25.04.1949
Efri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

134. mál, eignarnám lóða í Reykjavík

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. frsm. menntmn. er hér ekki mættur og er víst veikur, a.m.k. fór hann héðan af fundi síðast og bað um leyfi sökum veikinda. Ég er að vísu alveg óviðbúinn að hafa framsögu fyrir n., því að ég gerði ekki ráð fyrir því, en mér finnst þó ekki ástæða til að draga málið vegna veikinda frsm. og vil því sem formaður n. skýra afstöðu hennar.

Afstaða n. er í stuttu máli sú, eins og nál. á þskj. 546 ber með sér, að n. lítur svo á, að rétt sé að taka þessar lóðir, sem frv. fjallar um, eignarnámi.

Hv. 1. þm. Reykv. hefur fyrirvara um frv., og veit ég ekki, í hverju hann er fólginn, en það kom fyllilega fram í n., að hinir 4 nm. voru sammála um það að vilja láta taka þessar lóðir eignarnámi. Það er álitin rík nauðsyn að eignast þessar lóðir, sem eru í næsta nágrenni menntaskólans, en þær eru, eins og frv. ber með sér, nr. 2C og 4A við Amtmannsstíg, nr. 7 við Bókhlöðustíg og neðri hluti lóðarinnar nr. 14 við Þingholtsstræti. Aftur á móti er ágreiningur um það í n., hvort binda eigi þessa heimild við Menntaskólann í Reykjavík. Hv. 8. landsk. vill ekki, að heimildin sé bundin við menntaskólann, og hefur hann flutt brtt. á þskj. 549 um að fella þau orð niður, sem bindi heimildina við menntaskólann. Ég skal ekki segja, hvort hinir 3 nm. séu með því að báta byggja nýjan menntaskóla þar, sem skólinn er nú. Þó hefur það komið fram, að hv. frsm. n. áleit, að svo ætti að vera, en ég segi fyrir mig, að ég játa það fúslega, að ég tel mig ekki þess umkominn að segja um það, hvort svo skuli vera í framtíðinni eða ekki, en hvað sem því líður, þá er nú menntaskólinn þarna og verður mörg ár enn, og eftir fjárhagsástæðum okkar nú er það sýnt, að ekki verður byggður stór menntaskóli annars staðar fyrst um sinn. Það getur því vel verið, að skólanum sé nauðsyn á meira landrými, þó að ekki sé um verulegar byggingar að ræða. Og þar sem ég lít svo á aðstæður, tel ég sjálfsagt, að ríkið eignist þessar lóðir, sem allar eru við hjarta bæjarins, og er ég því meðmæltur, að þær verði keyptar eða teknar eignarnámi, og sé ekki ástæðu til þess að fella úr fyrirsögn frv. orðin „fyrir Menntaskólann í Reykjavík“ né heldur úr 1. gr. frv. sams konar orð. Mér finnst, að það geti ekki skaðað, þó að þau orð standi, því þó að menntaskólanum sé gefið undir fótinn, þá er það þó ekki algerlega ákveðið með því, hvar menntaskólinn skuli vera í framtíðinni, því að það er Alþingi það, sem veitir fé til byggingarinnar, sem hefur það í hendi sinni að ákveða, hvar menntaskólinn skuli vera.

Ég vil geta þess, að n. hefur leitað umsagnar og álits skipulagsstjóra ríkisins og Reykjavíkurbæjar, og eftir þeirra áliti er ekki talið heppilegt, að á þessum lóðum verði byggðar viðbótabyggingar við menntaskólann.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. N. leggur öll til, að frv. verði samþ., en þó hefur hv. 1. þm. Reykv. gert fyrirvara og hv. 8. landsk. gert brtt. við málið.