11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

38. mál, fjárlög 1950

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. beindi fsp. til ríkisstj. varðandi örorkustyrk, ellilífeyri og makabætur, en heimild til að greiða þetta mun renna út í júnílok. Þessi fsp. er borin fram í sambandi við það, ef frv., sem breyta á tryggingal. og óvíst er um afgreiðslu á, strandar nú. Ég vil taka það fram, að ríkisstj. er ljóst, að það verði að fá heimild til að greiða uppbætur áfram, hvað þetta atriði snertir. Lít ég svo á, að eigi sé ástæða til að setja heimild um þetta á fjárl. Er eðlilegra að afgreiða í því skyni einfalda þál., þar eð þetta snertir ekki fjárlagaafgreiðsluna beinlínis. Ætlazt er til, að tryggingarnar greiði þetta, eins og er. Mun ég gera ráðstafanir til þess, ef frv. um breyt. á tryggingal. verður eigi afgreitt, að þá komi til sérstök þál., er heimili ríkisstj. að greiða uppbætur að þessu leyti til ársloka 1950. Sé ég svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Vildi ég taka þetta fram út af fsp. hv. 4. þm. Reykv.

Ég mun ekki fara að gera neinar sérstakar brtt. að umræðuefni að þessu sinni. Ég er aðeins tengdur við eina brtt., 720, IV, er við flytjum, þm. Skagf. Hv. samþm. minn hefur farið orðum um hana, og er ástæðulaust að gera það frekar. En hún fjallar um 20 þús. kr. byggingarstyrk til húsmæðraskóla Ingibjargar Jóhannsdóttur á Löngumýri í Skagafirði. Ég vil baka það fram og ítreka, ef einhverjir hv. þm. hafa eigi verið við, þegar hv. samþm. minn talaði, að þessi kona hefur komið sér upp húsmæðraskóla af eigin rammleik. Hann kostaði 1/2 millj. kr. og ríkissjóður hefur lagt fram einar 75 þús. kr. Er þetta einsdæmi um dugnað einnar konu, sem hefur takmarkað fjármagn. Við höfum þó ekki þorað að fara fram á meira til að létta undir í örðugleikum þeim, sem Ingibjörg Jóhannsdóttir á nú við að etja. Vil ég mega vænta þess, að Alþ. samþykki þessa litlu fjárveitingu. Þótt hún sé lítil, þá er hún uppörvun og mundi létta undir með henni að halda áfram því starfi, sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Skal ég svo ekki fara um þetta fleiri orðum.