19.12.1949
Neðri deild: 17. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

76. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég gerði ráð fyrir, að hæstv. ráðh. mundi gera grein fyrir þessu máli, en sá kafli, sem hér um ræðir, er úr dýrtíðarl., sem sett voru síðast liðið ár, en í þeim kafla er greint frá því, hvað gera skuli við útflutningsvörur sjávarútvegsins, og fjallar sá kafli einnig um tekjuöflun. Ég tel það réttan skilning, sem kemur fram í þessu frv., að það beri að taka til nýrrar meðferðar, hvort þessir skattar skuli standa áfram, því að þótt ekki sé tekið fram berum orðum, að þeir skuli falla úr gildi 31. des., þá gerir löggjöfin ráð fyrir, að þeir gildi það tímabil, og er þetta mjög greinilegt með kaflann um söluskattinn, enda þykist ég sjá það á því, að þetta frv. er komið fram, að einhver dráttur verði á því, að einhverjar ráðstafanir verði gerðar af þingsins hendi í dýrtíðarmálunum almennt, vegna bátaútvegsins og aðrar slíkar. Ríkisstj. hefur ekki haft þær till. tilbúnar, annars hefði hún lagt þar fram í einni keðju, eins og gert hefur verið. Er þá spurningin, hvort eðlilegt sé að framlengja þessa tekjuöflun, án þess að nokkuð sé um það vitað, hvað lagt verði til um ráðstafanir í þessu skyni að öðru leyti. Einu rökin, sem mæla með því, að þessi þáttur sé tekinn út úr, eru þau, að ef við verðum fyrir því óláni, að það dragist fram yfir áramót t.d. að gera nauðsynlegar ráðstafanir vegna útvegsins, þá er mjög slæmt, að úr gildi falli skattar eða tollar, sem verða svo, ef til vill, örlitlu síðar teknir upp aftur. En þetta eru líka einu rökin, sem ég sé frambærileg fyrir því að tala þennan kafla sérstaklega. Af þessum ástæðum mun ég fyrir mitt leyti — og ég hygg, að ég tali þar fyrir hönd Framsfl. — vera því fylgjandi, að þessi gjöld verði framlengd um stuttan tíma, t.d. til janúarloka, jafnvel þótt ekkert liggi fyrir um það, hvað gert verði í dýrtíðarmálunum að öðru, leyti. Það sýnist vera alveg nægilegt að framlengja þennan kafla til janúarloka, því að þá hljóta einhverjar nýjar ákvarðanir að hafa verið gerðar og heildarráðstafanir vegna útvegsins. Mér virðist, að með því að greiða á þennan hátt fyrir málinu, þá sé fyrirbyggt, að niður verði felldir um örstuttan tíma skattar, sem síðan verða, ef til vill, teknir upp aftur. Fyrir hinu eru hins vegar engin frambærileg rök að framlengja þessi gjöld um lengri tíma, án þess að skil séu gerð fyrir því, hvað gert verði í heild varðandi útvegsmálin og dýrtíðarmálin.