21.04.1950
Neðri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Einar Olgeirsson:

Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. verðskuldar það traust, sem kom framhjá hv. 3. landsk. og hann virðist bera til hennar. Þegar athugað er frv., eins og það var í upphafi og hvernig því hefur nú verið breytt, finnst mér það vera alveg augljóst, að einhver tilgangur hafi verið með þeim breyt. Þegar landbrh. var spurður um það við 1. umr. málsins hér á d., fór hann bara undan í flæmingi, en 1. og 2. mgr. 3. gr. frv. voru upphaflega svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðlagsstjóra er skylt að gera ýtarlegar og rökstuddar tillögur til fjárhagsráðs um verðlag í landinu, álagningu og hver verðlagsákvæði skuli þar um sett.

Tillögur þessar getur verðlagsstjóri gert, hvenær sem hann telur þess þörf, enda getur fjárhagsráð krafið hann um slíkar tillögur, eftir því sem þurfa þykir.“

Þessar tvær málsgr. hafa nú verið felldar niður, en í stað þeirra stendur nú í byrjun 3. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Verðgæzlustjóri skal hafa eftirlit með því, að verðlagsákvæðum fjárhagsráðs sé hlýtt.

Hann annast allan daglegan rekstur í sambandi við verðlagseftirlitið.“

Hann getur með öðrum orðum vakið eftirtekt á því, ef sama vara er seld með mismunandi verði, en valdið til þess að undirbúa tillögur um verðlag til fjárhagsráðs og valdið til þess að rannsaka verðlagspóstana í landinu, sem hefur verið hjá verðlagsstjóra, þetta vald er nú tekið af honum. Hitt er að vísu rétt, að fjárhagsráð getur falið honum þetta vald eftir 5. gr. frv.

Þá er það 4. gr. Upphaflega var hún svona: „Fjárhagsráð skal að fengnum tillögum verðlagsstjóra ákveða hámarksverð á hvers konar vörur og verðmæti....“ En nú er það: „Fjárhagsráð skal“, en svo er sleppt: „að fengnum tillögum verðlagsstjóra,“ en síðan er greinin eins og áður. Þetta hlýtur að vera gert af ráðnum hug og í þeim tilgangi að draga úr tillöguvaldi hans um verðlagningu. Hæstv. landbrh. vildi benda á það, að 9. gr., sem kemur í stað 10. gr. eins og frv. var í upphafi, gæti náð sama tilgangi, því að fjárhagsráð mundi aldrei þora að gefa á sér höggstað vegna hennar. En þetta er ekki byggt á réttum forsendum, því að á verðgæzlustjóra hvílir sérstök þagnarskylda sem embættismanni, og varðar við hegningarlög, ef hann brýtur hana, svo að hann getur ekki birt þær upplýsingar og skýrslur, sem hann kann að hafa aflað.

Þá hefur breyting einnig verið gerð á 5. gr., en hún hljóðaði svo í upphafi, með leyfi hæstv. forseta: „Fjárhagsráð getur að meira eða minna leyti fengið verðlagsstjóra í hendur vald til þess að framkvæma í sínu umboði þær verðlagsákvarðanir, sem ræðir um í 4. gr.“ Þessari gr. hefur nú verið breytt, en þetta er einmitt gr., sem gefur verðlagsstjóra mikið vald um verðlagsákvarðanir, ef hún hefði verið óbreytt, en nú er gr. svohljóðandi: „Fjárhagsráð getur að meira eða minna leyti fengið ákveðnum trúnaðarmanni sínum í hendur vald til þess að framkvæma í sínu umboði þær verðlagsákvarðanir, sem ræðir um í 4. gr.“ Þá væri vitanlega hugsanlegt að fela verðgæzlustjóra þetta vald, en það hefur bara hvergi komið fram, að slíkt sé tilgangurinn, enda var þá breyt. óþörf, og ég hef ekki fengið það upplýst, að hve miklu leyti hefur verið hugsað að fela honum þetta vald. Það gæti alveg eins verið, að fjárhagsráð ætli sér að fela einum af meðlimum sínum að gera þetta. Það er hugsanlegt, að þarna kæmi bara upp nýtt embætti, kannske tveggja manna, en um þetta hafa engar upplýsingar fengizt. Það væri því mjög æskilegt, ef hæstv. ríkisstj. vildi upplýsa, hver fyrirætlun hennar er í þessu máli, svo að maður þurfi ekki að vera með neinar efasemdir um það eða skilja það á tvennan hátt.