04.05.1949
Efri deild: 96. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. að óþörfu. Eins og þm. er kunnugt hefur sjútvn. haft þetta mál til athugunar, en ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þess, heldur þríklofnað um málið. Við, sem skrifum undir nál. meiri hl., getum fallizt á, að frv. verði samþ. lítið eða ekkert breytt, þó að við teljum okkur hafa frjálsar hendur í sambandi við brtt., sem fram kunna að koma. Hins vegar var vonlaust verk að bræða saman þau þrjú sjónarmið, sem fram komu við meðferð málsins í n., vegna þess, hvað skoðanir manna voru ólíkar. Það atvikaðist þannig, að ég var með í að semja þetta frv. eins og það liggur hér fyrir. Hins vegar hafði áður verið samið frv. um þetta efni, en það mætti mikilli andstöðu, og var þá horfið að því að semja nýtt. Þeir, sem að þessu frv. unnu, hafa orðið sammála um þessa niðurstöðu, nema fulltrúi L.Í.Ú., sem hafði sérstöðu við afgreiðslu málsins og lagðist gegn nokkrum gr. frv. og taldi sig ekki geta samþ. það í heild. Af því að ég var við að semja frv., mun ég ekki leggja fram neinar brtt., en gæti hins vegar fallizt á smávægilegar breytingar til samkomulags. Hins vegar munu hinir meðnm. mínir, sem skrifa undir nál. meiri hl., ef til vil flytja einhverjar brtt., sem þeir þá gera grein fyrir. Form. n. hefur nokkuð aðrar skoðanir á þessu máli, og koma skoðanir hans fram í nál., sem hann gefur út, og mun ég ekki ræða það frekar á þessu stigi málsins. Sömuleiðis gefur hv. 6. landsk. líka út sérstakt nál., og á hann þar í sumum atriðum samleið með form. n., en þó er þar nokkur ágreiningur, sem olli því, að þeir gátu ekki átt samleið.

Það virðist svo, að útgerðarmenn hafi haft allmikinn áhuga á að koma upp aflatryggingasjóði, og hefur komið fram frv. á Alþ. um það efni, þó að ekki næði það lögfestingu. Þegar l. um dýrtíðarráðstafanir voru sett 1947, kom nokkur skriður á þetta mál, því að í 2. gr. l. var svo fyrir mælt, að hálfur eignaraukaskattur samkvæmt II. kafla þeirra laga skyldi renna í afla- og hlutatryggingasjóð fyrir bátaútveginn. Í sambandi við dýrtíðarráðstafanirnar í vetur komu fram eindregnar óskir um, að sjóðurinn yrði stofnaður sem fyrst, og varð að samkomulagi, að það skyldi gert þegar á þessu þingi. Samkv. því fól svo sjútvmrh. Fiskifélagi Íslands og Landssambandi ísl. útvegsmanna að semja frv. til l. um sjóðinn, en það frv. mætti mikilli andstöðu, eins og ég hef áður tekið fram. Þá var okkur, sem að þessu frv. höfum unnið, falið að semja frv., sem líklegt væri, að samkomulag gæti orðið um, og niðurstaða okkar varð svo frv. það, er hér liggur fyrir. Ég mun svo ekki segja fleira um málið á þessu stigi, því að væntanlega gefst tækifæri til frekari umræðna síðar.