04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

38. mál, fjárlög 1950

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að till. okkar hv. 1. landsk. á þskj. 633. Hún er borin fram í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar Vestmannaeyja 17. marz s.l. Sú samþ. var svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn Vestmannaeyja skorar á Alþingi og ríkisstjórn að veita ríflegan styrk til hafnarframkvæmda í Vestmannaeyjum á þessu ári og bendir í því sambandi sérstaklega á nauðsyn þess að dýpka innsiglingu hafnarinnar, þar eð dýpið er þar að verða minna en innar í höfninni sjálfri.“

Dýpkun innsiglingarinnar í Vestmannaeyjahöfn er aðkallandi nauðsyn. Veldur því m.a., að nokkuð hefur grynnkað þarna síðan seinast var grafið, en þó fyrst og fremst hitt, að stærri skip, eins og hin nýju skip Eimskipafélagsins, eru farin að koma inn á höfnina til að taka útflutningsvörur. Hingað til hefur þetta gengið slysalaust. En það er ekki víst, að svo reynist framvegis, því að þarna er teflt á tæpasta vað. Kunnugir fullyrða, að málum þessum verði ekki komið í það horf, sem þolanlegt má kallast, nema styrkur á þessum fjárlögum til hafnarframkvæmdanna af opinberri hálfu nemi um 300 þús. kr. Þessar 280 þús. kr., sem farið er fram á til endurbóta á höfninni í þessari till., eru því aðeins lágmarksupphæð.

Hv. alþm. er vafalaust ljóst, að hér er um að ræða eina allra þýðingarmestu höfn landsins, og nauðsyn ber til, að skip af öllum stærðum eigi þar greiða leið um, án þess að þeim sé stofnað í hættu. Leyfi ég mér því að vænta þess, að þeir veiti þessu máli stuðning.