15.05.1950
Neðri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

15. mál, Sementsverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þætti vænt um að fá upplýst hér, hvort búið er að festa kaup á vélum til sementsverksmiðjunnar og hvort það muni vera von á þeim nú í ár eða á næsta ári. Hafi þetta verið upplýst í umr. áður, en ég ekki tekið eftir því, þá bið ég afsökunar á því, en ég vildi mjög gjarnan fá upplýst, hve langt þessum málum er nú komið. Ég vil enn fremur, vegna ummæla hv. þm. Mýr. um það, að eitt af eðlilegum rökum fyrir því að staðsetja svona verksmiðju á Akranesi væri, að dreifa þyrfti atvinnutækjunum meira um landið, vekja athygli á því, að ýmis sjónarmið koma þar til greina. Það er alveg rétt, að brýn nauðsyn er á þessu, en ég held það sé ákaflega nauðsynlegt að hugsa slíka dreifingu nokkuð út frá því, hvers konar tæki er hagkvæmast að setja á hvern stað fyrir sig. Ég álít, að á Akranesi væri eðlilegast að bæta við fleiri tækjum til útgerðar, t.d. togurum, og ég veit, að það bæjarfélag hefur haft áhuga fyrir því. Það er vitanlegt, að fyrir Alþ. hefur legið till. um að breyta þannig l. um togarakaup ríkisins, að reyna að gera bæjarfélögum úti um landið mögulegt að fá þessi tæki. Nú hefur þessu verið breytt aftur að tilhlutan eins ráðh. Framsfl., svo að ég býst við, að það sé ákaflega erfitt, eins og þau l. voru afgr., að koma þessum tækjum út um landið. Þó var þarna ákaflega eðlileg aðferð til þess að dreifa meira fjármagninu og skapa undirstöðu undir atvinnuvegina. Hvað sementsverksmiðjuna snertir, þá hygg ég það vera litlum vafa bundið, að not fyrir hennar framleiðslu verða hlutfallslega ákaflega mikil í Reykjavík og nágrenni hennar og á Suðurlandsundirlendinu, ekki aðeins vegna húsabygginga og annars slíks, heldur einnig vegna þeirra miklu virkjana, sem við göngum út frá að eigi að verða á næsta áratug á stórám hér sunnanlands, og ýmislegs fleira slíks, sem fyrirhugað hefur verið og nota þarf til sement í stórum stíl. Og þegar nota þarf svona mikið sement í þéttbýlasta hluta landsins, þá er ákaflega eðlilegt, að slík verksmiðja sé sett niður á sem hagkvæmastan stað í sambandi við þá sementsnotkun. Ég held það hafi komið greinilega fram í minni afstöðu, að ég hef ekki tilhneigingu til að halda í því sambandi fram rétti Reykjavíkur heldur en annarra staða, og ég hef viljað stuðla að því, að meira færi út um landið. En ég álít rétt að beita þeirri aðferð, að þeim greinum framleiðslunnar verði dreift út um landið, sem bezt er og hagkvæmast fyrir þjóðarheildina að koma þannig fyrir. Ég held þess vegna, að það þurfi að athuga málið mjög vel, áður en farið verði að setja sementsverksmiðjuna annars staðar niður, en í Reykjavík. Það eru tvö ár frá því að frv. um sementsverksmiðju var afgr., svo að það hefði átt að vera nægur tími til að rannsaka alla þessa aðstöðu til hlítar. Í þessu sambandi vildi ég líka benda á það, að þó að menn hafi undanfarið álitið, að atvinna væri svo mikil hér í Reykjavík, þar sem hún hefur haldizt lengur hér, en víða úti um landið, að þess vegna væri ekki rétt að ráðstafa framleiðslutækjum hér til viðbótar, þá vil ég benda á það, að eigi ekki að verða stórkostlegt atvinnuleysi hér í Reykjavík, þá er full þörf á að gera ráðstafanir til atvinnuaukningar hér. Og ef það á að verða sú breyting á atvinnulífi Reykjavíkur, sem þjóðinni er nauðsyn á, og ef draga á verulega úr því, sem nú sérstaklega einkennir Reykjavík, verzluninni og skriffinnskunni, og koma því fólki í hagnýtari störf, sem nú er að allt of miklum hluta í þessum greinum, og um leið að sjá svo um, að það geti búið hér áfram, þá veitir ekki af að skapa ný atvinnuskilyrði, ef ekki á að verða hér stórkostlegt og varanlegt atvinnuleysi.