11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

38. mál, fjárlög 1950

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil fara nokkrum orðum um afgreiðslu fjárlaganna. Hún hefur nokkuð verið gerð að umtalsefni af háttvirtum stjórnarandstæðingum, og þó nokkuð á við og dreif og samhengislítið.

Það hefur margt óviturlegt verið sagt um gengislækkunina, eins og oft vill verða, þegar menn leggja sig mjög í framkróka, til þess að gera eitthvert málefni sérstaklega tortryggilegt. Menn gerast þá „einfaldir í sinni þjónustu,“ eins og tekið er til orða á einum stað í öðru sambandi, og sjást ekki fyrir um röksemdirnar.

Ein af hinum fáránlegu fullyrðingum um gengisbreytinguna er sú, að hún hafi gert afgreiðslu fjárlaga lítt viðráðanlega. Lítum á þetta ofurlítið nánar. Mér telst svo til, að fjárlagaútgjöldin hækki um sem allra næst 13 millj. kr. vegna gengisbreytingarinnar, en tekjur ríkissjóðs hækka um meira en tvöfalda þá fjárhæð vegna gengisbreytingarinnar, og er því auðséð, að áhrif hennar eru ekki óhagstæð fyrir ríkissjóð. En hér með er sagan þó ekki nema hálfsögð.

Framsóknarmenn bentu á það í fyrra við afgreiðslu fjárlaganna þá, að fjárlög yrðu ekki framar samin — það væri ekki hægt — á þeim fjárhagsgrundvelli, sem þá væri á byggt. Nú liggur þetta þó enn ljósar fyrir en þá. Það er nú augljóst orðið, að ef átt hefði að afgreiða fjárlögin án gengisbreytingar, þá hefði orðið að ætla a.m.k. 90 millj. kr. í uppbætur á afurðir bátaútvegsins eins, og marga milljónatugi í uppbætur á afurðir togaraflotans, ef togararnir hefðu ekki átt að stöðvast gersamlega fyrir löngu. Það hefði því þurft á uppbótagreiðslur mikið á annað hundrað millj. kr., og því hefði öllu orðið að mæta með nýjum tollum og sköttum, að viðbættum launauppbótum og mörgum öðrum lögboðnum útgjöldum, sem nú verður að bæta inn á fjárlagafrv. til leiðréttingar og samtals nema hartnær 30 millj. kr. Það hefði því orðið að afla hátt á annað hundrað millj. kr. með nýjum tollum og sköttum, ef gengisbreytingin hefði ekki verið gerð og ef átt hefði að halda áfram að synda í sama uppbótafeninu og áður.

Það rétta í þessu efni er því, að fullerfitt er, og bregður að vísu til beggja vona um hvort það tekst í framkvæmd, að afgreiða nú greiðsluhallalaus fjárlög, en það hefði verið gersamlega óhugsandi að reyna slíkt, án þess að breyta stórkostlega gengi krónunnar eða fara niðurskurðar- eða verðhjöðnunarleiðina, sem áreiðanlega hefði ekki þótt mildari eða mýkri á einum né neinum, ef hún hefði verið valin.

Þetta var nú um gengislækkunina og fjárlögin. Lítum þá ögn nánar á afgreiðslu fjárlaganna.

Það mun láta nærri, að fjárlagagjöldin hækki, ef allt fer svo sem líklegt er, um 37 millj. kr., eða svo. Ekki er þetta nú glæsileg útkoma, munu sumir hugsa.

Það má skipta gjaldahækkunum í 3 flokka. Fyrst eru hreinar leiðréttingar á frv., þ.e.a.s. settir inn gjaldapóstar, lögboðnir eða áður ákveðnir, sem ekki er, þegar af þeim ástæðum, hægt undan að komast, en þó voru ekki með á fjárlagafrv. Í þessum flokki verður bróðurparturinn af fjárhæðinni, eða sem allra næst 24 millj. kr.

Hér eru t.d. fjárhæðir eins og lögboðin gjöld til aflatryggingasjóðs 1.750.000 kr., lögboðið framlag til lækkunar á framleiðslukostnaði bátaútvegsins fram að gengislækkun kr. 1.700.000, lögboðin greiðsla vegna síldarkreppulána frá 1949 kr. 1.300.000, lögboðnar greiðslur vegna innlausnar á sjóveðum vegna síldarvertíðar 1949 kr. 1.500.000, lögboðið tillag til hafnarbótasjóðs kr. 1.200.000 og hækkun fjárveitingar til vegaviðhalds um 1.800.000 kr. upp í tæpar 13 millj. kr., og er það skoðað sem leiðrétting, þar sem vegavíðhaldið undanfarið hefur kostað meira en 13 millj. kr., en meiningin er að reyna að halda því nú í 12.800.000 kr., þrátt fyrir hækkun kostnaður við vegaviðhald vegna gengislækkunarinnar.

