05.05.1949
Efri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Jónsson) [Frh.]:

Ég þarf að svara nokkrum atriðum í ræðu hv. 1. landsk. Hann er nú ekki við, eins og svo oft áður, en ef til vill flytur einhver orð mín til hans. Annars ber hann sjálfur ábyrgðina á því. Hann sagði, að útgerðarmenn hefðu ekki vald til að taka hlut skipverja. Mér er ekki kunnugt um, í hvaða tilgangi þetta er sagt, því að eins og allir vita hafa skipverjar tryggingu samkvæmt samningi, en auk þess hafa þeir sjóveð í skipinu fyrir sínum hlut, svo að þessi ummæli þm. eru algerlega út í hött. Þá ræddi þessi þm. um það, að það væri ekki nema réttlátt, að þeir greiddu iðgjöldin, sem tryggðir væru. Mér skilst, að hv. frsm. líti svo á, að þessi sjóður eigi að vera trygging bæði fyrir útgerðarmenn og skipverja. Það er rétt, að útgerðarmaðurinn á að fá tryggingu úr sjóðnum, ef aflabrestur verður, en skipverjinn fær í raun og veru líka sína tryggingu. Enda þótt skipverjum sé nú tryggt lágmarkskaup, hvernig sem fiskast, þá er engin vissa fyrir greiðslu þess, ef ekkert fiskast. Hins vegar ætti að vera miklu meiri trygging fyrir greiðslu kaupsins, ef útgerðin fær bætur á aflaleysisárum. Það er því rangt hjá 1. landsk., að skipverjar séu ekkert tryggðir með þessum sjóði. Auk þess mun sjóðurinn með tíð og tíma eiga að geta orðið svo öflugur, að hægt verði að tryggja þeim, er þessa atvinnu stunda, betri kjör og meira öryggi. Hlutverk sjóðsins er því í raun og veru ekkert síður að tryggja skipverja en útgerðarmenn, og þess vegna tel ég till. 1. landsk. um að fría háseta við greiðslu til sjóðsins hreina fjarstæðu. Svo er það þriðji aðilinn, sem mesta trygginguna hefur í raun og veru, en það er almenningur í landinu, því að hann á bókstaflega allt undir því, að hægt sé að halda þessum atvinnuvegi gangandi og á sæmilega réttum kili. Þess vegna tel ég enga goðgá, þó að lagt sé til, að innflytjendurnir, sem árlega fá á annað hundrað milljónir í gjaldeyri frá útveginum, verði að taka á sig einhverjar byrðar í þessu sambandi. Það er enn fremur verið að tryggja hag ríkissjóðs með þessum ráðstöfunum og þess vegna ekki óeðlilegt, þó að hann verði að greiða ríflegt framlag til sjóðsins. Hitt má deila um, hvort heppilegt er að leggja á aukinn söluskatt í þessu skyni. Hv. 1. landsk. sagði, að hér væri ekki verið að tryggja launþegana. Ég álít þetta algerlega rangt hjá þessum hv. þm. Launþegunum er skapað aukið öryggi með þessu frv., ef að l. verður, og þá sérstaklega launþegum, sem eru upp á aflahlut, eins og sjómenn eru að jafnaði. Þá lagði hv. þm. til, að frv. væri vísað frá vegna þess, að það væri ekki nægilega undirbúið. Þessi rök eru ekki annað en grímuklædd andúð á frv. Í fyrsta lagi hefur verið gerður rammi um þetta mál með l. Í öðru lagi hafa landssamtök þessa atvinnuvegar undirbúið frv. Í þriðja lagi hefur milliþn. undirbúið frv., en í henni eiga sæti 1 eða 2 lögfræðingar og tveir alþingismenn. Auk þess hefur svo rn. haft málið til athugunar, og að síðustu hefur málið svo verið rætt í þingnefnd, en samt ætlar 1. landsk. að vísa málinu frá vegna þess, að það vanti undirbúning, slíkt nær auðvitað engri átt. Hitt er rétt, að nokkur ágreiningur hefur orðið um leiðir, en flestir munu þó á einu máli um, að sjóðinn skuli stofna, og þá ættu að vera til einhverjar leiðir, sem samkomulag gæti náðst um. — Hv. 1. landsk. sagði, að sjóðurinn gæti orðið 16 millj. á 5 árum. Ég lít á þetta atriði sem meðmæli með málinu, því að ef sjóðurinn hefði verið stofnaður fyrir 5 árum, þá væri hann orðinn 16 millj. eftir fyrirmælum frv., og ætli það væri ekki skemmtilegra, ef til hefði verið sjóður á þessum aflaleysisárum, sem hefði getað staðið undir hallanum? Ég held því, að þetta séu nægilegar upplýsingar, til að menn ættu ekki að vera að skjóta þessu máli á frest eins og 1. landsk. vill gera. Ég held, að ég hafi svarað öllum meginatriðum í ræðu 1. landsk., sem öll gekk út á það, að tryggja ætti launþegana á kostnað útvegsins, án þess að hafa nokkra hliðsjón af því, hvort útgerðin gæti staðið undir þeim byrðum, sem á hana væru lagðar. Það er því líkt og maðurinn, sem drap fiskinn, án þess að sjá borð fyrir báru, og hlóð, unz allt var komið í kaf. Ég geri ráð fyrir, að 1. landsk. verði ekki svo lengi á þingi, að hann berjist ekki fyrir þá stétt, sem hann er fulltrúi fyrir, og er ekki nema gott um það að segja, ef sú barátta væri ekki oft of einhliða, því að þá vil] svo fara, að hún verði þeim til tjóns, sem hún átti að greiða fyrir.