07.12.1949
Efri deild: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég flyt hér ásamt hv. þm. S-Þ. (KK), er gamall kunningi hér í d. Það er samhljóða frv., sem ég ásamt öðrum þm. flutti hér á síðasta þingi. Þær breyt. einar, sem eru í þessu frv. frá því sem það var, þegar það var flutt á síðasta þingi, eru í síðustu málsgr. 3. gr. Þar er gert ráð fyrir, að verðlagsstjóri rannsaki gæði og verð á íslenzkum iðnaðarvörum og gefi fjárhagsráði skýrslu um þetta fjórum sinnum á ári, enn fremur, að skýrslan beri með sér, hver fyrirtæki eru samkeppnisfær við útlönd og sé hagfelldast að annist framleiðslu á þeim vörum, sem þjóðin þarfnast frá iðnaðinum. Ég vil benda á það, að frv. fylgir allýtarleg grg. Enn fremur var frv. rætt nokkuð á síðasta þingi. Þetta er eitt af mörgum frv., sem ýmsir þm. Framsfl. munu flytja og innan skamms koma fram hér á Alþ. og verða ein heild í þeim ráðstöfunum, sem Framsfl. álítur, að þurfi að gera sem undirstöðuatriði í dýrtíðarmálunum, og er í samræmi við það, sem kom fram á síðasta þingi og síðar á öðrum vettvangi. — Ég hygg, að þetta frv. hafi á síðasta þingi verið í allshn., og það er eðlilegast, að það fari þangað. Ég óska því eftir, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.