Langsamlega stærsta fjárhæðin í þessu, sem telja verður leiðréttingar á fjárlagafrv., eru launauppbætur til opinberra starfsmanna, en launauppbætur hafa verið greiddar á opinber starfslaun síðan í júlí 1949, þótt ekkert væri tillit til þess tekið á fjárlagafrv. Hefur ríkisstj. lagt fram tillögu um það, hvernig þessar launauppbætur verði fyrir árið 1950, eftir að hafa fengið í hendur rannsókn þá á þessum málum, er milliþn. hefur haft með höndum. Uppbót þessi var greidd 20% frá júlí til des. 1949 og 20% í jan. og febr. 1950, en 15% frá því í marz s.l. Að athuguðu máli leggur ríkisstj. til, að þessar uppbætur verði 10–17% frá 1. júní, mismunandi eftir launaflokkum, enda verði vinnutími á skrifstofum lengdur í 381/2 stund á viku. En á eftirlaun verði greidd 15% uppbót frá áramátum, þó ekki á hærri fjárhæð en 14.400 kr.

Af þessu, sem ég hef nú sagt um brtt. við fjárlögin, sjáum við glöggt, að hækkun fjárlaganna, ef hv. Alþingi fylgir till. meiri hl. fjvn. og ríkisstj., er í raun réttri aðeins leiðréttingar. Þetta sést á því, að ég hef þegar gert grein fyrir 37 millj. hækkun, en það er sem næst sú fjárhæð, er frv. hækkar miðað við till. fjvn. og ríkisstj.

Tillögur um ný útgjöld, nýjar fjárveitingar, eru ekki teljandi frá fjvn. eða ríkisstj. Þær munu nema samtals á milli einnar og tveggja milljóna og er mætt með lækkun á öðrum liðum frv.

Ef við lítum á gjaldahlið fjárlaganna, er meginstefnan sú, að verklegar framkvæmdir og lögboðin útgjöld standa í stað og þó tæplega, þrátt fyrir gengisbreytinguna, og að útgjöld ríkisins yfirleitt standa í stað frá því sem fyrir lá í skuldbindingum, þegar farið var að vinna að fjárlögum eftir stjórnarskiptin, að öðru leyti en því sem beinir rekstrarliðir hækka óhjákvæmilega vegna sjálfrar gengisbreytingarinnar. Þetta þýðir raunverulega lækkun á mjög mörgum fjárveitingum, og raunverulega lækkun á ríkisútgjöldunum, þegar tekið er tillit til hins breytta verðgildis peninganna og þar af leiðandi aukins kostnaðar við framkvæmdir.

Vil ég þá minnast nokkuð á tekjuhlið fjárlaganna.

Samkvæmt þeim brtt., sem fjvn. hefur nú tekið upp, í samráði við ríkisstj., um tekjubálkinn, er gert ráð fyrir, að tekjurnar hækki um 36 millj. kr. Er hér nær eingöngu um áhrif frá gengisbreytingunni að ræð.a. Yfirleitt er stefnan sú, að halda í gildi gömlu skatta- og tollalöggjöfinni, að undanskilinni nokkurri lækkun á verðtolli og að undanskilinni lækkun á lægsta tekjuskatti, en um það hefur nú verið lagt fram stjfrv. á Alþingi. Hvort þessi tekjuáætlun stenzt, getur reynslan einsýnt. Hún er byggð á því, að innflutningur og útflutningur verði nokkru lægri en í fyrra, en ekki miklu lægri. Viðskiptahorfur eru nú mjög skuggalegar, eins og kunnugt er. Það er ómögulegt að segja, hve innflutningur og útflutningur verður mikill, eins og raunar sjaldan er hægt, og enn síður nú en áður.

