan komin upp í 6.

Í janúar 1946 var jafnframt ákveðið af menntmrn., að lestrarsalur skyldi opinn daglega frá kl. 10–10, eða fjórum stundum lengur en verið hafði.“

Þessa skýrslu sína gefur landsbókavörður 24. apríl s.l. — Svo er hér nokkuð langt mál í annarri skýrslu frá landsbókaverði, sem lýtur að vinnutíma bókavarða. Hún er ekki svo mjög löng, að til þess að sagt sé skýlaust frá því, sem hann þar lætur uppi, tel ég rétt að lesa hana upp. Er hún dags. 21. apríl 1949 og hljóðar svo:

„Samkvæmt tilmælum í símtali í dag skal eftirfarandi tekið fram í sambandi við landsbókasafnið. (Nú, ég sleppi hér fyrsta kaflanum, um tölu bókavarða, þar sem það er komið áður).

Vinnutími bókavarða er sex stundir daglega, þar í 1/2 stundar kaffihlé. Raunverulegur vinnutími sex bókavarða daglega verður því 51/2 stund x 6, eða 33 stundir. Til lestrarsalsgæzlu verður að hafa til staðar tvo menn samtímis; það verða 20 vinnustundir daglega. Útlánið er

opið tvo tíma á dag. Því fylgir bókfærsla og innheimtustörf, og verður að ætla útláninu minnst 4 tíma á dag. Viðtaka og skráning bóka er ærið starf einum manni og ekki unnt að ætla því minna, en fullan vinnutíma eins manns. Útkoman verður þá þessi: Lestrarsalsgæzla 20 stundir daglega,útlán 4 stundir og skráning 51/2 stund, eða samtals 291/2 stund daglega. Afgangs er þá til annarra starfa í safninu aðeins 31/2 stund daglega, auk vinnu landsbókavarðar, en hann annast allar bréfagerðir, margs konar vinnu í sambandi við öflun bóka o.s.frv.

Það væri auðvelt að rökstyðja þörf safnsins fyrir miklu meiri vinnu. Hér skal aðeins á það bent, að með nýsamþykktum lögum um skyldueintök eru lögð ný störf á landsbókasafnið, sem krefjast allmikillar vinnu.

Samkvæmt gestabók safnsins 1947 komu á því ári í lestrarsal kl. 10–12 að morgni alls 2.655 gestir, en kl. 8–10 að kvöldi 2.600. Ég hef ekki við höndina nákvæmar tölur um árið 1948, en þær munu ekki vera lægri. Í janúar og febrúar þ. á. voru morgungestir samtals 477, en kvöldgestir 310.

Virðingarfyllst

Finnur Sigmundsson.“

Þetta er sú fræðsla, sem landsbókavörður hefur látið í té.

Get ég svo látið við þetta sitja af minni hálfu, og mun með þessum skýrslum vera fullnægt þeim spurningum, sem bornar hafa verið hér fram.