16.05.1949
Neðri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

134. mál, eignarnám lóða í Reykjavík

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér finnst afgreiðsla þessa máls hjá menntmn. mjög leiðinleg og fyrirhyggjulaus og hefði satt að segja átt von á, að mál sem þetta yrði tekið til nánari athugunar hjá hv. nefnd.

Við 1. umr. þessa máls minntist ég nokkrum orðum á, að það væri ástæða til þess, að Alþingi tæki ákvörðun um, hvað gera ætti við gamla menntaskólahúsið. Það er vitað mál, að frá skólans sjónarmiði er ekkert sem ýtir undir það að hafa hann áfram hér niðri í miðbænum. Þetta er tilfinningamál gamalla stúdenta og kom sérstaklega skýrt fram í sambandi við 100 ára afmæli skólans, og þessari stefnu, að hafa húsið áfram sem skólahús eða sem klúbbhús stúdenta eða því um líkt hefur skapazt mikið fylgi. Úr því að þarna er ekki um skólasjónarmið að ræða, þá er önnur stofnun, sem á meiri rétt á þessu húsi, og það er Alþingi. Þarna kom Alþingi saman fyrir 104 árum og áður en húsið var tekið í notkun sem skólahús. Við menntaskólahúsið eru tengdar margar endurminningar úr frelsisbaráttu þjóðarinnar. Þar fór þjóðfundurinn fram, og þar starfaði Jón Sigurðsson. Ég álít því, að Alþingi eigi að taka þetta hús til sinna nota, þegar það verður ekki notað lengur sem menntaskóli. Nú væri ekkert í veginum með þetta, ef ekki væri búið að taka þá ákvörðun að byggja þarna menntaskóla. Þess vegna er það, að ákvæðið í 1. gr. frv.: „vegna bygginga fyrir Menntaskólann í Reykjavík“, hefur enga þýðingu nema þá, að það kemur í veg fyrir, að Alþingi fái húsið. Ef þetta væri fellt niður, stæði opin leið hvort heldur til þess að hafa þarna menntaskóla, ef það yrði talið heppilegt, eða til þess að Alþingi fái húsið. Það nær því engri átt að hafa þessi ákvæði þarna, enda hafa engin rök verið færð fyrir því að hafa þau, heldur hefur málið verið sótt af hinu mesta offorsi og skammsýni. Ég tel því, að Alþingi ætti að samþykkja brtt. hv. 6. þm. Reykv. um að fella þessi orð: „vegna bygginga fyrir Menntaskólann í Reykjavík“, burt úr 1. gr. frv. Þá eru báðir möguleikarnir opnir til ráðstöfunar síðar í ró og næði.