Á þessu sést glöggt það, sem ég hef bent á undanfarið, en dregið hefur verið í efa af stjórnarandstæðingum, að engin minnsta von var um afgreiðslu greiðsluhallalausra fjárlaga með því að fella niður tolla og skatta í stórum stíl. Á þessu getum við enn séð, hvílík reginfjarstæða það var og er, sem stjórnarandstæðingar hafa borið sér í munn, að það væri óþörf áníðsla að framlengja söluskattinn, það væri hægt að fella hann niður. Áætlað er, að hann gefi 47,5 millj. kr. Það hefur þýtt, að fjárlögin hefðu verið afgr. með 47 millj. kr. greiðsluhalla og e.t.v. meir, ef svo færi, að ekki næðist jöfnuður í reyndinni, jafnvel á þeim fjárlögum, sem nú er verið að afgreiða.

Það tekur alveg út yfir, að stjórnarandstæðingar skuli hafa fengið sig til þess að gera hróp að stj. fyrir að framlengja gömlu skattana frá tíð fyrrv. stjórna, þegar þess er gætt, að þessir sömu flokkar hafa verið ákafastir allra flokka í því að leggja á ríkissjóð öll þau útgjöld yfirleitt, sem hann nú verður að standa undir, og hafa ekki sýnt hinn minnsta lit á því að gera nokkrar tillögur til lækkunar á ríkisútgjöldunum eða bent á nokkra stóra liði fjárlaganna, sem niður geti fallið. Stjórnarandstaða, sem hagar sér þannig, er verra, en gagnslaus.

Á undanförnum árum hefur ríkissjóður verið rekinn með stórfelldum greiðsluhalla. Á s.l. ári verður greiðsluhallinn vafalaust 40 millj. kr. Það er gífurlegt átak, sem þarf til þess að jafna á einu ári svo gífurlegan halla, einkum þegar þess er gætt, að búast má við því, að innflutningurinn, og þar með grundvöllurinn fyrir tolltekjunum, dragist saman. Það hefði í rauninni, til öryggis, þurft að skera í lögboðnu útgjöldin og verklegu framkvæmdirnar, en mönnum hefur ekki þótt fært að stíga stærra skref í þetta sinn, en að láta fjárveitingar til verklegra framkvæmda haldast þær sömu í krónutölu og áður, og þó tæplega það, þrátt fyrir gengisbreytinguna og lækka þær þannig raunverulega. Sama má segja um flesta lögboðnu útgjaldaliðina. Þetta er gert í þeirri vori, að þessi raunverulegi niðurskurður á þessum gjöldum og afnám útflutningsuppbótanna, ásamt nærri því algeru bindindi um að bæta neinum nýjum gjöldum á fjárlögin, eða nýrri útgjaldalöggjöf, muni nægja til þess að afnema greiðsluhallann.

Nú munu menn spyrja: Hvers vegna hafa ekki verið skorin niður í fjárlagafrv. útgjöld til sjálfs ríkisrekstrarins og sparað með því að draga saman ríkisbáknið, eins og daglega er tekið til orða?

Þessi fjárlög eru ekki afgreidd fyrr en langt er liðið á fjárhagsárið, af ástæðum, sem ég rek ekki hér. Stjórnin tók ekki við völdum fyrr en um miðjan marz, og eftir það byrjaði hún að vinna ásamt fjvn. að endurskoðun á fjárhag ríkisins og fjárlögunum. Ráðstafanir til þess að draga úr kostnaði við starfrækslu ríkisins eru þess eðlis, að þær þurfa nokkurn aðdraganda. Er þ.að auðskilið mál, þegar þess er gætt, að þær yrðu yfirleitt að vera fólgnar í skipulagsbreytingum, samfærslu starfa, niðurlagningu embætta og öðrum þess háttar ráðstöfunum. Það er því óhugsandi, að slíkar ráðstafanir geti haft nokkur áhrif, sem heitið getur, á greiðslur úr ríkissjóði á því fjárhagsári, sem nú stendur yfir. Ríkisstj. hefur haft svo fullar hendur verkefna síðan hún tók við, að þess hefur enginn kostur verið, eins og hver maður getur skilið, að rannsaka eða gera ákvarðanir um verulegar ráðstafanir í þessum efnum.

