10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

38. mál, fjárlög 1950

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég mun fyrst reyna að varpa nokkru ljósi á baksvið viðburða síðustu tíma til þess að skýra stjórnmálaástandið, stjórnarstefnuna og stjórnarhættina, sem nú ríkja í landinu.

Þar er fyrst til máls að taka, er sýnilegt var vorið 1949, að nokkur órói hafði skapazt innan Framsfl. út af stjórnarsamstarfinu, er þá var. Greinilegt var, að það voru öfl innan forustuliðs flokksins, en utan ríkisstj., sem ollu óværð þessari, er smátt og smátt færðist í aukana. Það var forustulið flokksins utan stjórnarinnar og blað framsóknarmanna, sem lagði til atlögu. Helztu ástæðurnar, sem fram voru færðar til gagnrýni á stjórnarsamstarfinu, voru viðskiptamálin, og þá einnig það, að ráðstafanir þyrfti að gera í ríkara mæli gegn dýrtíðinni í landinu. Það færðist óðum í vöxt, að blöð Framsfl. og málflytjendur hans á fundum réðust að ráðherrum Alþfl., ekki sízt Emil Jónssyni, þáverandi viðskmrh., fyrir ástandið í viðskiptamálunum.

Öllum, sem til þekktu, var þó ljóst, að viðskiptamálin heyrðu undir alla ríkisstj., og hafði viðskmrh. því óeðlilega lítil völd. Var það löngum krafa okkar Alþýðuflokksmanna, að þessu yrði breytt þannig, eins og siður er um verkaskiptingu ríkisstjórna, að viðskmrh. réði sjálfur sínu eigin ráðuneyti, og bæri þá um leið að beina gegn honum þeim aðfinnslum, er menn teldu sig hafa fram að bera á þeim vettvangi. En óeðlilegt var með öllu, að ríkisstj. sem heild hefði mál þessi með höndum, en sakargiftum um meðferð þeirra hins vegar beint gegn viðskmrh. einum. Hefur Alþfl. nú flutt tillögu til leiðréttingar á þessu ófæra skipulagi og fengið hana samþ. í neðri deild, hver sem verða lokaafdrifin.

Samtímis því, sem óróinn af hálfu Framsfl. gerðist magnaðri, urðu háværari og háværari þær raddir innan borgaraflokkanna tveggja, Sjálfstfl. og Framsfl., að eina leiðin út úr ógöngunum í dýrtíðarmálunum væri að lækka gengi íslenzkrar krónu. Þó var því alltaf haldið fram af hálfu Framsfl., að áður en til slíks kæmi, þyrfti að gera margar og samfelldar ráðstafanir til endurbóta í húsnæðismálum, að útrýma með löggjöf og framkvæmd svartamarkaðsbraski og gerbreyta til batnaðar skattalöggjöfinni. Kom þetta skýrt og greinilega fram í skjali því, sem ráðherrar Framsfl. lögðu fram í ríkisstjórninni 2. júní 1949. Þar er í fyrsta lagi tekið fram, að taka þurfi upp nýja stefnu í verzlunarmálum og tryggja neytendum og framleiðendum sem mest frjálsræði til að velja milli verzlana og koma í veg fyrir svartan markað. Þá var og í þessu sama skjali talað um nauðsyn þess, að húsnæðismálunum yrði komið í betra horf, og væru þær ráðstafanir í því fólgnar að koma á stóríbúðaskatti, er rynni til þess að veita ódýr lán til samvinnubygginga og byggingar verkamannabústaða, og einnig að lögbjóða þyrfti lækkun húsaleigu. Þá var og fram tekið, að gera þyrfti framkvæmd skattalaganna öruggari og einfaldari og herða á eftirliti með skattaframtölum. Bæta þyrfti um verðlagseftirlitið með ýmsum ráðstöfunum. Í framhaldi af þessum ráðstöfunum, eins og það var orðað í þessu skjali, lagði Framsfl. til, að sett yrði löggjöf um allsherjar niðurfærslu eða gengislækkun, miðað við að framleiðslunni yrði komið á rekstrarhæfan grundvöll.

Ráðherrar Alþfl. lýstu strax yfir því, að þeir teldu rétt og eðlilegt að gera ýmsar þær ráðstafanir, sem á væri bent og leiða ættu til þeirrar niðurstöðu að gera verzlunina frjálsari, bæta úr húsnæðisvandræðunum og stemma stigu við svartamarkaðsbraski og öðru slíku, er helzt væri áfátt í þjóðfélaginu. Hins vegar lýsti Alþfl. yfir því, að hann væri eins og áður andvígur gengislækkun. Sjálfstfl. tvísteig nokkuð í öllum þessum málum, en auðheyrt var á öllu, að gengislækkunarhugmyndin átti fulls byrs að vænta í þeim herbúðum.

Þegar ekki náðist samkomulag innan stjórnarflokkanna um þessi málefni, var ákveðið — einkum af þeim mönnum innan Framsfl., er óróanum ollu — að ráðherrar þeirra skyldu hverfa úr stjórninni. Leiddi þetta til þeirrar niðurstöðu, sem alkunn er, að Alþingi var rofið og efnt til nýrra kosninga.

Flokkarnir þrír, sem stóðu saman um ríkisstj., gengu síðan til kosninga, hver með sína stefnuskrá. Það málið, sem oft var mjög rætt í kosningunum, ekki sízt af hálfu Alþfl., var gengislækkunarmálið. Lýsti Alþfl. yfir í kosningaávarpi sínu því, sem hér fer á eftir:

„Alþýðuflokkurinn er því andvígur tillögum andstæðinganna um almenna gengislækkun (lækkun íslenzkrar krónu gagnvart sterlingspundi), ekki sízt fyrir þá sök, að þær eru bundnar við verulega kjararýrnun almennings og þvingun í garð launastéttanna. Engin þau úrræði í þessum efnum, sem samtök launamanna, Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, beita sér gegn, munu leiða til varanlegra endurbóta á vandamálum atvinnulífsins, og telur flokkurinn því, að málið verði ekki leyst nema í náinni samvinnu við þau.“

Að öðru leyti hélt Alþfl. í kosningunum fram stefnu sinni í dægurmálunum, og mátti segja, að á margan hátt gætu leiðir legið saman með hinum flokkunum, og þá ekki sízt Framsfl. í viðskipta-, verzlunar- og húsnæðismálum.

