21.04.1950
Neðri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Einar Olgeirsson:

Það er út af brtt. frá hv. 3. landsk. Ég held, að hér sé um misskilning að ræða. Var um þetta rætt við 1. umr., að engin breyting sé gerð á hlutverki verðlagsstjóra. Sannleikurinn er sá, að með þeirri breyt. á l., sem gerð var í Ed., þá er stórum dregið úr því tillöguvaldi, sem verðlagsstjóri hefur nú. Eins og frv. var lagt fram fyrst, þá er gengið út frá því í 3. gr., sem byrjar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Verðlagsstjóra er skylt að gera ýtarlegar og rökstuddar tillögur til fjárhagsráðs um verðlag í landinu, álagningu og hver verðlagsákvæði skuli þar um sett.“ Þetta hefur verið fellt burt. M. ö. o., ætlun hv. flm. var að halda ákvæðum um vald verðlagsstjóra, nefnilega að hann skyldi rannsaka verðlagsmyndunina í landinu og gera tillögur um, hver verðlagsákvæði skyldu sett. Þetta var nokkurt vald í höndum verðlagsstjóra, sem skipaður væri af neytendasamtökum. Verðlagsstjóri, sem slíkt vald hefði, var embættismaður, sem e. t. v. gat gert eitthvað í þessu. Ef verðlagsstjóri hefði því haft hið gamla vald, þá hefði það haft þýðingu, því að það var hugsanlegt tiltölulega, að maður skipaður skv. 2. gr. vildi gera eitthvað verulega í því að hafa eftirlit. Hins vegar varð samkomulag um það með stjórnarflokkunum í Ed. að fella þetta vald burt. Hann hefur eigi lengur tillögurétt til fjárhagsráðs, og því hafa stjórnarflokkarnir breytt nafni hans í verðgæzlustjóra. Það er verið að rýra vald, til þess að hann verði ekki hættulegur, og er hann þess vegna gerður að verðgæzlustjóra eingöngu. Þetta er ákaflega táknrænt atriði um framgang málsins, hvergi þó eins og í byrjun 4. gr., sem hljóðar svo í upphaflega frv., að fjárhagsráð skuli að fengnum tillögum verðlagsstjóra ákveða o. s. frv., en nú er það aðeins, að fjárhagsráð skuli ákveða o. s. frv. Ég minntist á þetta við 1. umr. málsins, en hæstv. landbrh. vitnaði í 9. gr. og sagði, að vald hans væri tryggt. Ég vildi þó draga það í efa og sagði, að bezt væri að ganga úr skugga um, að hann hefði leyfi til athugunar, og flyt ég aftur brtt. þess efnis, að verðgæzlustjóra sé skylt að gera ýtarlegar og rökstuddar till. til fjárhagsráðs. Ég held því, að þá yrði eigi þýðingarlaus þessi breyting á nafninu. Stjórnarflokkarnir eru að draga úr valdi verðlagsstjóra og vildu því breyta nafninu á honum. Hins vegar flyzt nú valdið til að verðleggja yfir á fjárhagsráð, sem er miðstöðin fyrir makkið. Þar koma stjórnarflokkarnir sér saman um að slaka til og samræma hagsmuni valdaklíknanna. Hafa þeir því hugsað sér, að verðlagsstjóri hefði of mikið vald og gæti orðið óþægur ljár í þúfu gagni olíuhringanna. Þessi breyting á frv. er í fullu samræmi við a.ð gera það að „húmbúgi“. Ég held því, að eigi að vinna að þessu með hv. 3. landsk., en það er gott að breyta þessu orði, þá eigi að gefa verðlagsstjóra það vald, sem hann hafði upprunalega.

Það má prófa það við þessa umr., og má þá gera það síðar að bæta við þetta vald.

Annars vil ég eigi orðlengja um frv. Verður skorið úr því við atkvgr., hvort hægt muni vera að koma fram breyt. — Mér finnst óviðkunnanlegt að taka III. kaflann út úr l. um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit. Er þar allt um skyldur fjárhagsráðs, og er þetta á vissan hátt óviðkunnanlegt, en þarf eigi að varða miklu. Sannleikurinn er sá um 4. gr. frv., að hún ætti að vera í fjárhagsráðsl. sjálfum, II. kaflanum, sem fjallar um verðlag.

Þetta vildi ég m. ö. o. segja út af þessari brtt.