Það hefur verið kappkostað nú við afgreiðslu þessara fjárlaga að taka inn á fjárlögin öll þau útgjöld, sem menn vita að greiða þarf, og reynt að minnka nú bilið milli fjárveitinga og þess, sem borgað er úr ríkissjóði, frá því sem verið hefur undanfarið. Hins vegar hefur hvorki ríkisstj.fjvn. viljað flytja tillögur til lækkunar á útgjöldum við starfrækslu ríkisins, nema það væri öruggt, að búið væri að gera eða hægt að gera í tæka tíð fullnægjandi ráðstafanir til þess, að sú lækkun yrði annað, en á pappírnum. Það væri að svíkja sjálfan sig. Þessi afstaða hefur mótað viðhorf og tillögur um starfrækslukostnaðinn sjálfan. Ríkisstj. er hins vegar ráðin í því að láta fara fram ýtarlega athugun á starfrækslukostnaðinum, með það fyrir augum að koma þar á sparnaði. Mun hún leita sér aðstoðar sérfræðinga í þessu skyni.

Við vonumst fastlega eftir því, að þau fjárlög, sem nú verða afgreidd, standist í framkvæmd, þótt slíkt verði aldrei fullyrt. Og við vonum, að ríkisbúskapurinn verði greiðsluhallalaus á þessu ári. En fari nú svo, að slíkir örðugleikar steðji að, að ríkistekjurnar bregðist, þá mun sá þingmeirihluti, sem að stj. stendur, samt sem áður ekki gefast upp við að afnema greiðsluhallann á ríkisbúskapnum, af þeirri einföldu ástæðu, að hann telur það höfuðatriði til þess að koma jafnvægi á þjóðarbúskapinn. Verður þá þegar í haust að lækka ríkisútgjöldin. Það verður að gera sér það ljóst, að slík útkoma á þessu ári yrði órækur vottur þess, að þjóðarbúskapurinn stendur ekki undir þeirri ríkisstarfrækslu, sem nú er, og þeirri útgjaldalöggjöf, sem sett hefur verið. Ganga verður þá m.a. í að draga úr lögboðnum útgjöldum ríkisins til almennra mála og almennum fjárveitingum til viðbótar því, sem frekast reynist fært að spara af rekstrarkostnaði ríkisins.

Ég vil þá næst snúa mér nokkuð að þeim umræðum, sem hér hafa farið fram, og árásum stjórnarandstæðinga. Fyrst vil ég segja fáein orð til að kvitta fyrir nokkur ummæli hv. 8. landsk., Stefáns Jóh. Stefánssonar, um Framsfl. Hann reyndi að koma inn þeirri skoðun, og það gerði hv. 5. landsk. þm., Ásmundur Sigurðsson, af veikum mætti líka, að ekki væri gott samræmi í því, sem Framsfl. hefði haldið fram um nauðsynlegar hliðarráðstafanir með gengislækkun, og því, sem framkvæmt væri nú ásamt gengislækkuninni. Í þessu sambandi vitnaði 8. landsk. í ræðu, sem ég flutti við 1. umr. gengislækkunarfrv., þar sem ég með nokkrum orðum lýsti, hvað ,þyrfti að gera, frá sjónarmiði Framsfl., jafnhliða því að gengið væri fellt. Kvað hann mig hafa lagt áherzlu á eftirfarandi:

Að stóreignaskatturinn væri aukinn og honum breytt frá því, sem frv. gerði ráð fyrir. Að útvegað væri nýtt fjármagn til landbúnaðarins.

Að gerðar væru ráðstafanir til þess að fá nýtt fjármagn til íbúðarhúsabygginga í kaupstöðum og koma fram lækkun á húsaleigu, og loks:

Að breytt væri um stefnu í verzlunarmálunum, á þann hátt, sem Framsfl. hefði lagt til. Þetta var allt rétt hjá hv. þm., enda hafði hann þetta eftir prentuðum útdrætti úr ræðunni. Gott og vel. Leggjum þessa yfirlýsingu, mína til grundvallar og sjáum, hvað gerzt hefur.

Framsfl. kom fram mikilli hækkun á stóreignaskattinum, og verður hann á hæstu eignum 25% í stað 12% í frv.

Framsfl. tryggði, að nærfellt helmingur af þessum stóreignaskatti rennur til þess að auka lánsfé til landbúnaðarins og til íbúðarhúsabygginga í kaupstöðum.

Framsfl. kom því fram, að verkamannabústaðir, byggingarsjóður sveitanna og ræktunarsjóður fá gengishagnað bankanna, og þannig verður leyst sérstök þörf og m.a. nokkuð bætt úr því algera hirðuleysi, sem í þessum efnum ríkti, þegar Alþýðuflokksmenn höfðu þau með höndum.

