19.12.1949
Neðri deild: 17. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

76. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er rétt, eins og kom fram í umr., að ýmsir menn munu hafa gengið út frá því, að l., sérstaklega í III. kafla hvað tekjurnar snertir, mundu gilda áfram almennt. Þegar maður fer hins vegar að athuga þau, virðist greinilegt, að löggjafinn hefur hugsað sér þetta bundið við einstök ár. Í 24. gr. er t.d. talað sérstaklega um 1949 og ákveðna dagsetningu á því ári, en ekkert talað um árið á eftir eða á hverju ári skuli gera þetta. Eins er þetta í 29. gr., þar sem er ákvæði um, að tolltekjur á árinu 1949 renni í dýrtíðarsjóð, en þetta tekur ekki til fleiri ára. Samt er þessi kafli einvörðungu um dýrtíðarsjóð. Í 32. gr. er eingöngu talað um árið 1949. Ég held þess vegna, að þegar farið er að athuga þetta nánar, hljóti maður að líta svo á, að skilningur þeirra lögfræðinga sé réttur, sem telja, að kaflinn framlengist ekki af sjálfu sér og sé bundinn við árið 1949. Enda er þetta í samræmi við öll tekjuöflunarl., sem lögð eru fyrir þingið. Í hvert einasta skipti er sagt: Þessi skattur á bara að gilda fyrir næsta ár, það er engin hætta á, að hann verði framlengdur. Venjulega hefur sú hugsun verið ríkjandi og sérstaklega hjá þeim, sem fyrir tollunum og álögunum hafa mælt, en samt hefur það varla komið fyrir um nokkurn skatt, sem ég man eftir, nema einn einasta, að þeir hafi ekki verið framlengdir. Ég held þess vegna, að við umr. um þetta frv. verði n. að taka afstöðu frá því sjónarmiði, hvort menn séu með því að framlengja einmitt þessa skatta og þessar álögur áfram eða hvort menn eru á móti því, en ekki frá hinu sjónarmiðinu, hvort menn eru að skera úr juridisku vafaatriði um gildi þessa kafla l. Þegar þessi III. kafli dýrtíðarl. var samþ., voru sósíalistar á móti honum, og ég mun fyrir mitt leyti vera á móti honum nú. Ég álít þess vegna, að úr því að málið er komið inn á þingið á þennan hátt, þá sé gefið tilefni til að ræða einstök atriði í sambandi við þennan kafla dýrtíðarl. Það liggja nú þegar fyrir brtt., og er ekki nema eðlilegt, að þær fái afgreiðslu. Ég mun ekki ræða þetta við 1. umr., heldur 2. umr. þessa máls. Ég get nú satt að segja ekki séð, að það sé almennt nein ógæfa, þó að skattar kynnu að falla niður eða tollar, eins og hv. 1. þm. S-M. var að minnast á hér áðan, og mig minnir nú, að einmitt sá flokkur, sem fer með ríkisstjórn í landinu nú, hafi sérstaklega lofað að lækka skatta og tolla. Hver veit nema þessi kafli yrði betri eða réttlátari, þegar farið væri að leggja á tollana á nýja árinu, heldur en hann varð, þegar þessir skattar voru lagðir á? Síðan þetta þing kom saman, hef ég ekki heyrt neitt annað frá þessum nýkjörnu þm. en að afnema beri þessa skatta, sem lagðir eru á í III. kafla. Ég held því, að þetta verði hv. þm. kærkomið tækifæri til að létta ofurlítið álögunum af þjóðinni og þeim beri að fagna því, þó að tilefnið kunni að vera juridiskur misskilningur í sambandi við l. Við 2. umr. málsins verður hins vegar tækifæri til þess að koma nánar inn á þau atriði.