Stefna Framsfl. í kosningunum var í höfuðatriðum sú, er ég hef áður lýst hér að framan og kom fram í skjali því, er ráðherrar flokksins lögðu fram í ríkisstj. Taldi Framsfl. sig þá skeleggasta andstæðing Sjálfstfl. og harðastan óvin alls íhalds og fjárplógsstarfsemi. Sjálfstfl. stagaðist í kosningunum mest á styrkjalausum atvinnurekstri og frjálsri verzlun. Var auðheyrt á öllu, að hann vildi stefna að gengislækkun og minni afskiptum almannavaldsins af fjárhags- og atvinnumálum þjóðarinnar, — allt með það fyrir augum, að atvinnurekendur og kaupsýslumenn hefðu sem frjálsastar hendur til að safna auði, eftir því sem ástæður frekast leyfðu, enda var það í samræmi við eðli flokksins og stefnu yfirleitt.

Kosningunum lauk svo, að Framsfl. varð aðalsigurvegarinn. Ríkisstj. sú, sem ég veiti forstöðu, baðst lausnar 2. nóv. 1949, og um leið , lýsti ég yfir því í viðtali við Alþýðublaðið, að ég teldi sjálfsagt, að stj. bæðist lausnar, og að kosningarnar væru skref til hægri í íslenzkum stjórnmálum.

Voru þingmenn og miðstjórn Alþfl. einnig sammála um það, að sökum úrslita kosninganna og ólíkra sjónarmiða, er hinir borgaralegu lýðræðisflokkar annars vegar og Alþfl. hins vegar hefðu barizt fyrir í kosningunum varðandi dýrtíðarvandamálið, þá væri rökrétt afleiðing, að Alþfl. ýrði hlédrægur í sambandi við stjórnarmyndun.

Út af þessari afstöðu Alþfl., sem hann einnig sýndi í framkvæmd í sambandi við allt stjórnarmyndunarbraskið, er á eftir fór, kom upp sú einstæðasta kenning, sem ég man eftir að hafa heyrt í stjórnmálum. Báðir borgaraflokkarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., lýstu yfir því hvor í kapp við annan, að Alþfl. ætlaði að draga sig í hlé í stjórnmálum! Er það ein hin frumlegasta kenning, sem ég minnist að hafa heyrt, að ef flokkur eftir kosningaúrslit telur rétt að draga sig í hlé frá landsstjórn, þá hafi hann þar með horfið frá stjórnmálum. Ef þessi kenning er rétt, þá hefði danski Alþýðuflokkurinn átt að draga sig út úr stjórnmálum haustið 1945, er hann tapaði talsverðu fylgi í kosningunum, en Vinstri flokkurinn, sem er íhaldssamur bændaflokkur, vann á. En eftir þær kosningar lýsti danski Alþýðuflokkurinn yfir því, að það væri bæði skylt og rétt, að Vinstri flokkurinn sæi nú um stjórn landsins. Varð það og svo, að danski Alþýðuflokkurinn var f stjórnarandstöðu í tvö ár. Þá fóru fram nýjar kosningar, og unnu jafnaðarmenn sigur á ný og gengu til stjórnarmyndunar.

Mundi það þykja án efa furðuleg kenning víðar um lýðræðislönd en hér, að stjórnmálaflokkar ættu ekki að hlíta úrslitum kosninga á þingræðislegan hátt.

Eftir að Alþingi kom saman, varð það að sjálfsögðu eitt af fyrstu viðfangsefnunum að koma á fót nýrri stjórn. Gekk það í allmiklu þófi lengi vel, og þótt undarlegt mætti virðast, reyndist borgaraflokkunum ókleift að mynda stjórn saman, — en meira olli því metnaður en málefni, eins og greinilega kom á daginn síðar.

Ólafur Thors myndaði þá minnihlutastjórn Sjálfstfl., en Hermann Jónasson missti af strætisvagninum í það sinn. Fljótlega eftir þessa stjórnarmyndun hófst sorglegur skopleikur. Voru Framsfl. og Sjálfstfl. þar aðalleikendur, og mátti nefna þann leik: Haltu mér, slepptu mér. Hámarki náði hin dramatíska stigandi leiksins með flutningi vantrauststillögu framsóknarmanna á stjórn Sjálfstfl. og samþykkt hennar. Á eftir féll leikurinn niður um stund í ládeyðu með smástormsveipum. En hann endaði eins og úrvals eldhússreyfari. Þeir, sem áður voru afbrýðissamir hvor við annan og áttu í hörðum deilum, fluttu saman og stofnuðu nýtt kærleiksheimili. Það var mynduð stjórn sú, sem nú situr að völdum, — stjórn Framsfl. og Sjálfstfl., — til þess að framkvæma óskadraum beggja flokkanna: gengislækkun.

Eins og ég drap á áður, þá lá í loftinu. að gengislækkunarleiðin mundi verða farin, þótt hvorugur borgaraflokkanna vildi opinberlega og skýrt játa það. Þó vissu allir, sem til stjórnmálanna þekktu, að þeir mundu fallast í faðma um þessa lausn. Í þessu sambandi og út af andstöðu Alþfl. gegn gengislækkun þykir mér rétt að drepa aðeins á það, að stjórnarflokkarnir hafa hvað eftir annað haldið því fram, að ekki væri andstaða Alþfl. gegn gengislækkun mjög í samræmi við fyrri afstöðu, þar sem Alþfl. hefði staðið að gengislækkuninni, sem gerð var síðastl. sumar. Í þessari kenningu og þessum áróðri er mikil blekking fólgin. Bretar, Norðurlandaþjóðirnar og allflestar Vestur-Evrópuþjóðir lækkuðu gengi sitt s.l. sumar gagnvart dollar. Ef íslenzka krónan hefði verið látin óbreytt. táknaði það hækkað gengi krónunnar gagnvart sterlingspundi og myntum allflestra Vestur- Evrópuþjóða, en við þau ríki hafði Ísland meginhluta viðskipta sinna og flutti þangað mestan hluta framleiðslu sinnar til sölu. Íslendingar gerðu þá ekki annað en það að láta vera að hækka gengi gjaldeyris síns gagnvart sterlingspundi. Sjá allir, hversu gerólikt það er gengislækkun þeirri, sem nú hefur verið framkvæmd fyrir mánuði síðan.

