11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

38. mál, fjárlög 1950

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég á hér ásamt samþm. mínum, hæstv. forsrh., brtt. á þskj. 720 við 22. gr. Þessi till. er um að veita stj. heimild til að greiða 20 þús. kr. byggingarstyrk til húsmæðraskóla Ingibjargar Jóhannsdóttur að Löngumýri í Skagafirði. Þetta er fram borið sökum þess, að þessi kona hefur komið þarna upp stofnun, sem er einstök í sinni röð. Hún hefur komið upp myndarlegum kvennaskóla, lagt í hann 1/2 millj. kr. og gert þetta með svo miklum dugnaði og myndarskap, að allir dást að. Það þarf ekki að orðlengja um það, að þegar slíkt er gert, þá er bæði ríki og héraði gerður greiði. Með prívatframtaki er því komið í framkvæmd, sem ríkið hefði annars þurft að gera. Og hún hefur gert þetta með þeim árangri, sem ég áður gat um. Ég hygg, að hún hafi fengið 50 eða 75 þús. kr., allt í allt, í byggingarstyrk, og reikna ég þá með því, er hún fékk á síðustu fjárlögum. Það gefur auga leið, að þetta er bara lítill styrkur miðað við kostnaðinn. Ef ríki og sýsla hefðu átt að byggja skólann, hefði þurft að leggja fram stærri fjárhæðir. Ég hygg því, og held, að það sé kunnugra manna mál, að hagsýni sé að styrkja þessa stofnun. Ég hef borið þetta mál undir fræðslumálastjóra, og hann hefur í bréfi til mín sagt, að ríkið verði að styrkja þessa konu. Ég vænti því þess, að Alþ. meti starf hennar og viðleitni að verðleikum og samþ. að greiða þessa litlu upphæð. Ég skal svo ekki þreyta hv. þm. með frekari umr. um þetta. — Það er ýmislegt annað, sem ástæða væri til að minnast á. Það er með mig eins og aðra hv. alþm., við hefðum allir óskir fram að færa, ef ástæður væru ekki þannig, að það er ekki hægt. Það er því bezt að hafa sem fæst orð.