25.04.1950
Neðri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð út af ummælum hv. 1. þm. Árn. Honum hafði skilizt á mér, að ég hefði sagt, að verðlagsstjóri hefði haft valdið um verðlagsákvörðunina. Ég held ég hafi nú ekki komizt þannig að orði, þó að ég kunni að hafa talað of óljóst. Hitt átti ég við, að verðlagsstjóri rannsakaði verðlagsmyndunina í landinu og gerði á þeim grundvelli tillögur um það verðlag, sem ætti að gilda. Vald þess embættismanns, sem þannig hefur með höndum alla skýrslusöfnun og á eftir þeim að meta verðlagið, er ákaflega mikið. Og þótt fjárhagsráð hafi endanlegt vald um úrskurð, verður það að byggja á öllu mati og starfi verðlagsstjóra. Hann framkvæmir matið og leggur það fyrir fjárhagsráð og hefur þannig mjög sterka aðstöðu til ákvörðunar á verðlaginu. Fjárhagsráð verður hins vegar eins konar gerðardómur, og hið verðlagsákvarðandi vald verðlagsstjóra er tvímælalaust ákaflega mikið, enda segir líka svo í 4. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Fjárhagsráð getur að meira eða minna leyti fengið verðlagsstjóra í hendur vald til að framkvæma í sínu umboði þær verðlagsákvarðanir, sem um ræðir í 4. gr.“ Þetta er þannig ekkert spursmál, að verðlagsstjóri hefur ákaflega mikið verðlagsákvarðandi vald, og samkvæmt frv. Framsóknar átti þetta vald að leggjast í hendur fólksins, sem kysi verðlagsstjóra. Ég held því, að það standist, að með því að kippa þessu verðlagsákvarðandi valdi úr höndum fólksins er verið að kippa burtu helmingnum af upphaflegum tilgangi Framsfl. með frv. Í öllum tilfellum hefur fjárhagsráð haft hið endanlega úrskurðarvald, en aðstöðumunur verðlagsstjóra nú og þá er alveg gífurlegur. Till. mínar fara fram á, að verðlagsstjóri hafi það vald, sem upphaflega var ákveðið. Það er ekki farið fram á neitt meira. En geti verðlagsstjóri skírskotað til þeirra samtaka, sem kusu hann, þá hefur hann baráttuaðstöðu, sem hann hefur ekki nú, og stendur ólíku betur að vígi með að rísa gegn því, þótt fram kynni að fara í fjárhagsráði ýmislegt makk þeirra, sem hafa stærstar „interessur“ í sambandi við verðlag í landinu. Hann hefur það mikið vald, að það var dýrmætt, að samtök fólksins kysu hann.

Væri brtt. mín við 3. gr. samþ., þá finnst mér líklegt, að 5. gr. yrði praktíseruð svo, að fjárhagsráð fengi verðlagsstjóra umræddar verðlagsákvarðanir í hendur að mestu. Hins vegar hefur þessi verðgæzlustjóri fólksins lítil völd nú, en fjárhagsráð því meiri og málið þannig komið undan áhrifavaldi alþýðu.