Nú, áður en þingi lýkur, verður sett löggjöf um lækkun húsaleigu, sú sama og ég átti við, þegar ég talaði við 1. umr. gengislækkunarfrv.

Eftir eru þá verzlunarmálin. Eftir kosningar hefði átt að vera fyrir hendi meiri hluti fyrir verzlunarstefnu Framsfl., eftir þeirri afstöðu. sem áður hafði komið fram á þingi. Það þótti því líklegt, að það gengi fram, þar sem verkalýðsflokkarnir höfðu það á sínu valdi að hjálpa til að koma fram þessari stefnu, ef þeir meintu eitthvað með tali sínu um að bæta verzlunarástandið. Um þetta mál hefur staðið barátta í þinginu, og hefur nú úrskurður gengið, og er hann á þá lund, að Alþfl. gekk á móti málinu og eyðilagði það í neðri deild fyrir nokkrum dögum. Svo mikið kapp lagði flokkurinn á að koma þessu máli fyrir kattarnef, að einn af þingmönnum flokksins, sem áður hafði tekið afstöðu með málinu og á valt, var bundinn og látinn hjálpa til að eyðileggja það, til þess að öruggt væri, að engin mistök gætu í því orðið.

Framsóknarmenn tryggðu framgang mikilvægra ráðstafana jafnhliða gengisbreytingunni, og í ágreiningsmálinu um verzlunina við Sjálfstfl. áskildu þeir sér, að úrskurður Alþingis gengi, til þess að engu tækifæri væri glatað, og kom þá fram, að þeir, sem hæst tala um endurbætur á verzluninni, sátu á svikráðum við málið.

Málflutningur stjórnarandstæðinga hér í gærkvöld virtist mér vægast sagt furðulegur. Um gagnrýni var þar ekki að ræða, og skal ég sýna fram á það síðar.

Þingmenn stjórnarandstæðinga töluðu eins og gengislækkunin hefði verið gerð að þarflausu, af illkvittni stjórnarflokkanna og ríkisstj. Þeir gerðu ekki hina allra minnstu tilraun til þess að sýna fram á, hvað annað hefði verið hægt að gera, sem hefði gefið betri raun og komið betur niður en gengislækkunin, en þó náð þeim tilgangi að tryggja áframhaldandi framleiðslustarfsemi og koma í veg fyrir atvinnuleysi og hrun. Þeir gengu jafnvel svo langt að halda því fram, að sjávarútvegurinn hefði ekkert gagn af gengislækkuninni, en þeir reyndu hins vegar ekki að draga upp mynd af því, hvernig væri ástatt um afkomumöguleika sjávarútvegsins, ef gengi sterlingspundsins hefði verið haft áfram rúmar 26 kr. Þeir nefndu dæmi um vörur, sem hefðu hækkað, en þeir gerðu ekki grein fyrir, að í gengislögunum eru ákveðnar launauppbætur eftir vísitölu, þegar framleiðslukostnaðurinn hækkar, sem hann að sjálfsögðu hlýtur að gera, vegna gengislækkunarinnar. Sumir gengu jafnvel svo langt að fullyrða út í bláinn, að vísitalan mundi ekki sýna hækkun á framfærslukostnaðinum, þótt hækkun yrði. Jafnframt forðuðust þeir að sjálfsögðu að minnast á það einu orði, hver væri nú hlutur almennings, ef genginu hefði verið haldið óbreyttu, framleiðslan látin stöðvast og atvinnuleysið látið skella yfir með öllum þess hörmungum. Þeir töluðu um, að það, sem kaupa þyrfti til að reka landbúnaðinn, hefði hækkað, en þeir forðuðust að geta þess með einu orði, að verð landbúnaðarvara á að hækka, miðað við aukinn framleiðslukostnað, hvað þá að þeir leiddu getum að, hvernig ástatt væri orðið og mundi verða í landbúnaðinum, ef útflutningsframleiðslan hefði aðgerðarlaust verið látin stöðvast og fótunum kippt undan afkomu fólks við sjávarsíðuna. Ætli bændur hefðu lengi fleytt rjóma í því ástandi?

Neyðarlegt var að heyra, þegar hv. 8. landsk., Stefán Jóh. Stefánsson, var að fárast um erfiðleika bænda af völdum gengislækkunarinnar, þegar þess er gætt, að það hefur verið eftirlætishugmynd þessa hv. þm. í mörg ár að leysa dýrtíðarvandamálið með því að þvinga niður verð á landbúnaðarafurðum einhliða.