Ríkisstj. Ólafs Thors hóf strax undirbúning að frv. um gengislækkun. Og eigi leið á löngu áður en það frv. leit dagsins ljós á Alþingi. Taldi stjórn Ólafs Thors sig nú hafa fundið stein vizkunnar og þann Aladdínslampa, er lýsa mundi örðugan veg íslenzku þjóðarinnar áleiðis til fyrirheitna landsins. Og eftir að þetta frv. var fram komið, stóð ekki á stóru fyrirsögnunum í Morgunblaðinu um ágæti gengislækkunarinnar. Hinn 26. febr. s.l. voru þessar fyrirsagnir með stóru letri í Morgunblaðinu um gengislækkunarfrv.: „Sköpun atvinnuöryggis og stöðvun hallarekstrar framleiðslunnar. Kauphækkanir ekki bannaðar. Launafólki tryggðar verðlagsuppbætur. Reynt að leysa vanda þjóðarinnar á réttlátan hátt og skapa heilbrigt efnahagsástand. Útrýming atvinnuleysis og lausn efnahagsvandræðanna.“ Í meginmáli í þessu blaði segir svo: „Er þá fyrst að benda á, að megintilgangur frv. er að stöðva það atvinnuleysi, sem nú er að hefjast og án alls efa mun fara ört vaxandi, verði ekki að gert. Frá þessu höfuðsjónarmiði er frv. launastéttum landsins mikill fengur, ef að lögum verður. En þar við bætist svo, að með ákvæðum þess eru launþegum beinlínis tryggðar fullar kaupuppbætur eftir framfærsluvísitölunni.“

Í forustugrein í Morgunblaðinu 1. marz segir svo um gengislækkunarlögin: „Fyrstu þrjá mánuði eftir að lögin ganga í gildi fá launþegar þá hækkun framfærslukostnaðar, sem sprettur af gengisbreytingunni, fullkomlega bætta. Á sömu leið fer að loknum sex mánuðum .... jafnhliða hefur það gerzt, að rekstur atvinnufyrirtækjanna hefur komizt á heilbrigðan grundvöll og þau rekin án stórfelldra ríkisstyrkja. Hagsmunir launþega eru því í engu skertir, nema miklu síður sé .... Launþegar þurfa því ekkert að óttast.“ Og í ræðu, sem Bjarni Benediktsson, hæstv. utanrrh., hélt við vantraustsumræðuna 1. marz s.l., sagði hann: „Fjöregg fjármálalífs þjóðarinnar er fólgið í dýrtíðarfrv. stjórnarinnar .... Sjálfstæðisflokkurinn álítur óhjákvæmilegt að freista þess, að reyna í lengstu lög að semja um framkvæmd hins mikla máls.“

Þegar gengislækkunarfrv. kom til 1. umr., en það var áður en núverandi ríkisstj. var mynduð, þá mátti enn þá merkja í ræðum framsóknarmanna nokkurn svip af þeim kröfum, er þeir áður höfðu haldið uppi, um að aðrar ráðstafanir yrði að gera áður eða samtímis því að gengislækkunin væri framkvæmd. Hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, sagði við 1. umr. gengislækkunarfrv., eftir því sem Tíminn skýrir frá 28. febr.: „Það verða menn hins vegar að gera sér ljóst, að gengislækkunin ein getur ekki leyst vandann og kemur ekki að notum, nema hún sé aðeins þáttur í margþættum ráðstöfunum ... Gengislækkun er þannig aðeins hlekkur í keðju og verður ekki rétt skoðuð eða metin án þess, að litið sé á hina hlekkina. Ef gengislækkun á að takast, verður hún að vera liður í vel hugsaðri stjórnarstefnu, sem fylgt er í löggjöf og framkvæmdum .... Það er nauðsynlegt jafnhliða gengislækkuninni að tryggja réttláta vörudreifingu og koma verzluninni á réttlátari og heilbrigðari grundvöll, en hún byggist nú á. Því þarf m.a. í sambandi við þetta frv. að gera ráðstafanir til lækkunar á húsaleigu og til þess að tryggja aukið fjármagn til byggingarframkvæmda í þágu almennings, það þarf að gera átak til þess að láta hentugar íbúðir sitja fyrir um efni og fjármagn .... Það er sjálfsagt réttlætismál, að þeir, sem mestan hafa gróða af verðþenslunni, leggi fram fjármagn til viðréttingarinnar. Í frv. eru sérstök ákvæði um stóreignaskatt. Að dómi Framsfl. eru þau ófullnægjandi.“

Í ritstjórnargrein í Tímanum 1. marz segir svo: „Eysteinn Jónsson minntist á nokkrar þeirra ráðstafana, sem þyrfti að gera samhliða gengislækkuninni.... Slík ákvæði yrðu að ákveða í sjálfu gengislækkunarfrv.“

Hermann Jónasson, hæstv. landbrh., sagði á framsöguræðu sinni við vantraustið, er hann flutti á þáverandi ríkisstjórn Sjálfstfl., hinn 1. marz s.l.: „Framsfl. benti á fyrir kosningarnar, að vegna verðbólgunnar væri ekki nema um tvær höfuðleiðir að velja: að lækka gengið eða færa niður verðlag og laun. Áður eða samtímis yrði Alþingi að gera ráðstafanir til þess að tryggja heilbrigða verzlun, að lækka okurhúsaleigu og útrýma svörtum markaði og vöruokri, að leggja á stóreignaskatt .... en í frv. (þ.e. gengislækkunarfrv.) er þó ekki gert ráð fyrir neinum aðgerðum til þess að gera verzlunarhættina heilbrigðari, ekkert til þess að útrýma svartamarkaði eða vöruokri, ekkert til þess að koma í veg fyrir okurhúsaleigu, ekkert til þess að framleiðendur geti fengið ódýrari rekstrarvörur, og eignarskatturinn er ekki fullnægjandi. Af þessum ástæðum hefur Framsfl. einatt gert það að skilyrði fyrir fylgi sínu við gengislækkunina, að margnefndar hliðarráðstafanir væru gerðar samtímis. Ríkisstj., sem slitur gengislækkunina úr samhengi, er alls ekki fær um að hafa forustu þessa máls.... aðalatriðið er, að nú þegar verður að koma á ríkisstjórn, sem hefur forustu um það að leysa dýrtíðarvandamálið á breiðum grundvelli og réttlátari fyrir alþýðu manna.“

