10.01.1950
Efri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

69. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Áður en gengið er til dagskrár, vil ég minna á, að síðustu dagana fyrir jól kom til d. og sjútvn. frv. um fiskveiðaréttindi Dana hér við land. Þótti ekki fært vegna mótmæla, sem bárust frá einni verstöð landsins, Vestmannaeyjum, að afgr. málið fyrir jól eins og ég óskaði eftir. Sá ég ekki fært að leggjast á móti því, að málið fengi hæfilega athugun, úr því að efnislegar aths. komu fram. Hins vegar horfir þetta mál þannig við gagnvart viðskiptum okkar við annað ríki, að það mundi af því leiða vafninga, ef frv. væri ekki samþ. eða fellt. Nú tel ég rétt, að menn leggi mat á þetta frv. eftir atvikum málsins, og vil ekki hafa áhrif á, að menn taki afstöðu til málsins frá óeðlilegu sjónarmiði. En ég vildi mælast til þess, að afgreiðslu frv. yrði hraðað, þannig að enginn ónauðsynlegur dráttur ætti sér stað: