11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

38. mál, fjárlög 1950

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, út af ummælum, sem hv. frsm. fjvn., hv. þm. Barð., beindi til mín út af þeirri brtt., sem ég mælti hér fyrir áðan. Það er nú kannske af því, að það er orðið svo áliðið og ég er orðinn syfjaður, að ég átti erfitt með að skilja þann hugsunarhátt, sem lá að baki því, sem þessi hv. þm. sagði. Mér er það ekki fullljóst, þegar hann ályktar sem svo að úr því að ég vildi ekki sætta mig við að lengja vinnutíma skrifstofufólks, þá gæti ég alveg eins lagt til, að vinnutíminn yrði styttur niður í eina klukkustund á dag — mér er það ekki vel ljóst, hvernig hann ályktar sem svo, þó að það sé varla ágreiningur um það, að það hljóta að vera takmörk fyrir því, hve vinnutíminn á skrifstofum eigi að vera langur, ef það, að hann sé langur, á ekki að leiða til minnkandi afkasta. T.d. ef vinnutíminn væri 18 stundir, mundu vinnuafköstin rýrna við það. En þó að allir séu sammála um það, að afköst eins manns eru meiri yfir daginn með 10 stunda vinnu á skrifstofu, en með 18 stunda vinnu, þá finnst mér erfitt að draga af því þá ályktun, að sá sami maður mundi vinna meira á einni klukkustund, en á 10 klst.

Annars, viðkomandi launahækkunum til opinberra starfsmanna og þeim ummælum, sem hv. frsm. fjvn. beindi til mín í sambandi við það, þar sem hann sakaði mig um ábyrgðarleysi fyrir það að hafa lýst fylgi mínu við till., sem stjórnarandstaðan hefur borið fram út af þessum launum, þá vil ég aðeins segja það, að þó að það sé náttúrlega ekki mitt að tala fyrir þeim brtt., sem þessir hv. flokkar hafa borið fram, þá vil ég þó segja, af því að ég er sakaður um ábyrgðarleysi í þessu sambandi, að ég sé nú ekki annað, fyrir það fyrsta, ef maður tekur fyrst till. hv. Sósfl., en að ef gert er upp annars vegar hækkanir, sem mundu verða á fjárl., ef þessar brtt. yrðu samþ., og hins vegar þær lækkanir, sem fulltrúi Sósfl. í fjvn. hefur borið fram till. um, þá efast ég um, að munurinn á þessu yrði svo neinu næmi, svo að hvað fjárhagshliðina snertir, tel ég, að þetta sé ekki óábyrg afstaða. Og væri sennilega saga hv. Sósfl. önnur, ef hann hefði aldrei sýnt meira ábyrgðarleysi, en með afstöðu sinni til þessara mála. — Aftur á móti, hvað snertir till. hv. Alþfl., þá verður því ekki neitað, að þar yrði um útgjaldaaukningu að ræða, ef brtt. þess flakks yrðu samþ.

En ég benti á það í minni framsöguræðu, að þegar um er að ræða launabætur til opinberra starfsmanna, þá stendur þetta, þegar fram í sækir, mjög verulega undir sér, því að mikið af þessu kemur inn aftur sem skattar. En það, sem er þó aðalatriðið í þessu sambandi, er það, að þegar hinn hv. þm. bar mér það á brýn, að þar sem það hefði verið ég, sem hefði unnið að undirbúningi gengislækkunarfrv., þá kæmi það úr hörðustu átt, að ég legði hönd að verki til þess að kippa grunninum undan áhrifum þeirra ráðstafana, með því að fylgja launahækkunum til opinberra starfsmanna, þá er þess að gæta, að þó að það sé að vísu þýðingarmikið, eins og nú stendur á, að afgr. greiðsluhallalaus fjárlög, ber þess að gæta og er þýðingarmikið að missa ekki sjónar á því, að ríkisbúskapurinn er ekki nema lítill hluti af þjóðarbúskapnum. Tekjur á fjárl. eru 1/5 af þjóðartekjunum, og það er jafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem allra mestu máli skiptir, . en ekki sjálft jafnvægið á fjárl. Annars vil ég taka fram, að þegar þessi hv. þm. hélt fram, að kaupkröfur opinberra starfsmanna og annarra væru það, sem valdið hefði dýrtíðinni, þá er því að mínu viti alls ekki þannig varið. Það er ekki hækkun kaups, sem fyrst og fremst hefur skapað dýrtíðina. Það er annað, sem liggur þar til grundvallar, og þá fyrst og fremst hinn mikli fjáraustur bæði úr bönkum og ríkissjóði í sambandi við fjárfestinguna. Kauphækkanir eru aftur á máti aðeins tilraun launþeganna að velta af sér þeirri kjaraskerðingu, sem af fjárfestingunni leiðir, tilraun, sem að vísu er að mínum dómi dæmd til að misheppnast, því að almennar kauphækkanir bæta því miður ekki kjör launþeganna. Ef svo væri, þá væri sjálfsagt að greiða 100 krónur í almennt verkamannakaup á klukkustund og annað kaupgjald eftir því, en því miður er þetta ekki þannig. Kaupgjaldið hefur aðeins áhrif á verðgildi peninganna, en ekki lífskjörin sjálf.

Ég skal viðurkenna, að það er æskilegt að afgr. greiðsluhallalaus fjárl. og ef opinberir starfsmenn ynnu kauplaust, þá væri það auðveldara. En mín skoðun er aðeins sú, að þó að sparnaður á opinberum rekstri sé nauðsynlegur, þá sé það ekki réttasta leiðin að spara við opinbera starfsmenn og greiða þeim miklu lægra kaup, en gert er annars staðar. Það var sannað á síðasta hausti, þegar þetta mál lá fyrir þinginu, að kaup iðnlærðra manna í opinberri þjónustu hefði orðið lægra, en verkamannakaup, ef verkamaðurinn hafði fulla atvinnu. Ættu allir að sjá, hvað meiningarlaust það er.