Jú, jú, það vantaði ekki yfirlýsingarnar af hálfu forustumanna Framsfl. um mánaðamótin febrúar og marz s.l., þegar verið var að koma minnihlutastjórn Sjálfstfl. frá völdum með það fyrir augum að mynda með honum nýja stjórn til þess að framkvæma gengislækkunina.

Nú skyldi maður ætla, að þegar núverandi hæstv. ríkisstj. tók við undir forsæti hæstv. forsrh., Steingríms Steinþórssonar, og með tvo höfuðforustumenn Framsfl. í ríkisstj., hefði nú verið mótuð ný stjórnarstefna, og eins og hæstv. landbrh. sagði og ég hef áður í vitnað, að ríkisstj. yrði að hafa forustu um það að leysa dýrtíðarmálin á breiðum grundvelli og réttlátlega fyrir alþýðu manna.

En ég held, að það hefði verið rétt fyrir Framsfl. að „strika yfir stóru orðin og standa við þau minni reyna.“ Hann hefur staðið við fátt af stóru orðunum. Að því verður nú vikið hér nokkuð á eftir.

Áður en ég vík svo nokkru nánar að stjórnarstefnunni, vildi ég með nokkrum orðum minnast á afstöðu Alþfl. gegn gengislækkunarfrv. Og þeim tilraunum, sem hann gerði til þess að sníða af frv. verstu agnúana.

Þess er þá í fyrsta lagi að geta, að síðustu þing Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins lýstu sig andvíg gengislækkun, og Alþfl. lýsti einnig yfir því við síðustu kosningar, eins og ég hef áður rakið. Ástæðan var raunverulega ekki sú, að Alþfl. hlyti ávallt og undir öllum aðstæðum að telja gengisbreytingu andstæða hagsmunum alþýðunnar. Hann fylgdi gengisbreytingunni 1939, þar sem hann taldi hana nauðsynlega og vegna þess að þá voru samhliða henni gerðar raunhæfar ráðstafanir til þess að sporna við dýrtíð og til þess að bæta hag þeirra, sem lægst væru launaðir, enda var sú gengislækkun gerð í samráði við stjórn Alþýðusambandsins. Ef gengislækkunin hefði átt að vera réttlætanleg frá sjónarmiði Alþfl., eins og ástandið hefur verið undanfarinn áratug og er nú, hefði þurft að gera svo róttækar breytingar á efnahags- og fjármálalífi þjóðarinnar, að litlar eða engar líkur eru til þess, að um það hefði náðst samkomulag á Alþingi, eins og það er nú skipað. Og Alþfl. taldi það ekki heldur sína sök, að ekki hafði verið unnt að feta með jafngóðum árangri og hann hefði kosið þá stöðvunarleið, sem hann stóð fyrir að farin var um skeið. Það var sök andstæðinga hans, að ekki tókst betur til og að sú leið varð eigi að fullu gengin.

En til þess að gengislækkunin hefði verið réttlætanleg undir þeim aðstæðum, sem nú ríkja, hefði þurft að breyta skipulagsháttum á útgerð landsmanna, ekki hvað sízt bátaútgerðinni og á ýmsum fiskiðnaði, svo og rekstri hraðfrystihúsanna. Það hefði þurft að gerbreyta skipulagi innflutningsverzlunarinnar og taka fyrir það ástand, að hún væri jafnmikil og óeðlileg gróðalind og raun ber vitni. Það hefði þurft róttækar ráðstafanir til þess að leysa húsnæðisvandamálin og gerbreyta skattakerfinu, tryggja rétt framtöl og koma í veg fyrir, að óeðlilegur skattþungi lenti á herðum launamanna, auk þess sem hækka hefði þurft persónufrádrátt láglaunamanna verulega.

Það er því allt í senn, að Alþfl. og alþýðusamtökin höfðu áður á þingum sínum markað andstöðu gegn gengislækkun og að það var ekki sök Alþfl., hvernig komið var í fjárhags- og atvinnumálum þjóðarinnar, og loks, að ekki var Alþingi þannig skipað, að mögulegt væri að koma fram þeim ráðstöfunum, sem nauðsynlega hefði þurft að gera, ef grípa hefði átt til gengislækkunar. Af öllum þessum ástæðum lagðist Alþfl. gegn gengislækkunarfrv. ríkisstj., en reyndi samtímis, eins og ég sagði áður, að sníða af því mestu vankantana. En það tókst ekki. Fulltrúar Alþfl. fluttu þær brtt. við frv., sem ráðstefna Alþýðusambandsins hafði beitt sér fyrir, enda höfðu þingmenn Alþfl. við afgreiðslu þessa máls nána samvinnu við alþýðusamtökin og voru þeim sammála um höfuðatriði málsins.