Háttv. stjórnarandstæðingum ber að sýna fram á, hvernig hægt hefði verið að komast hjá gengislækkun, eða vera ómerkir ella. Eftir þessu verður gengið og engin miskunn sýnd í því efni. Hvar sem þeir opna sinn munn, munu þeir verða krafðir til reikningsskapar um þetta, og ekki komast undan því, hversu mikla stund sem þeir leggja á að slita einstök atriði úr samhengi. Það er gagnrýni að sýna fram á galla þess, sem er, í samanburði við það, sem hefði verið hægt að gera, ef rétt hefði verið á haldið. Þetta er gagnrýni, hitt er rógur.

Það er víst ekki of mikið sagt, þótt því sé slegið föstu, að hver sá maður geri sig að viðundri í augum allra hugsandi manna, sem heldur því fram, að gengislækkun hafi verið óþörf nema því aðeins, að hann geri sig að talsmanni þess, að leggja hefði átt á hátt á annað hundrað milljónir króna í nýjum tollum og ausa í enn nýjar uppbætur, eða talsmanni þess, að skera hefði átt niður stórkostlega kaupgjald, afurðaverð og allar peningagreiðslur, og vilji um leið halda því fram, að þetta hefði komið betur út fyrir bændur, sjávarútvegsmenn og launafólk.

Uppbátaleiðin hefði veitt mönnum a.m.k. jafnþungar búsifjar og gengisbreytingin, en gert allt fjárhagskerfið rotnara og rotnara með hverjum mánuðinum sem leið. Niðurfærsla, eða niðurskurðarleiðin, hefði komið þyngra v9ð almenning, en gengisbreytingin, og er það viðurkennt af öllum, sem þessi mál hafa athugað, og ekki síður af stjórnarandstæðingum.

En hvar standa stjórnarandstæðingar þá? Þeir standa uppvísir að því að deila á núverandi ríkisstj. og núverandi stjórnarflokka gegn betri vitund. Stjórnin er að framkvæma hluti, sem stjórnarandstæðingar sjálfir vissu og beinlínis viðurkenndu margir fyrir fram, að væru óumflýjanlegir. Alþýðuflokksmenn viðurkenndu, að uppbótaleiðin var ekki fær og niðurskurðarleiðin ekki heldur. Forkólfar stjórnarandstöðuflokkanna vissu það vel, að gengisbreyting hlaut að verða afleiðing þess öngþveitis, sem orðið var.

Kommúnistum er ekki sjálfrátt. Það vissu menn áður og það vita menn enn. Þeir bjóða málamyndarsamfylkingar, en álykta og hafa ályktað undanfarið enn sterkar en áður um fylgi sitt við Kominformstefnuna, sem jafngildir blindri þjónustu við kommúnistaflokk Rússlands. Þeir hafa talað um samfylkingu um úrlausnir í innanlandsmálum, en álykta gegn öllum úrræðum í fjármálum og atvinnumálum landsins, sem til greina geta komið. Þeir hafa þá einu tilburði við að smíða botn í sitt pólitíska kerald, að ekkert þyrfti að gera annað en rétta út höndina eftir mörkuðum í Austur-Evrópu, mörkuðum, sem undanfarin ár hafa verið og eru enn lokaðir, þrátt fyrir síendurteknar tilraunir íslenzkra stjórnarvalda til þess að selja þar vörur.

Þó er á þessu sá „smávægilegi“ ágalli, eftir upplýsingum hv. þm. Siglf. í gærkvöld, að Íslendingar verða þá að hafa ráðherra, sem rússnesku stjórninni líkar við. M.ö.o. er það nú játað opinberlega af einum helzta forustumanni kommúnista blygðunarlaust, að ef þeir fengju að ráða, þá mundu þeir afhenda stjórn erlends ríkis valdið til að ráða því, hverjir ráðherrar yrðu á Íslandi, gegn því að fá að selja þar fisk. Það er undarlegt, að nokkur stjórnmálamaður, hvað þá heldur stjórnmálaflokkur, skuli vera svo djúpt sokkinn að byggja afstöðu sina á öðrum eins grundvelli og þessum.

