09.05.1950
Sameinað þing: 46. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1564 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

Varamaður tekur þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Forseti (JPálm):

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf frá hæstv. forseta Nd., Sigurði Bjarnasyni:

„Mér hefur í dag borizt svo hljóðandi bréf frá Gunnari Thoroddsen, 7. þm. Reykv.:

„Með því að ég er á förum til útlanda á vegum bæjarstjórnar Reykjavíkur og verð fjarverandi næstu tvær vikur, leyfi ég mér, með skírskotun til 144. gr. laga nr. 80 1942, um kosningar til Alþingis, að óska þess, að varamaður minn, Ólafur Björnsson prófessor, taki sæti mitt á Alþingi meðan ég verð fjarvistum.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt, með ósk um, að þér boðið sem skjótast til fundar í sameinuðu þingi til þess að rannsaka og bera upp til samþykktar kjörbréf varamanns.“