Þingmenn Alþfl. fluttu í báðum þingdeildum brtt. við gengislækkunarfrv. um að leiðrétta frá því, sem var í frv., uppbætur þær, er veittar yrðu launamönnum, og að reikna út vísitölu með öðru réttlátara móti og mánaðarlega og greiða síðan launauppbætur samkvæmt því. Hann flutti brtt. um að hækka verulega stóreignaskattinn. Þá flutti hann og tillögur um það að auka framlag til byggingar verkamannabústaða í sambandi við frv. og einnig að hækka persónufrádrátt til skatts frá því, sem nú er, hjá þeim, sem lægst eru launaðir, en auk þess margar aðrar tillögur. Ekkert af þessu náði fram að ganga. Hinir nýju samstarfsflokkar um ríkisstjórn, Framsfl. og Sjálfstfl., stóðu eins og múrveggur í kringum málefni það, sem þeir höfðu komið sér saman um og vildu ekkert gera til þess að lagfæra. Var það þó í litlu samræmi við það, sem hæstv. forsrh. lýsti yfir, er ríkisstj. tók við völdum 14. marz s.l., en hann sagði, að ríkisstj. væri staðráðin í því að gera það, sem í hennar valdi stæði, til þess að þær byrðar, sem almenningur þyrfti að taka á sig vegna lækkunar hins skráða gengis krónunnar, kæmu sem léttast niður, og í því sambandi að hafa samráð við stéttasamtök almennings vegna þeirra. Ekkert tillit var tekið til óska alþýðusamtakanna í þessum málum, og reyndist yfirlýsing hæstv. forsrh. um þetta efni koma að litlu haldi.

Nú skildu menn ætla, að samið hefði verið þannig milli núverandi stjórnarflokka, fyrir atbeina Framsfl., að verulegar breytingar á gengislækkunarfrv. hefðu verið gerðar, frá því það var lagt fram af minnihlutastjórn Sjálfstfl., og að eigi yrði ákvæði lögfest um gengislækkun, nema stórfelldar hliðarráðstafanir fylgdu, og það jafnvel í gengislögunum sjálfum. En sú varð alls ekki raunin á. Að vísu var frv. breytt, en þó lítið eitt. Höfuðbreytingin, sem gerð var á því, var um stóreignaskattinn, enda hefði mátt gera ráð fyrir, að Framsfl. hefði komið því til leiðar, að lagðar yrðu þyngri byrðar á breiðu bökin. En eigi reyndist það heldur rétt.

Þær breytingar, sem gerðar voru á skattálagningunni, hafa í för með sér, eftir því sem skattfróðir menn hafa skýrt mér frá, að tekjur af stóreignaskatti verða minni eftir breytinguna, en upprunalega var í frv. sjálfstæðismanna, ekki sízt þegar þess er gætt, að felldur var niður eignaraukaskattur, sem talið var að gæfi ríkissjóði verulega fjárhæð.

Með samvinnu stjórnarflokkanna núverandi voru sannarlega ekki lagðar þyngri byrðar á breiðu bökin. Að öðru leyti voru gerðar heldur lítilfjörlegar breyt. á frv., en eins og ég sagði áðan, voru brtt. Alþfl. felldar.

Þá er að minnast á hliðarráðstafanir Framsfl., sem hann hlaut að krefjast í samræmi við áður raktar stóryrtar fullyrðingar, ef ekki í gengislögunum sjálfum, þá a.m.k. samtímis eða strax á eftir.

Snemma á Alþingi því, er nú situr, og einnig á síðasta þingi, lagði hæstv. núverandi landbrh., Hermann Jónasson, ásamt flokksbróður sínum. fram frv. til l. um verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm. Átti það að vera ein af hinum voldugu hliðarráðstöfunum, sem mikið hefur verið um talað. Í grg., sem fylgdi þessu frv., var ekki annað að sjá, en að nú ætti að velta veröldum með setningu þessara laga. Segir m.a. svo í grg.: „Ef þetta frv. verður að lögum og ákvæðum þess sæmilega fylgt, mundi það gerbreyta til bóta á stuttum tíma því ömurlega ástandi, sem ríkir í verðlagsmálum Íslendinga á 20. öldinni“. En þó að frv. væri í upphafi ekki stórfenglegt, versnaði það þó verulega í meðförum stjórnarflokkanna. Í stað þess, að verðlagsdómur yrði skipaður tveim fulltrúum neytenda, ásamt héraðsdómara, var nú ákveðið, að fulltrúi neytenda skyldi aðeins vera einn og atkvæði héraðsdómara ráða úrslitum, ef ágreiningur rís. Áhrif neytenda á dómsúrslit eru því að verulegu leyti þurrkuð út. Gerði ég tilraun til þess að endurbæta þetta með brtt. á Alþingi, en báðir stjórnarflokkarnir voru sammála um að fella hana. Þá var og að ýmsu öðru leyti dregið úr ákvæðum þessa litla frv. með samkomulagi stjórnarflokkanna. hg leyfði mér að flytja brtt. við frv. um að banna sérstaklega keðjuverzlun í sambandi við saumastofur verzlunarfyrirtækja. En þessi till. var einnig felld. Hefur frv. þetta síðan orðið að lögum, að mínu viti nauðaómerkilegt, — í upphafi máske ekki sérlega áhrifaríkt, en það litla, sem í því fólst áður, hefur verið að engu gert með samningi stjórnarflokkanna. Er því áreiðanlegt, að þessi hliðarráðstöfun hefur að engu eða litlu orðið í meðferð Alþingis. Féll þar ein hinna voldugu máttarstoða, er Framsfl. ætlaði að reisa undir gengislækkunaráform sín.

Í sambandi við sjálft gengislækkunarfrv. lögðu Alþfl.- menn fram brtt., sem fólu það í sér, að meira væri varið af fé til byggingar verkamannabústaða en lagt var til í frv. ríkisstj. Þær till. voru kolfelldar af stjórnarflokkunum. En útlit er fyrir, að aðeins örlítið af gengishagnaðinum, ég veit ekki hvað mikið, gangi til byggingar verkamannabústaða. Stóru orðin um mjög aukið fjármagn til byggingarmála hafa því reynzt full sýndarmennska í framkvæmd. –Tveir þm. Framsfl. lögðu fram breyt. á húsaleigulöggjöfinni. Höfuðatriði þeirra var að afnema húsaleigulöggjöfina, án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Sett voru þó í frv. ákvæði um hámarkshúsaleigu, en þau eru á þann veg, að óhætt er að fullyrða, að þau verða algert pappírsgagn, lítt framkvæmanleg og hindra ekki á neinn veg húsaleiguokur. Reynt var að lagfæra þetta í meðferð þingsins, en stjórnarflokkarnir sátu við sinn keip. Féll þar enn ein máttarstoð hliðarráðstafana Framsfl. Lítið sem ekkert er gert til að greiða fyrir nýjum hagkvæmum húsabyggingum og bókstaflega ekkert til að hindra húsaleiguokur, nema síður væri.