Kommúnistar munu nú telja uppskerutíma vegna aðsteðjandi erfiðleika, en sáðtímann töldu þeir, þegar þeir komu verðbólguhjólinu yfir dauða punktinn og fengu það til að snúast með hæfilegum hraða. Þó mun þeim varla þykja ávöxturinn þroskaður orðinn. Þess vegna munu þeir leggja allt kapp á að eyðileggja jákvæðan árangur þess, sem hefur verið gert, og láta ekki takast að fyrirbyggja stöðvun og atvinnuleysi.

Að sumu leyti gegnir meiri furðu með Alþfl. Með óviturlegu og óraunhæfu fjasi um gengislækkun hefur hann vafið sig inn í eins konar hjúp, þar sem hann situr algerlega fastur og má sig hvergi hræra um sinn. Frá þessum uppvakningi heyrast mikil óp um gengislækkunina, og þykir hún mikil óhæfa.

Hér hefur verið lækkað gengi og ákveðnar launauppbætur með lögum. Í Bretlandi hefur alþýðuflokkur Bretlands lækkað gengið og sett allt kaupgjald fast. Í Noregi hefur alþýðuflokkur Noregs látið hætta að miklu leyti að greiða niður verðlag á vörum með ríkisfé, með þeim afleiðingum, að verðlag hefur stórhækkað í landinu, en kaupgjaldi er haldið föstu. Alþfl. hér samþykkti gengislækkun 1939, og þá voru lögfestar miklu minni kaupuppbætur en nú. Voru þessar ráðstafanir árás á alþýðuna? Voru þær gerðar af illvilja? Svona mætti halda áfram að nefna dæmi um samræmið.

Alþfl. sýnist á góðri leið með að ærast af ótta við kommúnista. Alþfl. sýnist vera að taka upp þá aðferð að vilja hafa hönd í bagga,þegar sólin skín, en hlaupast frá vandanum, þegar syrtir að, og ætla þá öðrum að taka afleiðingunum af því, sem miður hefur tekizt. Alþfl. hefur grafið sig í fönn. Með þessum og þvílíkum vinnubrögðum getur Alþfl. aldrei orðið neinum að gagni. Það ætti hann að gera sér ljóst. Og hann ætti, og hefði átt á undanförnum árum, að semja sig að háttum alþýðuflokka í nálægum löndum. Þá mundu villur hans hafa orðið færri á undanförnum árum og betur horfa fyrir honum og alþýðustéttum þessa lands, sem nú mega gjalda þeirra flokka beggja, sem telja sig þeirra málsvara.

Stjórnarandstæðingar hafa færzt mikið í fang með árásum sínum á gengislækkunina. Geti þeir sýnt fram á, að hún hafi verið framkvæmd að nauðsynjalausu, eða illum vilja, af löngun til þess að þrengja kosti manna að óþörfu, þá hafa þeir gert skyldu sína með því að gagnrýna hana. En þessu marki ná þeir aldrei, svo sem margsannað hefur verið í þessum umræðum, nema þeir sýni fram á, hvaða önnur betri úrræði voru tiltæk. Það geta þeir aldrei, af ástæðum, sem mönnum eru ljósar orðnar, og þá er þeirra kostur ekki góður. Það kemur sem sé gleggra og gleggra í ljós, að gengislækkun var óumflýjanleg nauðsyn, afleiðing þess, sem áður var orðið. Og þeir bera ekki mikla virðingu fyrir sjálfum sér, sem leggja orku sína í að ófrægja aðra fyrir að framkvæma það, sem þeir sjálfir eru sannfærðir um, að var hið eina, sem hægt var að gera.

Ég ákæri stjórnarandstæðinga fyrir að hafa fallið fyrir freistingu þeirri, sem háskalegust er, að vera ábyrgðarlausir á háskastund og vinna það fyrir von í fylgi þeirra skammsýnustu að vinna skemmdarverk á þeim framkvæmdum, sem þeir sjálfir vita að voru óumflýjanleg nauðsyn.

Þetta er þung ákæra, en hún er sönn. Nú er það þjóðarinnar að hafa vit fyrir þessum mönnum. Láti hún ginnast, munu bíða enn stórfelldari vandkvæði en enn þá hafa orðið, — en sýni menn þann þroska og skilning að snúa baki við þessum mönnum og fylkja sér til stuðnings nauðsynlegum viðreisnarstörfum, þótt íþyngja kunni í bili, þá mun þjóðinni takast að komast hjá því allra versta og tiltölulega léttilega vinna bug á öllum erfiðleikum.