31.03.1950
Neðri deild: 80. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er smáatriði. Hæstv. ráðh. vildi líta svo á, að viðvíkjandi valdi verðlagsstjóra eða áhrifum á verðlag, þá væri 9. gr. nægileg til þess að tryggja það, sem upprunalega var tilgangurinn. Hann las aðeins upphaf gr., en öll hljóðar hún svo með leyfi hæstv. forseta:

„Verðgæzlustjóri og þeir, sem með verðlagseftirlit fara samkv. lögum þessum, geta krafið hvern sem er allra þeirra upplýsinga, skýrslna og annarra gagna, er þeir telja nauðsyn í starfi sínu, enda hvílir á þeim þagnarskylda um þau atriði, er þeir komast að í greindu starfi, og er þeim bannað að skýra óviðkomandi frá því. að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn.“

M. ö. o., ef verðlagsstjóri ætlar að nota þessar upplýsingar og gera þetta almenningi kunnugt, þá fer hann í tugthúsið. Ég held, að hér sé harðvítugt ákvæði um að binda fyrir munninn á verðlagsstjóra, án þess að ég ætli að nota mér, að hæstv. ráðh. er hás, til að deila um þetta við hann. Ég held, að það hefði verið betra að halda því, sem var upprunalega í 3. gr. Þegar það er strikað út, þá held ég, að það sé sýnt, að hæstv. stj. vill ekki mikla íhlutun í þessi mál, heldur enga. Þetta aðhald, sem 9. gr. á að gefa, hefur því lítið að segja.

Þá er það viðvíkjandi svarta markaðinum. Hæstv. ráðh, vill halda því fram, að 9. gr. eigi líka að tryggja það og neytendasamtökin í landinu eigi að hafa þar vald, ef þau noti það þannig. Ég held, að þetta sé misskilningur. Ég held, ef verðlagsstjóri skiptir sér af, hvernig ákveðnir hlutir eru komnir inn í landið, þá muni verða sagt við hann: Meðan ekki er beinlínis framið verðlagsbrot, þá varðar þig ekki um það. — Ég er því hræddur um, að 9. gr. komi þar ekki að haldi. Ég held, að þar sé aðeins að ræða um verðlagseftirlit samkvæmt þessum l. og verðlagsstjóri hafi aðeins rétt til að krefjast upplýsinga við brotum samkvæmt þeim l. Ef hann t. d. grunar einhvern um smygl í Keflavík, þá heyrir það undir sýslumanninn í Hafnarfirði. Þetta mundi sem sagt verða kæft niður hjá verðgæzlustjóra, ef hann kæmist nokkurn tíma svo langt að grafast fyrir um þetta. Ég er því hræddur um, að það væri mjög nauðsynlegt í þeirri n., sem þetta fer til, að reyna að setja það í það form, sem það hafði upprunalega. Ég vil vona, að hæstv. ráðh. og fulltrúar hans í þeirri n. sýni sig eins reiðubúna til að mæta nýjum rökum, sem fram kunna að koma, og lagfæra frv. eins og þeir hafa sýnt sig reiðubúna í Ed. að minnka það aðhald, sem þeir ætluðust til, að væri þar.