En þá eru viðskiptamálin. Snemma á þingi lögðu nokkrir framsóknarmenn fram frv. til l. um fjárhagsráð, sem átti að verða til þess að gerbreyta verzlunarástandinu. Var það að vísu frá sjónarmiði Alþýðuflokksmanna mjög lítilsvert kák, og að sumu leyti sízt til hins betra, eins og t.d. að lögfesta skömmtunarmiðanna sem innkaupaheimild. En það, sem verra var, er að ekki varð séð, að ríkisstj., undir forsæti Framsfl., hefði neina samfellda stefnu í þessu máli, síður en svo. Og það er víst og áreiðanlegt, að hver sem verða lokaafdrif þessa litla frv., þar sem stjórnarflokkarnir sízt eru sammála, þá verður löggjöfin, sem byggð verður á þessu frv., aldrei til þess að gera neinar stórfelldar bætur í viðskiptamálum þjóðarinnar. Riðar þar til falls ein veigamesta stoð hliðarráðstafananna.

Ein af hinum stórfelldu hliðarráðstöfunum átti að vera stóribúðaskattur. Snemma á núverandi Alþingi lögðu tveir Framsóknarflokksþingmenn fram frv. um stóribúðaskatt. Í bæjarstjórnarkosningunum síðustu virtist þetta frv. ekki vera ástsælt meðal kjósenda, enda var það með réttu af mörgum kallað smáíbúðaskattur. Liggur frv. þetta nú og sefur rólega í nefnd og hefur ekki enn komið til 2. umr. Og þannig fór enn ein af hliðarráðstöfununum.

En þá er að athuga áhrif gengislækkunarinnar, þau sem þegar, hafa komið í ljós.

Enn hefur ekki rætzt hinn rósrauði spádómur Sjálfstfl., sem ég rakti að nokkru hér á undan, og ekkert bendir til, að „hið mikla mál“, gengislækkunin, ætli að leysa vandann, — verða sá Aladdínslampi. er bregði birtu á veg þjóðarinnar. Því fer víðs fjarri. En eitt. hefur strax komið í ljós: Stórfelld hækkun allra lífsnauðsynja almennings. Kolatonnið hækkaði þegar í stað úr 240 kr. í 310 hér í Reykjavík, eða um 70 kr. Það táknar, að verkamaður með 9.24 kr. kaup á klst. var áður 26 stundir að vinna fyrir kolatonninu, en þarf nú að vinna röskar 331/2 stund fyrir því. Og þó mun vera í vændum mun meiri kolahækkun. Benzín og olíur, sykur, kaffi, alls konar kornvörur og yfirleitt allar aðfluttar vörur hafa hækkað stórkostlega í verði, og eiga eftir að hækka mun meir, bæði vegna gengislækkunarinnar, hækkunar á farmgjöldum, verðtolli og söluskatti. Allt þetta eykur stórum dýrtíðina og rýrir að miklum mun kjör almennings. Og íslenzkir bændur munu því miður átakanlega fá að kenna á stórfelldri verðhækkun á útlendum áburði og skepnufóðri og landbúnaðarvélum, varahlutum og benzíni. Fargjöld með flugvélum til útlanda hækkuðu um 75%; og farmgjaldahækkun með skipum var 45%. Eykur þetta, ekki sízt farmgjaldahækkunin, stórkostlega alla dýrtíð í landinu. Ríkisstj. sendi út ávarp til manna, eftir að gengislækkunin hafði verið sett á, um að hækka ekki að ástæðulausu nauðsynjar. En á sama tíma og ríkisstj. sendi út sín varnaðarorð, er þjóðinni tilkynnt frá stofnunum hinnar sömu ríkisstj., svo sem pósti og síma, að þær hafi hækkað stórkostlega sína þjónustu.

Það mætti telja í hið óendanlega þær stórkostlegu hækkanir, sem orðið hafa af völdum gengisbreytingarinnar, sem þyngst koma niður á láglaunafólki í landinu, en þó mun því miður enn þá fæst af því komið í ljós. En samtímis því er það tilkynnt nú, að vísitalan nýja hækki ekki neitt og fái launamenn því engar uppbætur fyrir hinar stórfelldu hækkanir, sem orðið hafa á nauðsynjum. Bentu Alþýðuflokksmenn á það áður, að nýja vísitalan gæfi hvergi nærri rétta mynd af verðlaginu, og það hefur áþreifanlega komið á daginn.

Það orkar ekki tvímælis, að setning gengislækkunarlaganna er langáhrifaríkasta málið, sem afgr. hefur verið á þessu Alþingi. Áhrif þess snerta launastéttirnar á þann hátt, er ég hef nefnt. Því miður virðist það ekki svo, að bátaútvegsmenn né frystihúsaeigendur fái sinn hlut það bættan með þessum ráðstöfunum, að þeir séu nokkru betur settir en áður. Einn af kunnustu útvegsmönnum landsins, sem til skamms tíma taldi sig til Sjálfstfl., hefur reiknað út og rökstutt, að útgerðarkostnaður meðalvélbáts á vetrarvertíð hækki um 55 þús. kr. eingöngu vegna gengislækkunarinnar. Virðist því gengislækkunin vera hvort tveggja í senn, stórfelld dýrtíðaraukning fyrir almenning, án þess að reynast nokkurt bjargráð fyrir þá, sem bjarga átti.

Og ekki hafa skattarnir lækkað, þótt gengislækkun hafi verið framkvæmd. Síður en svo. Þrátt fyrir það, þótt hækkun á verðtolli sé lækkuð úr 65% niður í 45%, nemur samt hækkun söluverðsins af völdum gengislækkunarinnar svo miklu, að víst má nú telja, að verðtollurinn hækki raunverulega um 53%, þrátt fyrir bókstaf gengislækkunarlaganna. Og söluskatturinn, hvað varðar innflutningsvörurnar, mun nú hækka frá því sem áður var um 65–67%. Þannig hefur ekki verið dregið neitt úr sköttum, eins og lofað var, heldur þvert á móti hafa þeir verið þyngdir, þrátt fyrir það að gengislækkunin var framkvæmd. Virðist því allt vera á sömu bókina lært.

