30.03.1950
Efri deild: 84. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Virðulegi forseti. Því miður getur hæstv. fjmrh. ekki verið viðstaddur hér í kvöld, en ekki þykir fært að fresta afgreiðslu málsins, vegna þess að þetta frv. þarf að samþ. á morgun og fá staðfestingu sem lög og verða birt fyrir kl. 12 annað kvöld. Ég hef orðið við tilmælum hv. fjmrh. að fylgja þessu frv. hér úr hlaði.

Það er augljóst mál, að það er ekki ánægjulegt að þurfa að framlengja skatta og tolla, ekki sízt ef nægilega mikið af þeim er til, eins og er nú hér á landi. Ástæðan fyrir því, að farið er fram á framlengingu þessara gjalda, er sú, að undanfarnar 2 vikur hefur fjmrn. rannsakað útgjöld fjárl. og hversu mikið hefur verið tekið upp á fjárl. af því, sem þarf að greiða á þessu ári. Skv. þessu er áætlað, að gengislækkunin hafi þau áhrif, að hún kosti ríkið 10–15 millj. kr. Enn fremur er áætlað vegna launauppbótar embættismanna, að þá aukist útgjöld fjárl. um 10–15 millj. kr. Þá hafa og verið rannsökuð margs konar gjöld, sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður gjaldi og ekki hafa verið tekin inn á fjárlögin, og gert er ráð fyrir, að sú aukning nemi um 10–15 millj. kr. Fyrir þessum útgjaldaliðum vantar algerlega tekjur á fjárl. Nú undanfarið eftir að fjmrn. gerði þessa athugun á áhrifum gengislækkunarinnar, hefur þetta verið rætt í ríkisstj., einnig í fjvn., og í ljós hefur komið, að þótt þessir skattar verði framlengdir, þá verður enginn afgangur af tekjunum, þetta nægir aðeins til að ná tekjuhallalausum fjárl. Þetta hefur verið þaulrætt í ríkisstj., og niðurstaðan hefur orðið sú, að ríkisstj. stendur öll að framlengingu þessara l. Eitt af undirstöðuatriðum þessara ráðstafana er, að fjárl. verði ekki afgreidd með tekjuhalla. En ef greiðsluhalli yrði á fjárl., þá er stefnt út í það sama, sem við ætluðum að fyrirbyggja með gengislækkuninni. Ég sé nú ekki ástæðu til að ræða þetta nánar, en tek það fram, að mér finnst bagalegt, að ekki skuli hafa verið hægt að leggja frv. fram fyrr. En það er ekki með glöðu geði, að við leggjum til, að þessir skattar verði framlengdir, og þess vegna reyndi ríkisstj. að athuga allar leiðir, ef hægt væri að komast hjá þessu. En svo reyndist þó ekki, og var þessum útreikningum ekki lokið fyrr, en nú allra síðustu dagana. — Eins og ég sagði um frv., sem afgreitt var nú rétt fyrir stundu, þarf þetta frv. að fá samþykki d. á morgun, svo að hægt sé að staðfesta það sem lög og birta. Það eru vinsamleg tilmæli mín, að hv. þm. sjái sér fært að stytta mál sitt og tefja ekki umræður fremur, en nauðsyn krefur. Svo óska ég, að frv. verði vísað til 2. umr.