13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

164. mál, lækkun tekjuskatts af lágtekjum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti: Það er aðeins út af brtt., sem hv. þm. V.-Ísf. mælti nú fyrir, og hins vegar áliti meiri hl. n., sem ég vildi segja örfá orð. — Þegar farið var að athuga, hvað kleift mundi vera að gera til þess að lækka skatt á lægstu tekjum, var rannsakað, hvernig það verkaði fyrir tekjur ríkisins, og þá var miðað við ýmis tekjubil. Og niðurstaðan varð sú að gera till. þá, sem er í frv. Og þar er miðað við 20 þús. kr. í hreinar tekjur á ári, þ.e.a.s. að frá dregnum stéttarfélagsgjöldum og öðrum gjöldum, sem heimilt er að draga frá við útreikning á skatti, áður en skattur er á lagður. Þetta er mjög nálægt því að vera tekjur verkamanns, sem hefur atvinnu hvern einasta virkan dag á árinu, og nánast miðað við það. Það kom í ljós, að gera mætti ráð fyrir, að það yrðu mjög margir skattþegnar, sem hefðu tekjur um þetta bil. Það sýndi sig, að þó að ekki væri farið lengra en þetta, mundi tapið af þessu fyrir ríkið verða rúmlega 2 millj. kr. Og það munaði þó nokkuð um það, sem þetta tap færi vaxandi, ef takmarkið fyrir lágtekjunum í þessu tilliti væri sett nokkru ofar, og þótti því ekki fært að ganga lengra í þessu en hér er gert ráð fyrir í frv. Ef brtt. þeirra hv. þm. V-Ísf. og hv. 2. þm. Reykv. væri samþ., mundi skatttapið muna meiru samkv. þessari brtt., og ég held, að óhætt sé að segja, að svo sé teflt á tæpasta vað um afkomu ríkissjóðs, að ég vildi ráða á móti því að samþ. þessa brtt.