Þá eru áhrif gengislækkunarinnar á fjárlög ríkisins. Það má óhætt fullyrða, að hækkun á útgjöldum fjárl. yfirstandandi árs nemur tugum millj. kr., og er unnt að rökstyðja það nákvæmlega og með sundurliðun, ef tími væri til.

Ég hef sagt það áður hér í þessum orðum, að ráðstafanir ríkisstj. hafa verið mikið skref til hægri frá því, sem áður var. Þetta kemur einnig í ljós varðandi öll þau umbótamál, sem lögð hafa verið fram á núverandi Alþingi. Enn þá liggur í nefnd frv. um ýmsar breytingar á almannatryggingalöggjöfinni, sem var gert til þess að auka hagræði hinna tryggðu og bæta þeim upp vaxandi dýrtíð. Það mun að sjálfsögðu í framtíðinni kosta ríkissjóð eitthvað, en ekki er vitað, að stj. ljái þessu sjálfsagða máli nægilegt liðsyrði, heldur virðist því sýnd full tregða eða andstaða. Þó er ekki fyrir endann á þessu séð enn þá, en samt hefur það komið í ljós, að litlum skilningi er að mæta í þessu sambandi, enda mun það fáum koma á óvart, sem til þekkja.

Á yfirstandandi Alþingi lögðum við Alþýðuflokksmenn fram frv. til 1. um útvegun fjár til byggingar verkamannabústaða, raunhæft frv., þar sem gerð var tilraun til þess að leggja og tryggja framkvæmd áætlunar næstu fjögur árin um byggingu verkamannabústaða, allt að 200 íbúðum á ári um land allt. Ekki hefur þetta frv. náð fram að ganga, og nú hefur fulltrúi Alþfl. í fjhn. skilað nefndaráliti, þar sem lagt er til, að frv. verði samþ., en fulltrúar stjórnarflokkanna bæra ekki á sér og munu vera málinu andvígir.

Snemma á yfirstandandi Alþingi var lagt fram í annað sinn sem stjfrv., undirbúið af fyrrv. samgmrh., Emil Jónssyni, frv. um öryggisaðstöðu á vinnustöðvum. Á fundi í iðnn. 28. marz s.l. var málið tekið til lokaafgreiðslu, og virtist öll n. vera sammála um að mæla með því, að það gengi fram. Fulltrúar stjórnarflokkanna, Sjálfstfl. og Framsfl., voru þó að tala um einhverjar breytingar á því, og átti einn af þeim að semja nál. Það nál. hefur ekki enn séð dagsins ljós, og hefur því minni hl., fyrir forgöngu Emils Jónssonar, skilað sérstöku nál., þar sem lagt er til, að frv. þetta verði samþ. Er auðséð á öllu, að stjórnarflokkarnir ætla að svæfa með öllu þetta vel undirbúna og merka mál, sem mundi hafa mikla þýðingu fyrir alþýðu manna við vinnu á sjó og landi.

Þrisvar sinnum hefur Alþfl. á yfirstandandi þingi reynt að koma því til leiðar, að hækkaður verði persónufrádráttur til skatts, og nú síðast flutt um það sérstakt frv. Það hefur legið í fjhn. Nd., og nú fyrir skömmu sá fulltrúi Alþfl. í n., hv. þm. V-Ísf., Ásgeir Ásgeirsson, sér ekki annað fært, en gefa út sérstakt nál. til þess að mæla með samþykkt frv., en fulltrúar stjórnarflokkanna hafa lagzt á málið, og er fullkomið útlit fyrir, að þeir vilji eigi, að það gangi fram.

Þannig er afstaða ríkisstj. gegn flestöllum umbótamálum alþýðunnar í landinu. Undirstrikar það vel andstöðu hennar gegn umbótamálum og sýnir ljóst, hversu stórt skrefið var, sem stigið var til hægri í íslenzkum stjórnmálum við tilkomu núverandi ríkisstj.

Það þarf vart að búast við því, á svo skömmum tíma sem ríkisstj. hefur setið að völdum, að miklar hafi verið framkvæmdirnar utan löggjafarþingsins, en þó hefur örlað á athöfnum, sem ekki verður komizt hjá að drepa á. Það er hið illræmda og alkunna Björgvinsmál, sem ég á hér við.

Hv. þm. Ísaf., Finnur Jónsson, flutti á Alþingi till. um það að synja um útflutningsleyfi fyrir mótorskipunum Gróttu, Richard, Huginn l. og Huginn Il, sem eru eign hlutafélagsins Björgvins á Ísafirði og sótt hefur verið um útflutningsleyfi fyrir. Eins og alþjóð er kunnugt, voru bátar þessir við fiskveiðar við Grænland á síðastl. sumri, en í stað þess að sigla þeim til heimahafnar á Íslandi, héldu skipin til Nýfundnalands, og meginhluta skipshafnanna var sagt að fara í land og hann sendur flugleiðás til Íslands, án þess að fá kaup sitt greitt. Engin skil gerðu eigendur þessara skipa á erlendum gjaldeyri fyrir sölu afurðanna, og fyrrv. viðskmrh., Emil Jónsson, kærði það athæfi.

Í stað þess sóttu nú eigendur bátanna, eins og áður greinir, um útflutningsleyfi fyrir þeim, og buðu samtímis að greiða hluta af skuldum sínum hér. Áður en Alþingi á formlegan hátt fjallaði um till. Finns Jónssonar varðandi þetta mál, hafði ríkisstj. veitt leyfið. En það er ekki nóg, að veitt hafi verið leyfi fyrir sölu þessara fjögurra báta úr landi, heldur var enn fremur leyft að flytja út síldveiðibúnað og veiðarfæri, sem eigendur bátanna áttu geymd á Ísafirði, og hafa þessi mikilsverðu tæki, um 20 smálestir af herpinótum, 4 snurpinótabátar með vélum og tilheyrandi, ásamt öllum síldveiðibúnaði hinna fjögurra skipa, verið send til útlanda, og mun verðmæti þessa alls nema hundruðum þúsunda króna. Vandkvæði eru nú hér mikil vegna gjaldeyrisskorts, sem kunnugt er, og erfitt að fá flutt til landsins hin nauðsynlegustu tæki og efnivörur til hvers konar framleiðslu. En á sama tíma og svo er ástatt í landinu, fær þessi maður að flytja út, þrátt fyrir flótta sinn, öll þessi verðmæti og stendur þó á engan hátt í skilum við lánardrottna sína. Meira að segja mun hann eiga mjög óbættar sakir við síldarútvegsnefnd, sem fól honum í forsjá æði mikið af tómum síldartunnum, sem þessi flóttamaður mun hafa selt, án þess að skila andvirðinu. Af áhvílandi skuldum á fyrrgreindum skipum munu vera greiddar um 1.7 millj. kr., en aðrir kröfuhafar, er til skuldar eiga að telja, munu eiga inni hjá félaginu um 2 millj. kr. og fá nú enga tryggingu fyrir greiðslu skulda sinna. Ríkisstj. hefur tekið sér vald til þess að fella niður aðstoðarlán til eigenda bátanna vegna síldveiðanna, en sams konar lán eru talin til skuldar hjá útvegsmönnum, sem ekki hafa flúið land með skip sín. Er hér um að ræða eitt hið argasta hneyksli, er skapar fordæmi. sem ekki verður séð fyrir, hvaða afleiðingar kann að hafa í framtíðinni. Sannast hér sannleiksgildi hinna sígildu orða, að auðmagnið á sér ekkert föðurland, heldur leitar það til fanga þar, sem líklegt er að fá skjótfenginn gróða. En aðgerðir ríkisstj. í þessu máli eru þær, að lengi munu verða í minnum hafðar. Og þó að hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, hafi veitt útflutningsleyfið, verður að sækja alla ríkisstj. til saka, þar sem ekki er kunnugt um ágreining, og stuðningsmenn hennar í báðum borgaraflokkunum slá á Alþingi skjaldborg um þessar athafnir.

Ég hefði raunverulega þurft að hafa miklu lengri ræðutíma, til þess að rekja til hlítar hið langa registur, sem myndazt hefur á skömmum tíma í ferli núverandi ríkisstj. En til þess vinnst ekki tími, og munu þá flokksbræður mínir, er tala annað kvöld, bæta þar nokkru við, og þá ræða sérstaklega um einstök mál. En þó vil ég ekki skiljast við þetta mál án þess, að ég lýsi yfir því, eins og ég gerði, er núverandi ríkisstj. tók við völdum, að Alþfl. hefur ekki ástæðu til að ætla annað, en að stefna ríkisstj. í utanríkismálum sé sú, að Alþfl. geti fyllilega tekið undir hana. Er það næsta nauðsynlegt fyrir litla þjóð, að allir lýðræðisflokkarnir geti staðið saman um utanríkismálin. Jafnvel meðal stórþjóða, eins og hins mikla Bretaveldis og Bandaríkjanna, eru sjónarmiðin samhæfð hjá stjórnarflokki og stjórnarandstöðu í þeim málum, þ.e. að segja hjá þeim flokkum, er fylgja lýðræðishugsjóninni. Segja má hið sama um Norðurlöndin. Samhugur allra flokka er þar ríkjandi um utanríkismálin. Er gott að svo sé og næsta nauðsynlegt. Lýðræðisflokkarnir þurfa í þessum efnum að standa saman og eiga enga samleið með þeim utanríkisáróðri, sem dreift er út af fimmtu herdeildum hjá öllum þjóðum og upptök eiga í valdagræðgi ákveðins stórveldis, er virðist helzt stefna að heimsyfirráðum. Er það og alkunnugt, að ríkasta ástæðan fyrir stjórnarandstöðu kommúnista hér á landi, eins og alls staðar annars staðar, eru raunverulega utanríkismálin. Þeirra mestu áhugamál og þjónustuskylda er andstaðan gegn Marshallaðstoð og Atlantshafsbandalagi og yfirleitt andstaða og rógur gegn samvinnu við allar vestrænar lýðræðisþjóðir og blind dýrkun á ofbeldi og yfirráðum hins austræna valds. Innanlandsmálin láta þeir sér í raun og veru í léttu rúmi liggja, og eru þau aukaatriði í þeirra augum.

Alþfl. mun fyrir sitt leyti taka afstöðu til mála, bæði innanríkis- og utanríkismála, eftir því sem efni standa til hverju sinni, og láta stjórnina njóta sannmælis um það, sem hún kann að gera vel, eins og t.d. hvað virðist snerta stefnu hennar í utanríkismálum.

En eins og áður er fram tekið, er mikið djúp staðfest milli stefnu Alþfl. og stefnu stj. í innanlandsmálum. Hann er í þeim í ákveðinni andstöðu við þá íhaldssömu stefnu er stjórnin fylgir. Í flestum innanlandsmálum er stefna stj. stórt skref til hægri. Það er þrengt að kjörum alþýðunnar. og bjargráðin, sem gripið er til, eru gagnslítil. Það er staðið á móti og stimpazt gegn umbótum á félagsmálalöggjöfinni til aukins hagræðis fyrir almenning. Það er stjórnað gegn alþýðusamtökunum og óskir þeirra að litlu eða engu hafðar.

En þetta er ekki unnt til lengdar. Núverandi ríkisstj. og samstarf íhaldsaflanna í landinu mun fyrr eða síðar verða að víkja fyrir réttlátum kröfum almennings um framsækni og umbætur í þjóðmálum. Augu þjóðarinnar munu opnast. Nú horfir skuggalega. En þröngsýni og íhald verður ekki ávallt við völd á Íslandi, og aftur munu hefjast umbætur og frjálslyndi í stjórnarháttum. Það verður ekki í tíð núverandi stjórnar. En þeir tímar munu koma, og „þá mun aftur morgna.“